29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

126. mál, söluskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, úr því sem orðið er, enda er engin ástæða til þess fyrir mig, því það hefur engu verið hnekkt af því, sem ég tók fram í ræðu minni áðan. En ég vil aðeins víkja að tveimur atriðum, sem fram komu hjá hv. 3. landsk. þm., Jóni Þorsteinssyni.

Hann taldi, að ég hefði ekki farið rétt með tölur, þegar ég sagði, að fjárl. á síðasta áratug hefðu átt faldazt og segir, að þau hafi 51/2 –faldazt síðan 1960. Það, sem hér ber á milli, er, að ég miða við fjárl. fyrir árið 1959, ári áður en viðreisnarkerfið kom til framkvæmda og heildarupphæð þeirra fjárl. er 1 milljarður og 33 þús. kr., en heildarupphæð fjárl. fyrir árið 1970 er rúmir 8 milljarðar. Á þessum tölum byggði ég þau ummæli mín, að fjárl. hefðu átt faldazt.

Ég skal ekki fara að ræða um fjárlagahækkun á áratugnum 1950–1960. Þar grípur ýmislegt inn í, eins og hæstv. fjmrh. raunar vék að og er það út af fyrir sig flóknara mál en svo, að ég telji rétt að gera það að umræðuefni hér og nú í þessum fáu orðum. En sú viðmiðun mín að miða annars vegar við árið 1959 og hins vegar 1970 er að minni hyggju alveg hárrétt, því að lög um efnahagsmál, sem eru grundvöllur viðreisnarstefnunnar, tóku gildi í febrúar 1960 og fjárl. fyrir það ár voru vitanlega spegilmynd af því nýja kerfi, sem þá var sett upp.

Þá minntist hv. þm. á ummæli um Móðuharðindi af mannavöldum og sagði, að hér hefði maður einn gerzt spámaður og haft þessi ummæli hér í ræðustóli Alþingis. Sannleikurinn er sá, að það var þingeyskur bóndi, sem lét þessi orð falla heima í sínu héraði og einn þm. mælti þau hér fram eða lét þessa getið hér í umr. á Alþ. Sá ágæti fyrrv. þm. er mjög skáldmæltur og litríkur yfirleitt í sínum málflutningi, og það var ekkert óeðlilegt, þó að hann mælti þessi orð hér fram. Hitt vil ég segja, að bókstaflega talað er það ekki rétt lýsing, að hér séu Móðuharðindi af mannavöldum, en mér er enn spurn: Hefði einhver maður spáð því 1960, þegar viðreisnarkerfið var sett á fót, að margar fjölskyldur flyttu héðan af landinu til Ástralíu og annarra landa, svo sem til Svíþjóðar, vegna erfiðrar afkomu og atvinnuleysis og að hér væri samfellt atvinnuleysi á mörgum stöðum á landinu, hefði það þótt trúlegt, þegar verið var að setja á fót þetta efnahagskerfi, sem þá var grundvallað? Og því segi ég það, að bókstaflega talað er ekki hægt að tala um Móðuharðindi af mannavöldum, en ég álít það hyggilegast fyrir þá, sem styðja núv. ríkisstj., að viðurkenna ástandið eins og það er og gera sér grein fyrir því, að atvinnuleysið, sem menn eiga nú við að búa og sá fólksflutningur úr landi, sem nú á sér stað, er ekki eðlilegt ástand og ekki til þess fallið að miklast af.