22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

69. mál, endurskoðun heilbrigðislöggjafar

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessi mál öll hafa mikið verið rædd á hv. Alþ. áður, og það er ástæðulaust að flytja langa framsögu, eins og nú er komið tíma þingsins. Allshn. varð sammála um, að hér væri mikið alvörumál á ferðinni og leggur til, að þessi till. verði samþ., en þó með tveimur meginbreytingum. Annars vegar þeirri að fækka í nefndinni. Í upphaflegu till. er gert ráð fyrir níu manna nefnd, en í brtt. allshn. er gert ráð fyrir, að nefndin verði skipuð fimm mönnum. Að hinu leytinu að færa út verksvið þessarar nefndar, þannig að hún, auk þess að taka til athugunar læknaskipunina, athugi einnig sérstaklega skipulag sjúkrahúsanna. En nál. og till. allshn. um breytingu liggur hér fyrir á þskj. 565, og vil ég að öðru leyti láta nægja að vísa til þskj.