29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

126. mál, söluskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég get tekið undir það, sem hér hefur verið sagt af hv. 11. þm. Reykv. og 2. þm. Austf. um þá varhugaverðu stefnubreytingu í tekjuöflunaraðferðum ríkisins, sem er að finna í þessu frv. og boðuð er. Við það, sem þar hefur verið sagt, hef ég engu að bæta.

En mig langaði aðeins til í þessu sambandi að minnast á eitt atriði, sem að vísu má segja, að sé ekki nýtt af nálinni í sambandi við þá hækkun á söluskatti, sem hér liggur fyrir, en þó verður að mínum dómi enn varhugaverðara og athugaverðara, eftir að sú hækkun er komin til greina. Það er sú skipan, sem á er höfð um innheimtu þessa skatts, að það eru hundruð, já, þúsund aðilar gerðir að innheimtumönnum fyrir ríkissjóð. Ég held, að það kerfi, sem þar er um að ræða, sé ákaflega vafasamt og það sé farið inn á ákaflega varhugaverðar brautir með því að gera svo marga aðila að innheimtumönnum fyrir ríkissjóð. Það segir sig sjálft, að það stendur misjafnlega á fjárhagslega hjá þessum aðilum, sem þannig eru gerðir að innheimtumönnum. Þeir eru vissulega misjafnlega færir um að inna þetta hlutverk af hendi, svo að í lagi sé.

Hæstv. fjmrh. minntist á í sinni frumræðu, þegar hann var að ræða um þá heimildargr., sem samþ. var í hv. Nd., að það væri nú svo ástatt í mörgum þeim fyrirtækjum, sem ættu að hafa þessa innheimtu með höndum, að þau hefðu engan kassa og sennilega ekki mikið bókhald öll. Það segir sig nú sjálft, hvernig skil verða á skatti, sem á að innheimta með slíkum hætti. Ég vil að vísu ekki vera með neinar fullyrðingar um það hér, að það hafi verið svo og svo mikil vanskil á söluskatti. Ég hef náttúrlega engin sönnunargögn í hendi um það. En hitt er þó víst, að það er nú almannarómur, að það hafi ekki allt komizt til skila í því efni og það vil ég segja, að ég hef séð skýrslur um þetta efni staðbundnar við ákveðin landssvæði eða umdæmi, þar sem það hefur verið gert upp og birt, hvað fyrirtæki á tilteknum svæðum hafa skilað í söluskatti. Og ég vil segja, að þær skýrslur hafa vakið athygli og nánast furðu manns, því að þær hafa verið með ólíkindum.

Eins og ég sagði, er þetta ekki nýtt. Þetta hefur alltaf verið svo. En eftir því sem meir verður horfið að þessari skattheimtuaðferð, því meira á ríkissjóður undir henni, ekki sízt þegar söluskattur er hækkaður úr 71/2% upp í 11 %. Og ef einhver spámaður vildi nú spá því, að söluskattur ætti kannske eftir að hækka eitthvað enn, þá sjá allir, að þarna er um nokkuð varhugavert atriði að ræða. Þess vegna vil ég nú spyrja hæstv. fjmrh. í fullri vinsemd, hvort hann sé virkilega ekki kvíðinn fyrir því, að ætla að byggja á svona kerfi.

Ég viðurkenni það fyllilega, að ríkissjóður verður að fá sitt. Við gerum miklar kröfur á hendur hinu opinbera og þá verður það auðvitað að fá tekjur til að standa undir þeim kröfum og ég tel það ekki eftir. En ég geri þá kröfu til skattlagningar og skattheimtu, að þar sé gætt réttlætis og það séu ekki alltaf svo og svo margir, sem sleppa við það að inna af hendi þau gjöld, sem þeim réttilega ber að inna af hendi. En það finnst mér nú vilja brenna við um beinu skattana. En ég ætla nú ekki að fara að tala um það í þessu sambandi, heldur halda mig við söluskattinn. En þar hefur það líka verið haft mjög á orði, að söluskatturinn kæmi ekki allur til skila.

Nú heitir hæstv. fjmrh. því, að það muni verða hert á eftirliti með þessu og það muni verða teknar upp nýjar aðferðir í þessu efni og mér skildist – það stendur nú víst ekki hér í frv., en það er sjálfsagt gert ráð fyrir, að það verði í reglugerð, – að nú verði krafizt mánaðarskila á söluskatti.

Þá kem ég aðeins að annarri hlið þessa máls og hún er sú, að ríkið leggur þessa kvöð á allan þennan fjölda aðila, á öll þessi fyrirtæki, að vera innheimtuaðili fyrir það og þau taki ábyrgð á þessu. Er þetta ekki líka umhugsunarefni? Er hægt að leggja það endurgjaldslaust á allar verzlanir, starfsstofur o.s.frv., að þær hafi þetta hlutverk með höndum? Við skulum gá að því, að það er ekki um neitt smáfé að tefla, þegar búið er að hækka söluskattinn upp í 11%. Og ef á að fara að gera mánaðarskil á þessu, þá verður bókhald þessara fyrirtækja sannarlega að vera í lagi og það verður hreint ekki lítil fyrirhöfn, að ég ætla, sem þau verða á sig að leggja í sambandi við uppgjör á söluskatti og skil á honum. Það má segja, að þetta hafi nú kannske réttlætzt eða helgazt af því, að menn hafa reiknað með því, að fyrirtækin hefðu þessa peninga í sinni vörzlu nokkuð langan tíma og bæru úr býtum vexti af þeim og það má vera, að það hafi bætt þeim þetta upp. En þegar á að fara að fylgja þeirri reglu, sem ég tel sjálfsagða, að það séu gerð skil mánaðarlega, þá horfir þetta nokkuð öðruvísi við. En sem sagt, ég vildi vekja athygli á því, að ég tel það orðið umhugsunarefni, ef ríkissjóður ætlar að byggja mikinn hluta af sinni skattheimtu á kerfi eins og þessu, þar sem þúsund fyrirtæki og starfsstofur, – ég veit ekki, hvað margar, – eiga að vera innheimtuaðilar fyrir hann. Það er áreiðanlega ekki kerfi, sem er til fyrirmyndar og það væri vissulega þörf á því að leita að einhverju öðru kerfi, sem væri byggt upp með öðrum hætti.

Auðvitað er það mikilsvert, að það sé búið að þessu á allan hátt þannig, að það sé öruggt, að söluskatturinn komi allur til skila, því að annað er ranglátt og annað er siðspillandi. Ef það verður almannarómur, að fyrirtæki haldi eftir og stingi í sinn vasa svo og svo miklum hluta af þessum skatti, þá verð ég að segja, að það hlýtur að verka mjög til hins verra á almennt viðskiptasiðgæði í landinu. Þess vegna er mjög mikilsvert, að það sé neytt allra þeirra ráða, sem tiltæk eru, til þess að fá virk skil á þessu. Mér sýnist nú, að hv. Nd. hafi gert bragarbót í því efni með því að samþykkja greinina um heimild fyrir ráðh. til þess að fyrirskipa, að það skyldu teknir í notkun peningakassar, sem auðvelt er að stimpla í öll söluskattsskyld viðskipti, þannig að eftirlitsmenn fjmrn. geti gengið úr skugga um það, að allur innheimtur söluskattur komi fram. En þetta er nú ekki nema heimild fyrir ráðh. Hæstv. ráðh. lýsti því að vísu alls ekki yfir, að hann ætlaði ekki að nota þessa heimild, en hann lýsti frekar vantrú sinni á gagnsemi hennar og af því gæti maður máske dregið þá ályktun, að hann væri í vafa um, hvort hann ætti að neyta þessarar heimildar eða ekki.

En svo skal ég ekki orðlengja þetta frekar, en vil enn undirstrika þetta atriði og ég hefði gaman af því og mér þætti það fróðlegt að fá að heyra hugleiðingar hæstv. fjmrh. um þetta efni, því það er alveg útilokað annað en þetta sé mál, sem hæstv. fjmrh. hlýtur að hafa velt mjög fyrir sér.