03.11.1969
Neðri deild: 9. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Sú skýrsla, sem ég sagði frá áðan, er gefin út af Landsvirkjun, þótt hún sé samin af Harza. Auðvitað hef ég fengið hana hjá fulltrúa Alþb. í stjórn Landsvirkjunar. Það hafa allir fulltrúar í Landsvirkjunarstjórn fengið þessar skýrslur og hæstv. ráðh. einnig, og þetta eru frumheimildir, þetta eru þau gögn, sem menn hafa til að vinna með. En mér virtist hæstv. ráðh. gera sér harla litla grein fyrir því, sem ég var að rekja áðan. Ég skýrði frá því, að í töflu 30 væri rakin annars vegar upphafleg kostnaðaráætlun og hins vegar kostnaðaráætlun eins og hún er nú, og ég fór með þær tölur eins og þær eru. Ef hæstv. ráðh. vill fylgjast með, er það náttúrlega velkomið, ef hann trúir því ekki, að ég fari rétt með þær tölur, sem eru á blaðinu hér fyrir framan mig. Þær eru þannig, að hliðstæður kostnaður, sem upphaflega var áætlaður 25.8 millj. dollarar, er núna 32.6 millj. dollarar. Þetta er meira en fjórðungs hækkun. Ég hef ekki bætt neinu við. Þetta eru tölur Harza, en ekki mínar. Síðan tekur Harza fram, að í þessar tölur vanti ýmsa kostnaðarliði, eins og ég gerði grein fyrir áðan, og þegar við viljum gera okkur grein fyrir því, hvað endanlegur kostnaður muni verða, verðum við að bæta þeim kostnaðarliðum við. Ég skýrði frá því, hvernig ég hefði reiknað þá lið fyrir lið alveg nákvæmlega. Það var ákaflega auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að gera aths. við það, ef hann hefði getað, en hann gat það ekki. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Harza semur þetta fyrir Landsvirkjunarstjórn ársfjórðungslega. Þetta er skýrsla nr. 12, nýjasta skýrslan.

Hæstv. ráðh. las hér upp plagg, sem hann eða einhverjir aðrir voru búnir að semja áður. Þar voru mörg atriði, sem ég var raunar búinn að hrekja í ræðu minni áðan, en hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til þess að ræða þann ágreining, heldur flutti aðeins þennan upphaflega texta sinn án tillits til þess, sem ég hafði sagt. Þetta eru að sjálfsögðu ákaflega vandræðaleg vinnubrögð, m.a. reiknaði hann áfram með 1720 millj. kwst., enda þótt ég færði rök að því áðan, að það væri gersamlega óraunsætt að ímynda sér svo mikla nýtingu. Ég hygg, að hver maður, sem hefur einhverja vitneskju um starfsemi orkustöðva, viti, að það er ekki hægt að reikna með toppafköstum sem meðalnýtingu. Þetta er fjarstæða, og útreikningar, sem eru byggðir á slíku, eru ekki raunsæir.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að verð það, sem álbræðslan greiddi, væri 26.4 aurar á kwst. Ég veit ósköp vel, að þessari tölu er flíkað út á við gagnvart almenningi, en ég skil ekki í því, að hún geti gengið í nokkurn alþm., því að alþm. eiga að vita deili á þessum málum. Verðið, hið raunverulega verð, er sem kunnugt er aðeins 22 aurar, en vegna þess að vitað var, að afkoma Búrfellsvirkjunar yrði erfiðust fyrstu árin, áður en afköstin yrðu orðin full, var ákveðið að lækka skattgjaldið til ríkisins og nota þann mismun til þess að hækka raforkuverðið. Þarna er aðeins um að ræða meðgjöf frá íslenzka ríkinu til þess að jafna þessi met í nokkur ár. Þetta eru ekki aukin útgjöld frá álbræðslunni, alls ekki. Þarna er um að ræða tilfærslu frá ríkissjóði til Búrfellsvirkjunar, og þetta kemur ekkert við samningum okkar við álhringinn, þannig að ég held, að menn eigi að spara sér blekkingar af þessu tagi.

Hæstv. ráðh. endurtók einnig hina furðulegu reikninga um það, að vonin um aukin afköst aflvélanna ætti að leiða til þess, að lækkuð væri áætlun um raforkuverð. Ég minntist á það áðan, að þetta væri hrein fjarstæða. Í fyrsta lagi er ekki hægt að fullyrða neitt um slíkt, fyrr en búið er að prófa vélarnar. Hæstv. ráðh. staðhæfði raunar, að það væri búið að prófa nokkrar þeirra nú þegar, en hið gagnstæða stóð raunar í aths. þeirra Jóhannesar Nordal og Eiríks Briem, því að þeir segja sjálfir í sinni eigin aths.: „Þótt enn sé ekki búið að fullprófa fyrstu þrjár aflvélarnar í Búrfelli, er þó rétt að skýra frá því, að allar líkur benda til þess“, o.s.frv. Þeir viðurkenna sjálfir, að það er ekki búið að fullprófa þetta einu sinni. En á þessari tilraun, sem nær til helmingsins af vélunum og ekki er lokið, og í voninni um vélar, sem eru ókomnar til landsins, á að byggja lækkun á raforkuverði um 3 aura á kwst. Þetta er auðvitað hrein fjarstæða.

Ein viðurkenning kom loksins frá hæstv. ráðh. Hann viðurkenndi, að í þeim tölum, sem hann var með, væri ekki meðreiknuð gasaflsstöðin, sem kostar, eins og ég sagði áðan, hátt á þriðja hundrað millj. kr. Ég reiknaði með gasaflsstöðinni í útreikningum mínum, en ég gerði það raunar þannig, að ég deildi kostnaðinum við hana í alla raforkuframleiðsluna, einnig þann hluta, sem rennur til Íslendinga. Í rauninni ætti að reikna þessa gasaflsstöð einvörðungu á viðskipti við álbræðsluna, því að hún er byggð fyrir álbræðsluna. Það var skilyrði frá álbræðslunni, að þessi stöð yrði byggð, og hún er byggð í hennar þágu, þannig að sá kostnaður ætti í rauninni að reiknast sérstaklega á viðskipti til álbræðslunnar. Hins vegar gerði ég það ekki. Ég skipti þessum kostnaði niður á framleiðsluna alla. En auk þess, að það vantar kostnað af gasaflsstöð í tölur hæstv. ráðh., vantar þar einnig gengistap af innlendum kostnaði, eins og ég rakti áðan. Þetta vantar í tölur þær, sem hæstv. ráðh. var með, og það er upphæð, sem er næstum því 300 millj. kr. Einnig vantar lántökukostnaðinn, sem er um 1%, það vantar greiðslu fyrir vatnsréttindi, það vantar eftirgjöf á tollum frá ríkinu, sem er há upphæð, það vantar tolla þá, sem Landsvirkjun hefur orðið að greiða samkvæmt samningum fyrir verktakana, og það vantar skattana, sem Landsvirkjun hefur orðið að greiða í ríkissjóð fyrir hina erlendu sérfræðinga. Þessar tölur var ég allar með, en þessar tölur var hæstv. ráðh. ekki með, og það er þetta, sem gerir muninn.

Hins vegar vil ég endurtaka það, sem ég sagði hér, þegar við ræddum þetta seinast, að það er í sjálfu sér ákaflega tilgangslaust, að við hæstv. ráðh. komum hér til skiptis og þyljum tölur hvor framan í annan. Þetta er mál, sem verður að rannsaka, og það er skylda allra alþm. að framkvæma slíka rannsókn. Það er ekkert vandaverk að komast að staðreyndunum um þetta. Meginhluti staðreyndanna liggur óumdeilanlega fyrir, nokkrar tölur þarf að meta, en það er á færi allra alþm. að komast að hinu sanna í þessu efni. Ég fer ekki fram á neitt annað en menn geri þetta, að menn taki ekki trúanlegar tölur hæstv. ráðh. og ekki heldur tölur mínar, heldur gangi sjálfir úr skugga um, hvað er satt og rétt í þessu máli.

Raunar virtist mér af síðari hlutanum í ræðu hæstv. ráðh., að hann gerði sér ljóst, hvernig málum væri komið, því að hann fór að færa rök að því, að hvað sem sagt yrði um samninginn um orkusölu, þá skyldu menn minnast þess, að það væri ákaflega hagkvæm stefna fyrir Íslendinga að hafa fengið álbræðsluna til landsins. Sá ávinningur væri svo mikill, að þjóðhagslega gæti það meira að segja svarað kostnaði að selja þessa raforku jafnvel undir kostnaðarverði, því að við fengjum svo margt annað í staðinn. Hæstv. ráðh. fór meira að segja að leggja saman og með því að leggja allan ávinninginn, sem hann taldi vera; saman í eitt, komst hann upp í raforkuverð, sem var 4.1 mill, ef ég man rétt, með því að reikna allt sem greiðslu fyrir raforku.

Þessi röksemdafærsla hæstv. ráðh. er auðvitað vitnisburður um það, að hann veit, að reynslan á eftir að sanna það, sem ég hef haldið hér fram, að orkusöluviðskipti út af fyrir sig verða Íslendingum óhagkvæm. Sú staðreynd er ljós og það mál hef ég rætt bæði við fulltrúa okkar í Landsvirkjunarstjórn og marga sérfræðinga, sem allir segja, að þessar niðurstöður séu óvefengjanlega réttar. En hitt atriðið, hvort það sé Íslendingum hagkvæmt að fá erlend fyrirtæki inn í landið upp á þessi býti, er að sjálfsögðu víðtækt umræðuefni. Við höfum rætt það margsinnis, og við eigum eftir að ræða það. Ég ætla ekki að þessu sinni að halda mikla ræðu um það efni. Hins vegar skulum við minnast eins, að þegar við tökum erlent lánsfé, eins og við tökum til þess að virkja við Búrfell, erum við þar að ákveða, hvernig við nýtum fjármagn og vinnuafl. Þegar við höfum fjármagn og vinnuafl, höfum við alltaf valkosti. Við verðum að gera upp við okkur, hvernig er skynsamlegast að hagnýta hvort tveggja. Og áður en við tökum ákvarðanir, verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvort þetta sé skynsamleg ákvörðun, sem við tökum, eða eru aðrir kostir, sem geta e.t.v. fært þjóðinni meiri ávinning?

Ég hef oft fært rök að því, að Íslendingar geta aldrei byggt framtíð sína á því að opna landið í vaxandi mæli fyrir erlendum auðfélögum, sem eru einvörðungu hingað komin til þess að fá ódýra raforku og til þess að hagnýta, eins og nú standa sakir, eitt ódýrasta vinnuafl í Vestur-Evrópu. Tilgangur þeirra er aðeins sá að hagnast á orku okkar og vinnuafli og flytja meginhluta hagnaðarins úr landi. Verkefni okkar sem þjóðar er að nýta orku landsins og að nýta orku fossa og hvera til þess að koma upp framleiðslu, sem skilur arðinn eftir í landinu sjálfu. Þetta er algert grundvallaratriði, ef við viljum vera þjóð til frambúðar. Þetta eina fyrirtæki, sem komið er upp á Íslandi, álbræðslan, er eftir okkar aðstæðum risavaxið fyrirtæki, það gnæfir yfir öll fyrirtæki landsmanna. Einvörðungu fjárfestingin í þetta eina fyrirtæki slagar hátt upp í alla okkar eigin fjárfestingu í okkar eigin iðnaði. Hvernig halda menn, að verði umhorfs á Íslandi, ef á næsta áratug eiga að bætast við 6 eða 7 hliðstæð fyrirtæki í eign útlendinga? Það gefur auga leið, að yfirráðin yfir atvinnukerfinu eru þá komin út úr landinu. Menn geta gert sér hinar beztu hugmyndir um samskiptin við þessi erlendu auðfélög, menn geta talið, að forráðamenn þeirra vilji allt gott fyrir okkur gera, en hitt er óumdeilanlegt, að völdin væru komin í hendur þessara manna, en ekki okkar sjálfra.

Við hefðum þá eftirlátið útlendingum það fjöregg, sem er fólgið í atvinnukerfi þjóðarinnar.

Mér þótti satt að segja heldur leiðinlegt að heyra hjá hæstv. ráðh. áðan þann auðmýktartón, sem maður er farinn að heyra æ oftar, þegar ráðh. tala um þessi mál. Hæstv. ráðh. sagði, að það skipti mestu í sambandi við þessa samninga við álbræðsluna, að hún hefði skapað svo mikla atvinnu. Það virðist vera orðin afstaða þessa hæstv. ráðh., að við Íslendingar séum ekki menn til þess að tryggja þjóðinni atvinnu. Ef við ætlum að koma í veg fyrir atvinnuleysi á Íslandi, verðum við að fá erlenda atvinnurekendur til að stofna hér fyrirtæki. Þessi hæstv. ráðh. virðist vera uppgefinn á því verkefni, sem á að vera meginverkefni hverrar ríkisstj., að halda hér uppi svo þróttmiklu og öflugu atvinnulífi, að hver maður hafi verk að vinna. Það er þessi uppgjöf, þessi andlega uppgjöf, sem er kannske enn þá háskalegri en öll áþreifanleg ákvæði þeirra samninga, sem gerðir hafa verið, og því miður virðist þessi uppgjöf eiga að halda áfram, því að hæstv. ráðh. sagði áðan: Nú þegar er ákveðið að halda áfram að selja erlendum aðilum raforku á þennan hátt. Hæstv. ráðh. sagði: Nú þegar er ákveðið að gera þetta. Ég veit ekki til þess, að þetta vandamál hafi verið borið undir Alþ., sem tekur ákvarðanir um slík mál. Það getur vel verið, að þetta hafi verið ákveðið af hæstv. ríkisstj., um það veit ég ekki. En ákvörðunarvaldið er í höndum Alþ., og ástæðan til þess, að ég hef vakið athygli á staðreyndunum um viðskiptin við álbræðsluna, er einmitt sú, að þessi reynsla okkar verður að hafa áhrif á ákvarðanir manna um áframhaldið. Ef alþm. komast að þeirri niðurstöðu við sjálfstæða könnun hvers einasta manns, að þær staðreyndir, sem ég hef rakið, séu réttar, komast þeir ekki hjá því að endurskoða áframhald á þessari stefnu. Ég held, að það sé háskaleg firra, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda fast við fyrri hugmyndir um áframhaldandi viðskipti við erlend auðfélög á þennan hátt eftir þá reynslu, sem nú blasir við.

Þessi till. okkar hv. þm. Þórarins Þórarinssonar fjallar um það eitt, að þessi mál verði rannsökuð. Ég veitti því athygli, að hæstv. ráðh. tók ekki neina afstöðu til þessa í ræðu sinni. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvernig eigi að skilja þessa þögn. Er hæstv. ráðh, sammála mér um það, að Alþ. eigi að eigin frumkvæði að rannsaka, hvað er satt og rétt í þessu máli? Er hæstv. ráðh. sammála því, eða er hann e.t.v. andvígur því? Ef hæstv. ráðh. er andvígur því, á hvaða forsendum getur það verið? Af hverju getur slíkt stafað? Ég vil vara mjög alvarlega við því, að farin sé sú leið, sem stundum er farin hér á Alþ., að vísa þessari till. til n. í þeim tilgangi að svæfa hana þar og láta hana aldrei framar koma hér inn í þingsalinn. Það væri ekki aðeins röng aðferð, hún væri algerlega ósæmandi gagnvart þjóðinni. Ef hæstv. ráðh. hefur sjálfur einhverja trú á málstað sínum, ef hæstv. ráðh. telur, að hann hafi farið með rétt mál í því, sem hann sagði áðan, ætti hann ekki að óttast, að slík rannsókn yrði framkvæmd.