02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3074)

69. mál, endurskoðun heilbrigðislöggjafar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þessi þáltill. var flutt af okkur þremur þm., en 1. flm. er Kristján Ingólfsson, sem hér átti sæti sem varamaður um skeið í haust, en hann er nú horfinn af þingi. Mér þykir rétt, úr því að málið er á dagskrá í dag, að fylgja því eftir vegna forfalla 1. flm.

Það kemur fram í till., að Alþ. álykti að fela heilbrmrh. að skipa nú þegar mþn., er hafi það hlutverk að endurskoða gaumgæfilega núgildandi læknaskipunarlög með það fyrir augum, að á komist meiri festa og traustari læknisþjónusta í landinu. Nefndin skal skipuð 9 mönnum, þar af skal landlæknir sjálfkjörinn og vera formaður nefndarinnar. Aðrir nm. skuli tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Einn maður frá hverjum hinna fjögurra þingflokka, tveir af hálfu Læknafélags Íslands, og skal a.m.k. annar þeirra vera starfandi héraðslæknir, einn af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og loks einn af hálfu læknadeildar Háskólans.

Þetta er meginefni till. Það þarf ekki að fara um það ýkjamörgum orðum, hversu brýnt mál það er að bæta úr læknaskortinum, sem nú er og lengi hefur verið í dreifbýlinu, og við, sem stöndum að þessari till., teljum eðlilegt, að í því sambandi fari fram endurskoðun læknaskipunarlaganna. Að vísu eru læknaskipunarlögin ekki gömul, því að þau eru frá árinu 1964, en samt sem áður hefur komið í ljós, að lögin, eins og þau eru úr garði gerð, tryggja engan veginn að læknishéruð séu fullskipuð, t.d. skilst mér, að nú sé þannig ástatt, að um 10 eða 12 læknishéruð séu óskipuð af þeim 55 héruðum, sem til eru samkvæmt læknaskipunarlögunum.

Nú er það að vísu engan veginn ætlun okkar, sem að þessari till. stöndum, að farið verði út í stórfellda kollsteypu eða stórbreytingar á læknaskipuninni. Það er ekki endilega víst, að það sé sú rétta leið, en eigi að síður kann að vera eðlilegt, að ákvæði laganna, bæði sjálf skipun læknishéraðanna og annað, sem í lögunum stendur, verði endurskoðað. Ég vil taka fram, að við, sem stöndum að þessari till., höfum enga sérstaka „patentlausn“ á því, hvernig þetta skuli vera. Hins vegar teljum við, að eðlilegt sé, að þetta stóra mál verði tekið til gaumgæfilegrar skoðunar og það verði mþn., sem fjalli um þetta mál, allfjölskipuð mþn., þar sem hinir ýmsu aðilar, sem þetta mál snertir, bæði beint og óbeint, eigi aðild að. Þess vegna höfum við lagt til, að landlæknir verði sjálfkjörinn í nefndina sem helzti yfirmaður heilbrigðismálanna að undanskildum ráðh. og hann verði formaður nefndarinnar, en einnig að þá eigi sæti í þessari nefnd fulltrúar frá þingflokkunum, og með því móti erum við að tryggja Alþ. sem löggjafaraðila hlut að þessari mþn., og einnig leggjum við til, eins og ég hef sagt, að fulltrúar verði frá Læknafélagi Íslands, enda augljóst mál, að þetta snertir ekki lítið læknastéttina í landinu. Þá höfum við einnig lagt til, að fulltrúi verði í þessari nefnd frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en það er jafnframt augljóst, að sveitarfélögin eiga þarna eðlilega aðild að, þegar farið verður að endurskoða læknaskipunarlögin. Og að lokum leggjum við það til, sem mig langar að undirstrika, við leggjum til, að einn fulltrúi verði af hálfu læknadeildar Háskólans. En það eru ýmsir, sem telja, að það skipti ekki litlu máli, að læknadeild Háskólans verði aðili að slíkri endurskoðun á læknaskipunarlögunum og þarf ekki frekar að rökstyðja það, því að í læknadeildinni fá læknarnir sitt uppeldi, og það varðar ekki litlu, hvernig það uppeldi er og hvernig kennsluhættirnir eru, sem þar fara fram. Ég hygg því, að eins og þessi nefnd er hugsuð, þá sé hún á mjög breiðum grundvelli og hún sé eðlilega skipuð, og ég vænti þess, að þessi till. fái góðar undirtektir í þinginu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvernig ástandið er í læknamálunum. Það er öllum hv. þm. margkunnugt og þess vegna ekki bein ástæða til þess að eyða löngu máli að þessu sinni í að ræða það sérstaklega, a.m.k. tel ég ekki þörf á því. Hins vegar tel ég það afar mikils virði, að þessi till., eins og hún er orðuð, sannarlega hógværlega orðuð, fái greiðan gang í þinginu og einkum, að hún komist til þingnefndar og fái þar eðlilega skoðun. Ég vil því leyfa mér í lok þessarar umr., herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.