03.11.1969
Neðri deild: 9. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. minnti enn á það, að hann hefði vakið máls á því, hvað stofnkostnaður Landsvirkjunar yrði hár, í útvarpsumr. hér fyrir nokkrum vikum, og hv. þm. heldur sig við þessa tölu enn í dag, enda þótt það liggi alveg fyrir, að sú tala er röng. Þetta leiðist mér. Ég hafði búizt við, að hv. þm. væri feginn því að hafa fengið leiðréttingu á talnavillunni. En þar sem hann heldur því fram, að það hafi verið rétt, sem hann lagði út af í nefndum útvarpsumr., heldur hann málflutningi sínum áfram í sama dúr og leggur út af skökkum forsendum nú eins og fyrr.

Ég vil leyfa mér að minna á, að 1. okt. s.l hófst samningsbundin afhending raforku frá Búrfellsvirkjun til álverksmiðjunnar í Straumsvík. Höfðu þrjár fyrstu aflvélar verið teknar í notkun skömmu áður, og var þá svo að segja fulllokið við öll mannvirki á staðnum, ef frá er talinn ýmis frágangur og niðursetning þriggja aflvéla til viðbótar, en fyrirhugað er að byrja á því verki á næsta ári. Það er því alls ekki rétt, sem hv. þm. sagði áðan, að ekki væri búið að prófa þessar þrjár aflvélar. Raforka hefur verið seld frá Búrfelli síðan 1. okt., og þessar aflvélar hafa ýmist gengið tvær eða allar síðan. Reynslan af því er fengin. Vegna ákvarðana um hraðari uppbyggingu orkuversins var ákveðið að ljúka öllum mannvirkjum við Búrfell í fyrri áfanga að þessum þrem síðari aflvélum undanskildum. Hefur þetta valdið breytingum á kostnaðarskiptingu milli áfanga, frá því sem áður var áætlað. Samkvæmt bókun og uppgjöri eftirlitsmanna Landsvirkjunar nemur áfallinn stofnkostnaður hinn 1. okt. 3325 millj. kr. Þetta er samkvæmt bókun Landsvirkjunar og bókhaldi, og nær þessi tala til alls byggingarkostnaðar, að meðtöldum vöxtum á byggingartíma, undirbúningskostnaði og rannsóknum, en án vatnsvirkjunar. En hv. þm. sagði áðan og vitnaði í Harza-áætlun, að það væru ekki meðtaldir vextir á byggingartíma, ekki rannsóknarkostnaður og ekki kostnaður vegna ísrennslis og annað fleira. Hv. þm. vitnaði í Harza og sagði, að þar væri áætlunin aðeins 25 millj. dollarar, en svo bara vantaði þetta og þetta, þannig að ef hann hefði lagt allt saman, hefði hann komizt upp í 42.7 millj. dollara, eins og áætlunin var á þessari virkjun áður en ráðizt var í framkvæmdirnar. En það veit þessi hv. þm., að það voru ýmsar áætlanagerðir uppi. Það var mörg ár verið að vinna að þessum framkvæmdum og áætlanir breyttust, eftir því sem breyting varð á fyrirkomulaginu, en endanleg áætlun var 42.8 millj. dollarar.

Samkvæmt áætlun Landsvirkjunar nemur ógreiddur kostnaður að viðbættum kostnaði við kaup og uppsetningu þeirra þriggja aflvéla, sem eftir eru, samtals 305 millj. kr. Þessi kostnaður kemur til gjalda að mestu leyti á næsta ári. Sé enn fremur bætt við þetta kostnaði við þá miðlun, sem upphaflega var ráðgert að byggja í Þórisvatni, en hann nemur á núverandi verðlagi 130 millj. kr., verður heildarstofnkostnaður Búrfellsvirkjunar 3 760 millj. ísl. kr. Samsvarar það 42.7 millj. Bandaríkjadollara, en áætlunin var, áður en byrjað var á verkinu, 42.8 millj. dollarar.

Á sama hátt var reiknuð hin upphaflega áætlun um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar 1840 millj. kr. að meðtöldum vöxtum á byggingartíma en það samsvaraði 42.8 millj. dollara. Það má því segja, að byggingarkostnaður virkjunarinnar reiknaður í dollurum muni reynast svo að segja alveg hinn sami og upphaflega var áætlað, enda þótt stofnkostnaðurinn í krónum hafi að sjálfsögðu hækkað. Það er hins vegar samanburðurinn reiknaður í erlendum gjaldeyri, sem hér skiptir fyrst og fremst máli, en þó alveg sérstaklega, þegar um stofnkostnaðinn er rætt með tilliti til orkusölusamnings við álbræðsluna, en þar er verðið ákveðið í dollurum. Tekjurnar af orkusölunni hækka í íslenzkum kr. í samræmi við hækkun stofnkostnaðar í íslenzkum kr., af því að orkusalan er reiknuð í dollurum til álbræðslunnar. Með þessum staðreyndum er í raun og veru nægilega hrakin sú fullyrðing, að forsendur orkusölusamningsins séu brostnar vegna stórhækkaðs stofnkostnaðar Búrfellsvirkjunar. Það er hins vegar ástæða til þess að rekja fleiri staðreyndir til þess að sýna, hver fjarstæða það er, að bygging Búrfellsvirkjunar og álbræðslunnar hafi verið fjárhagslega óhagstæð fyrir Íslendinga.

Verður þá fyrst vikið nánar að raforkuverðinu. Um það er vissulega ekki deilt, að raforkuverðið frá Landsvirkjun til ISALs er álbræðslunni hagstætt, enda er hagstætt orkuverð eina ástæðan til þess, að áhugi var fyrir byggingu álbræðslu á Íslandi. Hitt er fjarstæða, að raforkan sé seld undir kostnaðarverði, hvað þá að raforkusamningurinn sé Landsvirkjun óhagstæður, og er auðvelt að sýna fram á þetta með tölum. Samkv. upphaflegri áætlun hefur verið gert ráð fyrir því, að 210 mw. virkjun við Búrfell gefi 1720 millj. kwst. á ári. Sé framleiðslukostnaður orkunnar miðaður við 7% vexti og 40 ára afskrift með jöfnum ársgreiðslum, — en 40 ár eru sízt talin of langur afskriftatími fyrir mannvirki af þessari tegund, — verður framleiðsluverð hverrar kwst. aðeins 18.6 aurar. Umsamið raforkuverð til ISALs er hins vegar 26.4 aurar á kwst. fyrstu 6 árin, en síðan 22 aurar á kwst. En þegar orkuverðið lækkar, hækkar skatturinn af framleiðslunni hjá álverksmiðjunni, sem gengur að mestu í Atvinnujöfnunarsjóð.

Nú er hins vegar ástæða til að endurskoða þessa reikninga, þar sem telja má fullvíst eftir reynsluna af fyrstu þremur aflvélum í Búrfellsvirkjun, að virkjunin muni skila allt að 15% meiri afköstum en reiknað hafði verið með í fyrri fjárhagsáætlunum. Þetta þýðir, að afl virkjunarinnar mun verða 240 mw. í staðinn fyrir 210 mw., en orkuframleiðslan nær 2000 millj. kwst. á ári í stað 1720 millj. Þegar hægt verður að fullnýta þetta afl, mun það lækka framleiðslukostnað í Búrfellsvirkjun sjálfri ofan í 16 aura á kwst.

Hér er hins vegar rétt að hafa í huga, að svo mikil ársframleiðsla fæst ekki nema með mun meiri miðlunarmannvirkjum en upphaflega var gert ráð fyrir. Hefur reyndar þegar verið ákveðið að ráðast í miklu stærri miðlanir, bæði vegna frekari stækkunar Búrfellsvirkjunar og fyrirhugaðra virkjana í Tungnaá. Sé um 500 millj. kr. varið til viðbótar í slíkar miðlanir, mundi það aðeins hækka framleiðsluverð raforku frá Búrfellsvirkjun úr 16 aurum í rúma 18 aura á kwst. Hins vegar væri réttara að reikna a.m.k. helminginn af kostnaði þessara stóru miðlana sem hluta af stofnkostnaði hinna fyrirhuguðu virkjana í Tungnaá, en þær verða við Sigöldu og Hrauneyjarfoss.

Rétt er að benda á, að utan við þessa útreikninga er stofnkostnaður gasaflsstöðvarinnar. Gasaflsstöðin var ekki í upphaflegu áætluninni, sem var 42.8 millj. dollara, og er ekki heldur í þessum útreikningum, 3 760 millj. Þess vegna er rétt að bæta kostnaði við gasstöðina við, þegar við erum að finna út kostnaðinn á hverri kwst. Það er rétt að benda á, að utan við þessa útreikninga er stofnkostnaður gasaflsstöðvarinnar, sem Landsvirkjun hefur látið reisa nálægt Straumsvík, en hún er hugsuð sem varastöð fyrst í stað og síðan sem toppstöð fyrir allt raforkukerfi Landsvirkjunar. Sé kostnaður vegna hennar tekinn inn í þessa orkuversreikninga til fulls, hækkar það kostnaðarverð á framleidda kwst, um 11/2 eyri. Þrátt fyrir það er framleiðslukostnaðurinn aðeins 19.5 aurar á kwst., en í orkusölusamningnum við ISAL er söluverðið eins og áður segir 26.4 aurar fyrstu 6 árin, en síðan 22 aurar á kwst. Er því fjarri öllu lagi, að hér sé verið að selja undir kostnaðarverði.

Á hinn bóginn er rétt að leggja á það áherzlu, að það var alltaf ljóst og viðurkennt, að söluverð raforku til álbræðslunnar væri ekki langt fyrir ofan kostnaðarverð. Jafnframt var á það bent, að Landsvirkjun og viðskiptamenn hennar hefðu einnig stórfelldan, óbeinan hag af orkusölusamningnum, þar sem hann væri grundvöllur þess, að hægt væri að ráðast í svo stóra og hagkvæma virkjun sem Búrfellsvirkjun er. Án sölu mikils hluta raforkunnar til stóriðju var óhugsandi að ráðast í stórvirkjun, þar sem það mundi hafa haft í för með sér stórkostlega hækkun innlends raforkuverðs fyrstu árin. Íslendingar hefðu því verið dæmdir til þess að afla sér raforku með byggingu smárra orkuvera, en horfa enn í áraraðir á jökulfljótin byltast óbeizluð til sjávar.

Annar mikilvægur kostur raforkusamningsins við ISAL er sá, að hann tryggir Landsvirkjun tekjur í erlendum gjaldeyri á móti þeim erlendu lánum, sem taka þarf til virkjunarinnar. Erlend lán, sem samið hefur verið um til Búrfellsvirkjunar, nema nú 34 millj. dollara eða nær 3000 millj. kr. Hins vegar munu tekjur Landsvirkjunar af orkusölu til álbræðslunnar nema að meðaltali tæplega 3 millj. dollara á ári næstu 25 árin, en þær tekjur nægja til þess að greiða 35 millj. dollara lán á þessu tímabili með 7% vöxtum. Þegar þetta er athugað; þarf anzi mikið þrek til þess að halda því fram, að þetta sé óhagstætt fyrir Íslendinga.

Þótt enn sé eftir að taka 1.5 millj. dollara að láni til þess að ljúka síðari áfanga virkjunarinnar auk lána vegna miðlunarmannvirkja, er augljóst, að orkusölusamningurinn stendur undir meginhlutanum af erlendum skuldbindingum virkjunarinnar, enda þótt álbræðslan muni aðeins nota 60% af raforku Búrfellsvirkjunar fullnýttrar.

Hér hefur hingað til eingöngu verið fjallað um orkusölusamninginn við ISAL og áhrif hans á Landsvirkjun, en ekki um álsamningana í heild. Sannleikurinn er hins vegar sá, að hér er um samningaheild að ræða, sem nauðsynlegt er að skoða í samhengi, ef rétt mynd á að fást. Raforkusamningur Landsvirkjunar við ISAL er vissulega grundvöllur þess, að álbræðslan var byggð, en hinn þjóðhagslegi ávinningur þess fellur ekki eingöngu Landsvirkjun í skaut, heldur að miklu leyti öðrum hlutum þjóðarbúsins. Það er þess vegna, sem við fáum miklar tekjur í Atvinnujöfnunarsjóð árlega til þess að byggja upp atvinnufyrirtæki víðs vegar um landið. Hér er fyrst og fremst á það að benda, að skattgreiðsla ISALs er að flestu leyti sambærileg við raforkuverðið. Hér er um beinar tekjur að ræða, sem eru langt umfram þá þjónustu, sem opinberir aðilar láta ISAL í té. Skattgjaldið er ákveðið þannig, að það er ákveðin fjárhæð á tonn af áli, sem framleitt er, en fer þó ört hækkandi, ef verð á áli fer yfir ákveðið mark, eins og núna gerðist í haust. Fór álverðið yfir þetta mark nú á s.l. mánuði; en það veldur því, að framleiðslugjaldið hækkar um 31/2 dollara á tonn. Eru yfirleitt taldar líkur á því, að álverð fari enn hækkandi á næstu árum. En þótt álverðið lækki, er greitt sama skattgjald af framleiðslunni jafnt fyrir það. Sé miðað við núverandi verð, má reikna með því, að skatttekjur af álbræðslunni næstu 25 árin muni nema 50 millj. dollara, eða 4 400 millj. kr., en tekjur af raforkusölu um 74 millj. dollara, eða 6 512 millj. kr. Munu hinar beinu gjaldeyristekjur, sem fást af sölu raforku og skattlagningu álbræðslunnar, nægja til þess að endurgreiða öll lán vegna virkjunarinnar með 7% vöxtum á 15 árum. Ég er hræddur um, að hv. 6. þm. Reykv. hafi ekki athugað þessa niðurstöðu, og hafi hann gert það, en eigi að síður flutt þá ræðu, sem hann flutti áðan, þá er hann harðgerðari en ég hefði haldið, að hann væri.

Vegna ákvæðanna um hækkun framleiðslugjaldsins í samræmi við hækkanir á markaðsverði á áli er mjög líklegt, að tekjurnar verði í raun og veru mun meiri en þetta. Ef verð á áli hækkar um 1 cent, sem er 3.5 % hækkun frá því, sem nú er, jafngildir það 11% hækkun á samanlögðu orkuverði og skattgjaldi. Og þegar við erum að tala um orkuverð og skattgjald, er rétt að upplýsa það, að orkuverð og skattgjald samanlagt jafngilda því, að orkuverðið væri 4.1 mill. En orkuverð í Noregi til álbræðslanna þar er 3.1–3.2 mill. En þar er skattur miklu lægri og í allt öðru formi en hér. Þar er skatturinn ekki af hverju framleiddu tonni, heldur af nettótekjum, en afskriftareglurnar eru mjög rúmar, og nettótekjur álbræðslunnar eru þess vegna ekki reikningslega miklar. Þess vegna er orkusamningurinn íslenzki sennilega hagstæðari en norsku samningarnir, þegar tillit er tekið til þess, hvað skattgjaldið er hátt.

Enn er þó ótalið það, sem e.t.v. skiptir allra mestu máli, en það er sú atvinna og atvinnutekjur, sem virkjunarframkvæmdir og álbræðslan skapa. Það er reyndar óþarfi að fjölyrða um þetta. Svo vel er það öllum almenningi kunnugt. Framkvæmdirnar við Búrfell og í Straumsvík hafa undanfarin tvö ár tryggt hundruðum manna atvinnu, og rekstur álbræðslunnar í framtíðinni ásamt frekari framkvæmdum til þess að nýta raforku Íslands og byggja upp stóriðju mun hafa ómetanlega þýðingu fyrir alla afkomu þjóðarbúsins. Og það er þessi vissa og þessi skilningur, sem nú er að verða almennari, sem hefur ráðið því, að nú þegar er farið að undirbúa stærri miðlun við Þórisvatn en áður var fyrirhugað og að hefja undirbúning að virkjun við Sigöldu og Hrauneyjarfoss. Það er sá skilningur, að með því að beizla íslenzk fallvötn getum við skapað hér meira atvinnuöryggi og betri lífskjör þjóðinni til handa, sem er uppistaðan í því, að nú þegar er ákveðið að halda áfram að virkja og halda áfram að selja raforku, ekki undir kostnaðarverði, heldur fyllilega á kostnaðarverði, og gera það mögulegt, að Íslendingar fái ódýrari orku en ef haldið væri áfram að virkja smátt.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti áðan, að það væri útilokað annað en álverksmiðjan fengi orkuna undir kostnaðarverði, og að með þessari ráðstöfun væru landsmenn látnir borga orkuna hærra en annars hefði orðið. Það er þó vitað mál, og ég hélt, að það væri satt að segja enginn hv. alþm., sem vildi rengja það, að ef við hefðum virkjað litla virkjun í Þjórsá eða annars staðar, hefði sennilega verið byrjað með 35 þús. kw., og þá hefði orkan frá þessari litlu virkjun orðið yfir 50% dýrari en hún verður frá virkjuninni við Búrfell. Þetta liggur tölulega fyrir, og þess vegna er engin forsenda fyrir þeim fullyrðingum hv. 6. þm. Reykv., sem hann viðhafði hér áðan.

Skatttekjurnar af álverksmiðjunni eru, eins og oft hefur verið drepið á, í fyrstu aðeins tugir millj. árlega, en fara stöðugt hækkandi, þannig að þegar líður á tímabilið, komast þær upp í 237 millj. kr. á ári. Þetta er vitanlega mjög þýðingarmikið. Þá fær þjóðin og gjaldeyristekjur fyrir þá vinnu, sem seld er í verksmiðjunni, í fyrstu 300 millj., en fer svo hækkandi, eftir því sem fólki fjölgar í verksmiðjunni og afköstin verða aukin, sennilega upp í 500 millj. kr. á ári.

Ég held, að með þessu, sem hér hefur verið sagt, sé það hrakið, sem hv. þm. fullyrti áðan. Það var þetta, sem hann var að tala um, að lántökuheimild, sem farið var fram á hér í fyrra, 7.5 millj. dollara, átti að vera til rökstuðnings fyrir því, að virkjunin hefði farið fram úr áætlun. Sannleikurinn er sá, að það er ekki búið að nota nema hluta af þessu láni, og hluti af þessu láni hefur farið í kostnað við undirbúning annars áfanga virkjunar við Búrfell. Fullyrðingin, sem hv. þm. hafði um tvo ágæta embættismenn, Jóhannes Nordal seðlabankastjóra og Eirík Briem, framkvæmdastjóra Landsvirkjunar, var náttúrlega mjög leiðinleg, þar sem hv. þm. fullyrti, að þeir hefðu falsað ýmislegt í sambandi við þær upplýsingar, sem hér voru gefnar. Þetta eru stór orð og alls ekki viðeigandi. Þær upplýsingar, sem hafðar eru eftir þessum mönnum, eru teknar beint úr bókhaldi verksmiðjunnar og bókhaldi Landsvirkjunar. Þetta hafa þeir fullyrt við mig, og dettur mér ekki í hug að vefengja, að þar sé rétt sagt frá.

Nú vill svo til, að allir stjórnmálaflokkarnir eiga fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. Allir flokkar eiga aðgang að þessu fyrirtæki og ættu að geta fengið réttar upplýsingar þar. Ég spurði að því um daginn, þegar við vorum að ræða þetta, hvort hv. þm. hefði fengið upplýsingar hjá fulltrúa Alþb. í Landsvirkjunarstjórn. Það kom fram áðan, að svo var ekki. Hv. þm. segist hafa þessar upplýsingar úr skýrslu, sem Harza hafi gefið út, en ekki frá stjórn Landsvirkjunar. (Gripið fram í.) Ekki bókhaldi Landsvirkjunar, en þessi skýrsla, sem hv. þm. er að veifa, gæti, eftir því sem hann sagði áðan, verið í samræmi við þær tölur, sem ég hef nefnt, — ég hef séð þessa bók, ég er ekki með hana með mér hérna núna, — vegna þess að þarna er sagt frá hinum einstöku atriðum, sem hafa verið að breytast frá ári til árs, og þegar hv. þm. sagði áðan og vitnar þá í skýrslu Harza, að þar hafi kostnaðurinn verið áætlaður upphaflega 25 millj., þá byrjar hann á því að telja upp: Það er reyndar ekki með þarna, þetta og þetta, ísinn er ekki þarna með og ýmislegt fleira, vextir á byggingartíma eru ekki þarna með, rannsóknarkostnaður er ekki þarna með, verkfræðikostnaður er ekki þarna með, en þegar hann er búinn að leggja þetta allt saman við 25 millj. og fleira, sem er ótalið, er hann kominn upp í 42.7 millj. dollara. Er þetta ekki aðeins tilraun, veik tilraun hjá hv. þm. til þess að reyna að finna orðum sínum stað? Ef hv. þm. hefði sagt: Ja, ég hef fengið þessar upplýsingar hjá fulltrúa Alþb. í Landsvirkjunarstjórn, — þá gat málið verið alvarlegra, því að það verður að ætla, að fulltrúi Alþb. eins og annarra stjórnmálaflokka hefði ekki gefið rangar upplýsingar, heldur beðið um upplýsingar samkvæmt bókhaldi fyrirtækisins. Því hefði maður miklu frekar trúað. Nú hef ég heyrt, að það hafi verið stjórnarfundur í Landsvirkjun síðan skýrsla Jóhannesar Nordal og Eiríks Briem var gefin fyrir nokkrum dögum. Og ég hef heyrt, að það hafi enginn í Landvirkjunarstjórn gert aths. við þessa skýrslu. Mér finnst það renna stoðum undir það, að Landsvirkjunarstjórn hafi kynnt sér málið og hafi sannfærzt um það, að sú skýrsla, sem áður var gefin, hafi verið rétt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svo stöddu að segja meira um þetta. Ef málið fer í n., þá náttúrlega getur n. spurt þá, sem gerst þekkja, stjórn Landsvirkjunar, framkvæmdastjóra, stjórnarformann og fleiri, og sannfært sig þá enn betur um það, hvort þær tölur, sem hér hafa verið nefndar, eru réttar eða rangar.