29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

221. mál, bygging þjóðarbókhlöðu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa alveg sérstakri ánægju yfir þessari till. og tel það mjög vel til fallið, að við minnumst ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar með því að reisa þjóðarbókhlöðu.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., var ákveðið strax á Alþ. 1957 að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn, en ekki hefur orðið úr framkvæmdum. Ég hef nokkrum sinnum borið fram á Alþ. fsp. um það, hvað framkvæmdum liði í þessum efnum, en því miður ekki fengið önnur svör en þau, að málið væri í athugun, og af þeim ástæðum fagna ég nú sérstaklega, að þessi till. er fram komin. Annars var það ekki megintilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs í sambandi við þessa umr. að ræða um till. sjálfa, heldur bera fram fsp. til hæstv. ráðh. varðandi eitt af aðalsöfnum landsins, sem ekki er nefnt í þessari till. En það er Þjóðskjalasafn Íslands. Þjóðskjalasafn Íslands býr nú við mjög þröngan kost. Geymslurými þess er alveg fullskipað og raunar meira en það. En þó þarf safnið á næstu mánuðum, og ætti raunar að vera búið að því, að taka á móti miklu af skjölum, sem þar eiga heima. Það mun t.d. vera þannig ástatt um velflest opinber embætti, eins og sýslumannsembætti og embætti rn., að þar er mikið af skjölum, sem eiga heima í Þjóðskjalasafninu og ættu að vera komin þangað. Sama gildir um fjölmargar ríkisstofnanir, sem eiga að láta sín embættisskjöl ganga til safnsins eftir tilskilinn tíma, að þær hafa enn ekki getað gert það vegna húsnæðisleysis safnsins. Þar má t.d. minna á ríkisútvarpið, skólana og fræðslustofnanir. þegar aðeins Lærði skólinn og fræðslumálaskrifstofan eru undan skilin. Þá hafa bankarnir heldur ekki skilað neinu af skjölum, sem raunverulega ættu þar heima, og má í því sambandi minna á, að það sé kominn tími til, að t.d. skjalasafn banka eins og Íslandsbanka væri komið á þennan stað. Það má enn fremur minna á það, að skjalasöfn sjúkrahúsa eru enn þá ókomin inn á safnið með örfáum undantekningum, og sama gildir um skjalasöfn tryggingafélaga og ýmiss konar samtaka, sem ekki eru rekin af ríkinu, en hafa þó að geyma merkilegar heimildir. Má í því sambandi nefna samvinnuhreyfinguna, verkalýðssamtökin, Eimskipafélag Íslands og mörg önnur slík samtök. En fyrir þá, sem vilja vinna að sögu Íslands síðar, og vegna margvíslegra heimilda, sem þurfa að geymast, þá er eðlilegt, að skjöl slíkra samtaka og stofnana gangi til geymslu á Þjóðskjalasafnið eftir tilskilinn tíma. Þá má enn fremur nefna stjórnmálaflokkana í þessu sambandi. Það er eðlilegt, að fundargerðabækur þeirra og ýmis skjöl, sem þá snerta, verði látin til geymslu á Þjóðskjalasafnið, þegar fram líða stundir. En þetta sýnir, að safnið býr þegar við mikið húsnæðisleysi og þarf á mjög mikilli aukningu húsrýmis að halda á næstunni, ef það á að geta fullnægt því hlutverki, sem því er ætlað. Upphaflega mun hafa verið gert ráð fyrir því, að Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið væru ein og sama stofnun, þó að það atvikaðist þannig í framkvæmd, að svo yrði ekki. En ég teldi á margan hátt eðlilegt, að í þessari nýju og veglegu safnbyggingu yrði Þjóðskjalasafninu séð fyrir húsplássi og það gengi jafnvel inn í þessa sameiningu safnanna, sem hér er um að ræða.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál að sinni, en ég vil sem sagt beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvaða fyrirætlanir séu í sambandi við húsnæðismál Þjóðskjalasafnsins, hvort það sé ætlunin, að það fylgi hinum söfnunum og verði með í þessari nýju byggingu, eða hvort það sé ætlunin að leysa húsnæðismál þess á einhvern annan veg.