29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

126. mál, söluskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst mál, að ekkert efnahagskerfi getur tryggt það, að allir landsmenn hafi fulla atvinnu heilan áratug, þannig að aldrei komi til atvinnuleysis og það er þess vegna mjög mikill misskilningur hjá hv. stjórnarandstæðingum að álíta, að atvinnuleysið, sem hér varð mest í fyrra, stafi af efnahagsstefnunni. Það stafaði af sérstökum áföllum, sem ekki var hægt að ráða við, en eru nú góðar horfur á, að verði ráðin bót á. Hitt er svo annað mál, að þegar núv. ríkisstj. tók við, spáðu framsóknarmenn og stjórnarandstaðan atvinnuleysi. Og það má segja, að sá spádómur hafi þó, sem betur fer, ekki rætzt fyrr en árið 1969.

En um þessa deilu um fjárl. og fjárlagaupphæðina, þá undra ég mig á því, að jafnglöggur maður og hv. 2. þm. Austf. skuli telja 11 ár í áratugnum. 1959–1970 eru 11 ár. Og það er ekki heldur eðlilegt að miða við fjárl. 1959, því þá var hér tvenns konar kerfi, þ.e. annars vegar voru fjárl. og ríkissjóður, en hins vegar útflutningssjóður, sem hafði sínar tekjur og gjöld og létti á ríkissjóði. Þetta var fært í eitt kerfi með fjárl. 1960. Þess vegna er það hrein blekking að tala um árið 1959, þótt ekki kæmi annað til, auk þess sem verður auðvitað að hafa 10 ár í áratugnum. Það er að mörgu leyti eðlilegt að taka einmitt áratuginn 1950–1960, því bæði þessi ár byrja á verulegum gengisfellingum. Þess vegna væri það sambærilegt. Það er því algerlega rangt, að fjárlagaupphæðir hafi átt faldazt á s.l. áratug, þær hafa 51/2–faldazt, en á áratugnum þar á undan fimmfölduðust þær.