07.04.1970
Sameinað þing: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

186. mál, hafnargerð í Þjórsárósi

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég á von á því, að fyrri flm. þessarar þáltill., hv. 6. þm. Sunnl., og ég getum verið sammála um það, sem hann sagði allra síðast, að stórkostleg höfn á suðurströndinni mundi hafa geysilega þýðingu fyrir allt atvinnulíf í nágrenni sínu. Ég verð að segja það, að um till. eins og þessa má á sama hátt segja mörg orð almenns eðlis, sem undirstrika það, að nauðsyn sé á hafnargerðum, þar sem þær eru mögulegar og meðfærilegar. Þá má og ræða ýmsa hluti, eins og flm. gerði hér í framsöguræðu sinni, m.a. mikla tilflutninga á stórfljótum sunnanlands og í öðrum landsfjórðungum, sem mundu væntanlega hafa áhrif á það, hversu með skyldi fara hafnargerð eða áætlaða hafnargerð við Þjórsárós. Um þetta má tala mörg orð, og mér sýnist þó, að á þessu stigi hafi þau orð ótrúlega litla þýðingu. Það fyrsta, sem hefur þýðingu í þessu efni, er að kanna möguleika á því, hvort þarna sé möguleiki á hafnargerð. Ef sá möguleiki er fyrir hendi, þá getum við farið að bollaleggja um það, hverjar breytingar þyrfti á henni að gera, ef um stórfelldan flutning á stórfljótum yrði að ræða, og hver skyldi vera stærð hafnarmannvirkja. Hins vegar vil ég minna á við þessa umr., að fyrr í vetur eða 5. marz s.l. svaraði hafnamálaráðh. fsp. varðandi hafnamálefni, þar sem spurzt var fyrir um, hvað liði rannsóknum á möguleikum til hafnargerðar í Þykkvabæ og við Dyrhólaey. Ég vil minna á það, að í svari ráðh. kom það fram í þessari hv. d., að hann hefði lagt það fyrir vita- og hafnamálastjóra að láta rannsókn fara fram á hafnarskilyrðum við Þjórsárós. Ég vil minna á, að það höfuðefni, sem þessi þáltill. fjallar um, hefur þegar verið falið vita- og hafnamálastjóra að láta athuga. Ég tel því þessa till. óþarfa á þessu stigi og minni enn á þá yfirlýsingu, sem hafnamálaráðh. gaf um þetta efni 5. marz s.l.