07.04.1970
Sameinað þing: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

186. mál, hafnargerð í Þjórsárósi

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér var til umr., gerir ráð fyrir, að þessi hv. þd. skori á ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á því, hverjir möguleikar séu til hafnargerðar í Þjórsá eða Þjórsárósi og þá jafnframt, að sérfræðingar þeir, sem rannsóknina væntanlega framkvæma, setji fram kostnaðaráætlun fyrir nefnda höfn. Alveg sérstaklega gerir till. ráð fyrir því, að rannsóknin beinist að því, hverja nýja möguleika það mundi skapa til hafnargerðar, ef veitt yrði miklu viðbótarvatnsmagni í ána, eins og hugmyndir og ráðagerðir eru nú uppi um.

Eins og kunnugt er, hefur stærsta orkuver landsins verið reist í Þjórsá. Aðalverkefni þeirrar virkjunar er álbræðslan, sem staðsett er í Straumsvík við Hafnarfjörð, og hefur þar þegar verið byggð sérstök höfn vegna þeirrar framleiðslu eingöngu. Nú blasir það við, að áfram verður haldið orkuframkvæmdum í Þjórsá. Þar verða gerð mannvirki til jöfnunar á vatnsrennsli og einnig er líklegt, að vatnsmagn fljótsins verði aukið stórlega með því að veita öðrum straumvötnum í farveg þess inni á öræfum landsins, og hafa þar m.a. verið nefndar til skagfirzku jökulárnar og Skaftá. En niðri í byggð er einnig talað um nýja virkjun við Urriðafoss, sem er neðarlega í Þjórsá, og þá einnig, að Hvítá í Árnessýslu verði veitt frá Hestfjalli yfir Skeiðin í Þjórsárfarveginn og bæði fljótin virkjuð þar sameiginlega. Ef til þessa kæmi, væri Þjórsá orðin miklum mun meira vatnsmagn, stærra fljót en nokkru sinni hefur verið til á Íslandi áður. Vatnsmagn fljótsins væri þá orðið sambærilegt við stórfljót, t.d. úti í Evrópu, að magni til og mundi þá væntanlega hafa til að bera ýmsa þá eiginleika, sem vel gætu komið sér við hafnargerð, en sem ekki eru fyrir hendi nú, nema í of litlum mæli, til þess að það nýtist.

Suðurströnd landsins hefur lengi þótt ófýsileg til hafnargerðar. Þó hefur verið brotizt í hafnargerðir þar á nokkrum stöðum, enda knýr þörfin mjög á um, að einskis sé látið ófreistað í þeim efnum. En því er ekki að neita, að þar eru hafnir nú fáar, en smáar og ófullkomnar þær, sem eru. Engin höfn er til miðsvæðis á Suðurlandsundirlendinu. Um aldir hafa íbúar sunnlenzkra sveita sótt kaupstað um óravegu, oftast til Eyrarbakka eða til Reykjavíkur, og hafa kaupstaðarleiðirnar engan veginn stytzt á hinum síðari árum, nema síður sé. Úti fyrir suðurströnd landsins eru hin ríkustu fiskimið, sem þekkt eru. Um skipaleiðir þessa hafsvæðis sigla farskip öll, sem flytja varning Sunnlendinga út til Evrópulanda, og innflutning þaðan fara þau með fram hjá suðurbyggðunum til Reykjavíkur. Könnun möguleika til hafnargerðar á suðurströndinni er þegar af þessum tveimur ástæðum a.m.k. jafnbrýn nú og alltaf áður. En það, sem nú er komið til sögu og hrópar margfalt hærra á, að athugaðir séu möguleikar á gerð sunnlenzkrar stórhafnar, er það, að orka straumvatnanna, einkum Þjórsár, er nú þegar og mun í vaxandi mæli verða grundvöllur að stórbrotnu atvinnulífi, sem óhjákvæmilega verður að fá aðstöðu fyrir mikla flutningsmöguleika á sjó yfir úthöfin. Það hefur að vísu þegar verið stigið fyrsta skrefið í því að flytja orku Þjórsár með ærnum kostnaði um óravegu, m.a.s. um fjöll og óbyggðir, til að byggja á henni útflutningsiðnað. Og ný höfn hefur verið gerð við Faxaflóa vegna þessa iðnaðar, enda kallar hann á mikla hafnarþjónustu. En telja má víst, að orkuvinnslan við Þjórsá eigi enn eftir að aukast og skapa stórmikla flutningaþörf á sjó.

Eðlilegast væri að flytja orku Þjórsár ekki lengra en þörf er á, og alveg sérstaklega ber að líta á það, hvort samhliða hafnarþörf vegna nýrrar framleiðslu væri ekki einnig hægt að leysa það gamla, íslenzka þjóðfélagsvandamál, sem hafnleysi suðurstrandarinnar er.

Ekki er kunnugt um, að nokkru sinni hafi farið fram rannsókn á Þjórsárósnum með tilliti til hafnargerðar þar, nema hvað grjótgarðahugmyndirnar, sem ríkis- eða hafnamálastjórnin hefur eitthvað velt fyrir sér sem hafnargerð í Þykkvabænum, hafa allt eins verið taldar geta átt við um Þjórsárós. Sjálfsagt hafa menn talið víst, að Þjórsárhraunið svonefnda væri svo samtengt ánni og ármynninu, að þar mundi vonlaust að fá nauðsynlegt dýpi til hafnargerðar. En þegar nánar er svipazt um, virðist þessu hreint ekki vera þann veg farið. Þvert á móti er líklegt, að fremsti hluti árinnar og ósinn liggi austan við hraunbrúnina með miklu dýpi niður á fast. Benda nýjustu íslenzku sjókortin eindregið til þessa. Eftir standa þá þau gömlu tormerki sunnlenzkrar hafnargerðar, sem felast í óbrotinni úthafsöldu og miklum sandflutningi brimróts og strauma á ströndinni. Auðvitað eru þetta stór vandamál og illviðráðanleg, ef menn geta ekki hugsað sér annars konar hafnargerð en ramgerða grjót- eða stálgarða byggða fram í úthafið svo langt, að höfnin verði pollur í úthafinu innan þeirra. En til eru hafnargerðir með allt öðrum hætti. Flestar stórhafnir heimsbyggðarinnar eru raunar í árósum eða við vatnsmikil fljót. Vesturströnd Evrópu svipar í ýmsu til suðurstrandar Íslands. T.d. er hún lág og sendin og stór hluti hennar liggur að opnu úthafi. Samt fer því fjarri, að hún sé hafnlaus. Þvert á móti eru þar miklar hafnir og ágætar. En þær eru ekki byggðar út í hafið. Gott dæmi um þetta er höfnin í Rotterdam, sem nú er stærsta höfn heimsins, þegar miðað er við árlegt flutningsmagn. Hún er við mynni Maasfljótsins á sendinni strönd Hollands. Höfnin þar var hart leikin í síðasta stríði og þarfnaðist endurbyggingar eftir stríðið. Ekki var meira grjót notað til þeirrar hafnargerðar en svo, að það efnismagn, sem sótt var til Belgíu og Svíþjóðar, varð að duga. Hinir miklu hafnarbakkar liggja uppi í landinu og eru skipaleiðirnar að þeim og á milli þeirra að mestu leyti grafnar með vélgröfum eða með sand- og jarðvegsdælum. En bryggjuþilin eru úr stáli. Fljótið er sem sagt aðalgrundvöllur fyrir hafnargerðinni. Hérlendis er lítið um stórfljót með sæmilega jöfnu rennsli, og mun það vera helzta orsök þess, að gerð hafnarmannvirkja hér hefur til þessa lítið beinzt að árósum, þótt Höfn í Hornafirði sé þar undantekning. Verði vatnsmagn Þjórsár jafnað og aukið með því að bæta í hana ám, sem nú renna til sjávar á öðrum stöðum, jafnvel í öðrum landsfjórðungum, mundi hér verða stór breyting á.

Ef til þeirra framkvæmda kemur, sem hér hefur verið rætt um, munu ekki einasta skapast nýir atvinnumöguleikar í landinu vegna raforkuframleiðslunnar, heldur er og líklegt, að við það sköpuðust möguleikar fyrir stórri höfn á suðurströnd landsins, möguleikar, sem aldrei hafa áður verið til á Íslandi. En í grennd þeirrar hafnar hlyti auðvitað að rísa upp bær eða borg, sem þá hefði beztu aðstöðu til atvinnulífs, hún væri í nálægð blómlegustu landbúnaðarhéraðanna, gjöfulustu fiskimiðanna og við stærstu orkulindirnar, en í viðskiptum væri þar möguleiki til að bæta úr aldagamalli þörf íbúa heils landsfjórðungs, og er þá ótalið, að fátt er hugsanlegt, sem bætt gæti almenna hagsæld og atvinnuöryggi í landinu í ríkari mæli en framkvæmd af því tagi, sem hér er lagt til, að rannsakaðir verði möguleikar á.

Í till. er gert ráð fyrir, að rannsóknir beinist að hafnargerð og að gerð verði kostnaðaráætlun. Um kostnaðaráætlunina er það sérstaklega að segja, að þar er að vísu nokkuð erfitt að gera áætlun, því ekki liggur fyrir að svo komnu máli, hversu stór höfnin ætti að vera. En hér skal sérstaklega vakin athygli á því, að í þessari till. er lagt til, að rannsakaðir verði möguleikar og kostnaður á annars konar hafnargerð en spáð hefur verið í á svipuðum slóðum áður. Þetta er ekki till. um höfn í úthafinu. Stærð hennar þarf ekki að ákveðast með byggingu garða í úthafið. Stærð hafnarinnar mótast af allt öðru. Það mundi þurfa í upphafi að fullgera innsiglingarmannvirkin, en höfnina mætti grafa út og stækka eftir hendinni, svo að það þyrfti í upphafi að áætla gerð innsiglingarmannvirkjanna og viðlegukanta af einhverri skaplegri stærð. Sú stærð þyrfti ekki að vera mjög mikil í upphafi, en það væri að sjálfsögðu verkefni sérfræðinga að finna út, hvað væri hagkvæm stærð hafnarbakka í fyrsta áfanga. En hvað sem líður áætlunum um stóriðju, en saman við þær áætlanir hlýtur auðvitað hafnargerð við Þjórsá að verulegu leyti að ganga, þá má gera þessar áætlanir, sem ég hef þegar minnzt á, með sæmilega traustum hætti, þannig að fyrsti áfangi hafnar í Þjórsá gæti legið fyrir í hugmyndum og áætlunum. En umfram allt er hafnargerð í Þjórsá svo stór möguleiki til bættra atvinnuhátta og hagsældar fyrir þjóðina, að það væri óverjandi að láta undan dragast að rannsaka það af einurð og kostgæfni, hvort hinir breyttu hættir eru ekki einmitt að skapa mikilvæg hafnarskilyrði, sem sízt mega ónotuð.

Herra forseti. Hv. d. hefur ákveðið þessari till, eina umr., og legg ég til, að á einhverju stigi umr. verði henni frestað og málinu vísað til samgmn.