11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að deila meira en þegar er orðið um raforkuverðið frá Búrfellsvirkjun og væntanlegt verð á Búrfellsvirkjun. Hæstv. raforkumrh. hefur lagt fram óyggjandi grg. um það mál. Það hefur verið túlkað mismunandi, — mismunandi áætlanir á ólíkum tímum, — en ég hygg, að einmitt þær umr., sem fram hafa farið, sanni, að þær áætlanir. sem lagðar voru til grundvallar, hafi staðizt, og það er það, sem mestu máli skiptir í sambandi við álsamningana og það verð, sem samið var um í þeim. Það liggur ljóst fyrir og um það er engin deila, hvorki milli Harza, Landsvirkjunar né neinna þeirra, sem vilja lesa rétt úr tölum, að þar fer ekkert á milli mála. En þetta er mál, sem er auðvitað miklu eðlilegra, að gengið sé alveg úr skugga um í þeirri þn., sem fær málið til meðferðar, og ef henni finnst það ekki vera ljóst, kemst hún væntanlega að þeirri niðurstöðu, að það þurfi nefnd með meira rannsóknarvald en venjulega þn. til þess að komast að niðurstöðu í því máli, og þýða því lítið orðaskipti fram yfir það, sem orðið er á milli þm. um það.

En það, sem gaf mér ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs, er þessi eilífa mistúlkun. Ég hef sagt, að það væru ósannindi. Það má kannske segja þetta með kurteisari orðum, að það sé að ganga á snið við sannleikann eða eitthvað svoleiðis, ef menn kjósa heldur að hafa það, að segja, að enginn ágreiningur hafi verið um Búrfellsvirkjun og hún hafi verið samþ. einróma, stórvirkjun við Búrfell. Þetta hefur aldrei legið fyrir á Alþ. í öðru formi en því, að þeim, sem voru á móti álbræðslunni, hlaut að vera ljóst og öllum, sem nokkuð þekktu til mála, að með því móti varð ekki virkjað stórt við Búrfell, ekki nema á miklu lengri tíma, og þá er ég alveg efins um það, sérstaklega þegar maður hefur hliðsjón af þeim áföllum, sem þjóðarbúskapurinn hefur orðið fyrir einmitt eftir þetta, eftir 1966, að það hefði ekki getað dregizt miklu lengur en ráðgert var eða áætlað var, að það kynni að gerast. Það, sem menn voru sammála um, var frv. til l. um Landsvirkjun, sem lagt var fyrir þingið 1965, og þar var heimild til Búrfellsvirkjunar, allt að 210 mw. raforkuveri í Þjórsá. En í grg. og fskj., sem því fylgdu, var beinlínis gerð grein fyrir því, að Búrfellsvirkjun án álbræðslu mundi sennilega verða virkjuð í sex áföngum, sex 35 mw. virkjunum. Það getur vel verið, að þessir þm. láti sér nægja að kalla þetta stórvirkjun, 35 mw. virkjunina. En slík 35 mw. virkjun var tiltölulega miklu dýrari, því að það liggur einnig fyrir í skýrslunum um Landsvirkjun og fskj., að við hana yrði svo mikill kostnaður, þó að allt væri skorið við nögl, að áætlað var, að hún færi upp í um 55% af kostnaðarverði fullvirkjunar með 6 vélasamstæðum, en þessi 35 mw. virkjun er þá áætluð með einni vélasamstæðu. Það er svo rétt, sem hæstv. raforkumrh. upplýsti, að það var einnig talað um að freista þess möguleika að taka 70 mw. virkjun við Búrfell, sem engu að síður var miklu dýrari en Búrfellsvirkjun með álbræðslunni, en sjálfur raforkumrh. lagði áherzlu á það, þegar hann gerði grein fyrir þessu frv., að ef ætti að reyna það, þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess vegna er nauðsynlegt og væri sérstaklega nauðsynlegt, ef ekki væri gerður alúminíumsamningur, að byggia upp markaði fyrir orkukaupin, áður en ráðizt er í virkjunina, í virkjun af þessari stærð“.

Honum var það auðvitað ljóst, að það þýddi ekki að ráðast í þessa virkjun, fyrr en búið var að byggja upp einhvern markað fyrir orkuna. Undir henni varð ekki öðruvísi risið.

Þessar áætlanir, sem liggja fyrir í þessum plöggum, sýna það, að slíkar smávirkjanir voru svo gríðarlega miklu dýrari, að ef miða ætti við útreikninga, sem hér hafa verið notaðir, 10% af kostnaðarverði þeirra, var ekkert ósennilegt, að kostnaðurinn á kwst. yrði eitthvað um 66 aurar eða þrefalt það, sem nú er talað um, þó að mönnum beri ekki saman um, hvort það séu 17, 19, 22 eða 26 aurar, sem ég skal láta liggja á milli hluta.

Ég vil líka leiðrétta annan misskilning, sem kom fram áðan. Það var ekki fyrr en um það bil, sem álsamningurinn var gerður, sem segja má, að nokkurn veginn hafi fengizt samstaða um það hjá sérfræðingum hér á landi að hverfa frá smávirkjunarleiðinni. Og þá á ég ekki við þessar smávirkjanir við Búrfell, heldur margar aðrar smávirkjanir, sem getið var sem valkosta í þeim grg. og fskj., sem fylgdu Landsvirkjunarfrv. Menn voru mjög tortryggnir, enda held ég, að varla fari á milli mála, að þm. muni eftir því, að menn töldu Búrfellsvirkjun yfir höfuð svo tvísýna, þó að ekki væri nema vegna ísreks, að vafasamt væri að nokkurt vit væri í að leggja í hana. Þessi misskilningur hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum málflutning í blöðum og oft notaður af þeim mönnum, sem voru á móti álbræslunni, til þess að réttlæta afstöðu þeirra gegn stórvirkjun við Búrfell í Þjórsá, sem á eftir að verða okkur mjög mikils virði. Ég hef hérna Þjóðviljann frá því í apríl 1968, og þar stendur í leiðara, að það sé staðreynd, að ákvörðun um Búrfellsvirkjun hafi verið tekin einróma á Alþ. og samningur við alúminíumhringinn sé á engan hátt tengdur þeirri ákvörðun. Ef menn geta haldið því fram, að samningurinn við álbræðsluna hafi á engan hátt verið tengdur þeirri ákvörðun, er það þó staðreynd, að heimildin til að byggja Búrfellsvirkjunina í þeirri veru; sem núna er verið að byggja hana, var þó ekki notuð fyrr en eftir að álsamningarnir voru gerðir.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta, en því miður hefur þessi skoðun oft komið fram hjá fleiri þm., sem ég skal þó ekki rekja. T.d. þegar þm. fóru að skoða Búrfellsvirkjun, þá var eftir þeim haft í blöðum, sumum þeirra, að mikilfenglegust hefðu þeim þótt hin miklu göng við Búrfellsvirkjunina og stærðargráðan á þessari virkjun o.s.frv., og allt þetta væri auðvitað þakkarvert, en þetta væri allt annað en álbræðslan og kæmi henni ekkert við. Slík ummæli eru ekki annað en sögulegar falsanir á staðreyndum. Þessi virkjun, sem nú er vel á veg komin, hefði auðvitað ekki verið byggð nema með því að koma hér samtímis upp raforkumarkaði. Og það er líka vert að minna á þá staðreynd, þegar menn eru að tala um, að þessi framkvæmd, álbræðsla með stórvirkjun við Búrfell, sé óhagkvæm fyrir okkur Íslendinga og reyna að vera með hártoganir í því efni, bera saman raforkuverð erlendis og hér, að á þessu hafa orðið geysilegar breytingar einmitt á þessum tíma, eftir að við gerðum þessa samninga, og stórveldi, ef nefna mætti að svo, stórríki, a.m.k. eins og Bretland, hafa hreinlega veitt ríkisstyrk frá 30–40% af kostnaðarverði til slíkra framkvæmda, að vísu af byggðaástæðum, til þess að reyna að skapa atvinnu á stöðum, þar sem atvinnurekstur eins og kolanámur og aðrar atvinnugreinar höfðu dregizt saman. Svo mikið þótti þeim við liggja. Ég get auðvitað vel skilið það, að einhverjum þm. hérna hefði þótt það mikið, ef við hefðum ætlað að gefa Svisslendingunum 30–40% af kostnaðarverði álbræðslunnar. (Gripið fram í: Hvert er raforkuverðið í Bretlandi?) Ja, raforkuverðið verður náttúrlega lægra, þegar menn fá gefins slíkar summur sem þessar, því að eins og hv. fyrirspyrjandi veit, fer kostnaðarverð slíkra verksmiðja dálítið eftir því, hvort menn fá ríkisstyrk til þess að reisa orkuverin eða ekki.