19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

180. mál, rækjuveiðar

Flm. (Þorsteinn Gíslason):

Herra forseti. Fram er komin till. um, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að ráðinn verði til reynslu vel hæfur erindreki, sem ferðist um landið til að glæða áhuga og kynna mönnum nýjungar við leit, útbúnað báta, veiðar og vinnslu á rækju og þá sérstaklega eins og slíkt gerist meðal þeirra þjóða, sem lengst eru komnar á þessu sviði.

Hér á landi hófust rækjuveiðar á Ísafjarðardjúpi árið 1936 og hafa einkum verið stundaðar við Vestfjarðakjálkann eða í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og á Hrútafirði. Við leit á undanförnum árum hefur rækja fundizt á mörgum stöðum við landið, allt frá grynnstu miðum og út í landgrunnskantinn. Og er menn tóku að stunda grálúðuveiðar s.l. sumar á djúpmiðum út af Norður- og Austurlandi, urðu þeir varir við rækju. Er leitarskip fóru í könnunarleiðangur á þessa staði s.l. haust, virtist vera þarna um mikið magn að ræða. Þá fundust í þessum leiðangri góð rækjumið nær landi eða í námunda við Kolbeinsey. Einnig er vitað, að Norðmenn fundu nýlega líkleg mið við Jan Mayen, og var það mjög stór rækja, sem veiddist þar. Þar sem sáralítið hefur verið leitað á dýpri miðum, má ætla af þessari byrjunarreynslu, að þarna geti víða verið góð veiðisvæði, og er þarna ærið verkefni handa leitarskipunum fram undan, verkefni, sem við höfum engin efni á að láta bíða.

Markaður fyrir rækju er stór. Þetta er dýr vara og eftirspurn mikil. Hlutur okkar Íslendinga er lítill. Á seinustu árum hefur ársaflinn komizt upp í 2–300 lestir, þegar heimsframleiðslan er 8–9000 lestir. Og þótt við gætum aukið verulega framleiðslu á þessum afurðum, er talið, að það ætti engin áhrif að hafa á sölumöguleika okkar. Í þessu sambandi má nefna, að á seinustu árum hefur sala á rækju aukizt mikið frá Bandaríkjunum til Svíþjóðar og frá Kanada til Englands.

Meðal þeirra þjóða, sem mest veiða, hefur ýmislegt nýtt komið fram í gerð rækjubáta. Þróunin hefur verið sú, að bátarnir hafa stækkað og gerðir breytzt vegna fenginnar reynslu. Þessir bátar eru einfaldir í byggingu og þess vegna tiltölulega ódýrir. Þá hefur gerð veiðarfæra breytzt og ýmsar nýjungar komið fram. Hafa þær hentað vel við breyttar aðstæður. Hér á Íslandi var t.d. tekin í notkun árið 1967 mun stærri varpa en áður hafði verið notuð, og við það óx aflinn stórlega. Í notkun er komin ný gerð dýptarmæla, sem hefur reynzt mjög vel við leit og rækjuveiðar í Asíu og Ameríku. Enn þá hefur ekkert íslenzkt skip fengið slíkt tæki.

Aðferðir við geymslu hafa breytzt. Á heitari hafsvæðum eru bátar upp í 12 daga í veiðiferð. Í Noregi hafa menn t.d. víða þann hátt á, að þegar afla hefur verið landað, er hann fluttur í hylkjum til staða, þar sem hann er svo unninn.

Hér hefur verið drepið á fáein atriði af mörgum, sem við gætum e.t.v. lært af reynslu þeirra, sem af henni eru ríkari. Okkar fámenna þjóðfélag hefur engin efni á því að stunda rannsóknir á vinnubrögðum í stórum stíl eða eyða mörgum og dýrmætum árum í vangaveltur um gerð og útbúnað skipa, á meðan aðrir ausa upp fiski við nefið á okkur á sínum fullkomnu togveiðiskipum.

Rækjuvinnsla krefst ekki mikils útbúnaðar, hvorki frystingar né niðursuðu, en hún þarf mikið vinnuafl. Dragist bolfiskveiðar saman á grunnmiðum, eins og margir ætla, gæti þarna orðið verkefni fyrir marga af minni vélbátum okkar, en það hefur sýnt sig, að þeir geta stundað rækjuveiðar á dýpri miðum, a.m.k. yfir sumarmánuðina. Víða hefur skapazt slæmt ástand með sumaratvinnu. Sérstaklega hefur þetta bitnað á skólafólkinu og jafnvel gert því ókleift að ljúka námi eða sækja skóla fjarri heimilum sínum. Þess vegna megum við ekkert tækifæri láta ónotað til þess að auka þennan atvinnuveg, sem gæti stóraukið möguleikana á sumaratvinnu fyrir æskufólkið.

Því miður er það óskhyggja — og verður um næstu framtíð — að álíta, að við getum haldið áfram að lifa hér í landi við þá lífsháttu, sem við höfum tamið okkur, fyrst og fremst af því, sem okkur tekst að draga úr sjónum, en við verðum að dreifa sókninni sem mest á veiðanlegan sjávarafla og kosta kapps um að auka veiði og iðnað á dýrustu tegundunum, og með meiri fjölbreytni er síður hætta á, að ofsókn myndist í þær tegundir, sem auðveiðanlegastar eru hverju sinni. Við þurfum að byggja og láta byggja fleiri skip, einföld, dugleg og þróttmikil veiðiskip af ýmsum gerðum, sem henta þeim verkefnum, sem þeim eru ætluð. Okkur vantar verðug verkefni handa þeim starfsfúsu höndum, sem neyðzt hafa til þess að þiggja atvinnuleysisstyrk. Og væri þá ekki hægt að nota styrkinn sem skapandi atvinnufé? En það er napurt, ef ekki verður hægt að skapa nýjum skipum eðlilegan rekstrargrundvöll, skipum, sem mörg skila þjóðarbúinu árlega í útflutningsverðmæti upphaflegu kaupverði sínu. Takist okkur að endurnýja fiskiskip okkar á eðlilegan hátt ásamt mögulegri og vitlegri iðnvæðingu, þurfum við ekki að kvíða framtíðinni né óttast, að stór liður útflutnings okkar verði í umframframleiðslu mennta- og hæfileikamanna.

Herra forseti. Flm. þessarar till., sem hér er til umr., vona, að hún fái sem fljótlegasta afgreiðslu, því að áhugi á þessu málefni er víða í hinum ýmsu útgerðarstöðum landsins.