29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

126. mál, söluskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa hér mörg orð um, en vildi þó vegna ummæla hv. 11. þm. Reykv. núna benda á, að það er mín skoðun og skoðun sósíalista víðar nú, að það er nauðsyn að halda uppi eðlilegri samvinnu milli þjóðfélaga, bæði hér í Evrópu og víðar og eðlilegt að breyta um þá stefnu, sem ríkt hefur marga áratugi, að hvert þjóðfélag loki sig inni með tollmúr. Reynslan hefur orðið bitur af því og menn hafa lært af henni, að það er ekki heppilegasta leiðin að búa til tollskrá, sem er þannig, að tekjur af innfluttum vörum nema jafnvel yfir 100%, og vörurnar svo metnar eftir ýmsum aðferðum, eftir því hvað nauðsynlegt sé og hvað ekki. Alltaf má deila um, hvað rétt er og hvað rangt í því efni, en reynslan sýndi það, að menn urðu að fara inn á einhverjar aðrar brautir til þess hreinlega að forðast kreppu.

Hvort söluskatturinn leysir þann vanda endanlega eða ekki, skal ég ekki segja um. Og ég vil einmitt taka undir orð formanns Framsfl., sem benti á þá annmarka, sem mér finnst einna verstir við söluskattinn, en það er, hversu margir gerast innheimtumenn ríkissjóðs. Það er stærsti ókosturinn, því að það tryggir okkur ekki fulla innheimtu. Þess vegna er það höfuðatriði, að vel sé gengið frá reglunum um innheimtu og við náum öllum skattinum inn. En það er mín skoðun, að við getum ekki haldið áfram notkun á slíkri tollskrá, eins og verið hefur í gildi hér á Íslandi undanfarna áratugi, sem hafði geysiháa innflutningstolla og ætlast svo jafnframt til þess, að við fáum tollfrían innflutning á okkar vörum til hinna sömu þjóða, þegar við skattleggjum þeirra vörur svo óhemjulega.

Auðvitað skildi formaður Framsfl. nauðsyn þess, að ríkissjóður hefði sínar tekjur. Það væri nú annaðhvort, því að fyrrv. formaður þess flokks er búinn að vera lengur í ráðherrastóli og þar af fjmrh., en nokkur annar. Vandamálið er, með hvaða móti við öflum þessara tekna. Sem betur fer hafa menn skilið það, að eðlileg viðskipti eru stórkostleg kjarabót og það er jafnan hagsæld í því landi, þar sem frjáls verzlun ríkir og menn loka sig ekki inni í aflæstu þjóðfélagi, umgirtu tollmúr. Hvort þessi kenning leysir allt úr læðingi til farsældar, það skal ég ekki segja neitt um.

Menn hafa verið að tala hér um spádóma, en þetta er þó það skref, sem hefur af fjölda þjóða og að margra manna yfirsýn verið talið skynsamlegt að stíga. En auðvitað er í þessum málum sem öðrum ekkert ráð svo einhlítt, að það leysi allan vanda. Rétt aðeins vil ég drepa á það, að spádómar um þenslu í ríkisbákninu segja auðvitað ekki alla söguna, ef maður víkur að orðaskiptum 2. þm. Austf. og 3. landsk. þm., vegna þess í fyrsta lagi, að á einum áratug hefur þjóðinni hér fjölgað um nærri 40 þús. manns og aukning í ríkisbúskap hlýtur þess vegna eðlilega að eiga sér stað. Að öðru leyti má á það benda, að fjárlög hljóta að sveiflast nokkuð til, eins og hjá einstaklingum, eftir velgengni. Við aukum okkar útgjöld og veitum okkur meira, þegar vel árar. Og það gekk hér mikið góðæri yfir í nokkur ár, og þá var mjög eðlilegt, að það yrði veruleg þensla í ríkisbúskapnum.

Framsóknarmenn hafa jafnan verið miklir spádómsmenn, og ég man eftir því í Tímanum, að þeir sáu fyrir, að það kæmi síld á Austfirði, og lögðu til, að þar yrðu reistar margar verksmiðjur, og hældust þeir mjög yfir því. Þeir sáu líka fyrir, að 9 árum síðar, frá 1960, yrði mikið atvinnuleysi á Íslandi. En það væri gaman að heyra, hverju þeir spá um ástandið hér 1975 eða 1979. Nú standa þessar verksmiðjur hálftómar, síldin kom ekki og það kom ekki einu sinni ein einasta síld á land á Siglufirði í sumar, sem er í frásögur færandi.

Vandamálið er það, að við búum nú einu sinni hér á eylandi norður í höfum, við misjafnt veðurfar og við misjafnan afla. Svo erum við með þá tilburði hér á hv. Alþ. að reyna að draga úr þessum sveiflum. Okkur tekst auðvitað misjafnlega vel til, eins og öðrum dauðlegum mönnum. En við stefnum að því sama, að reyna að skapa eðlilegt jafnvægi á milli áranna.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., að það er auðvitað krafa okkar allra og viðleitni, að menn hafi mannsæmandi tekjur og skilyrði til að lifa. Vandamálið er, hversu meta skal slíkt. En hann gerði hér nokkurn samanburð við erlenda aðila og drap á aðeins eitt þjóðland. Ég sá það í stórri grein ekki alls fyrir löngu, þar sem ritað var um landflótta menntamanna frá Englandi til Bandaríkjanna, að þeir missa þar geysilegan fjölda færra manna vegna tekjumismunar. Þeir missa meira að segja menn til Sviss vegna tekjumismunar og mér er ekki örgrannt um, að Danmörk eigi við svipað vandamál að etja. Þetta er vandamál lítilla þjóða í dag, vegna þess að maður, sem hefur lært og er verkfræðingur eða læknir, hann er orðinn gjaldgengur hvar sem er í heiminum og meti hann aðeins sínar persónulegu þarfir fram yfir það, sem hann getur fengið heima hjá sér, þá hefur hann góðar og gildar ástæður til þess að fara þangað sem honum líður bezt, ef hann metur tekjurnar einar sér. En viðleitnin hér á Íslandi til að tryggja mönnum góð kjör verður að vera hin sama og verið hefur og við öll keppum að, við deilum aðeins um, hvaða leiðir skuli fara.

Þótt söluskatturinn komi auðvitað misjafnt niður verður ekki fram hjá því gengið, að hann ræður ekki úrslitum um lífvænleg kjör hér á Íslandi, því blessunarlega eru hér millifærðar hátt á annan milljarð kr., til þess að jafna aðstöðu manna, sem vegur hér nokkuð á móti. Hvort það er hægt að gera meira af því eða minna, um það má alltaf deila. Ég hefði verið ánægður, ef millifærslan gegnum almannatryggingarnar hefði verið mun meiri, en svo reyndist ekki. Við erum búnir að ganga frá fjárlögum og úr því verður ekki bætt í ár, en vonandi lagast þetta nú og við fáum betra árferði. Þá höfum við möguleika á því að millifæra meira. En niðurstaðan verður sú, að þetta mun koma nokkuð misjafnlega niður. Það mundi, a.m.k. til að byrja með, koma þyngra niður á nýlenduvörum, því þær eru ekki EFTA–vörur, og aukning á söluskatti þar mundi hækka vissa vöruflokka, en svo mundu aftur aðrir lækka, sem eru orðnir talsvert notaðir í dag af fjölda manns. Okkur er líka sagt af sérfræðingum í vísindalegum útreikningum, að vísitalan sem slík muni sáralítið eða ekkert hreyfast. En þetta gildir auðvitað um ákveðna neyzlu samsetningu.

Ég held, að ég þurfi ekki að bæta miklu við þetta. En það hefur ekki verið minnzt á þá tekjuöflunarleið, eða a.m.k. mjög lítið, sem annars staðar er verið að impra á og sums staðar hefur verið tekin upp, en það er virðisaukaskatturinn. Ég veit ekki, á hvaða stigi það mál er hér á Íslandi, hvort það hefur verið athugað sérstaklega, en ekki er ósennilegt, að það stig sé æskilegri tekjuöflun heldur en almennur neyzluskattur, eins og lagður er á hér á Íslandi í dag.