20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3180)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar. Till. þessi gerir ráð fyrir því, að Nd. Alþ. skipi sérstaka rannsóknarnefnd til þess að rannsaka allar staðreyndir um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar og varðandi rekstrarkostnað virkjunarinnar og um það, að skýrsla verði síðan lögð fyrir Alþ. í samræmi við athugun n. Eins og þegar hefur komið fram í umr., þá eru tildrög þess, að þessi till. var flutt, þau, að á Alþ. urðu allmiklar umr. og mjög skiptar skoðanir um þessi efni, um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, rekstrarkostnað virkjunarinnar og um þann samning, sem gerður hefur verið um orkusölu frá raforkuverinu til álfélagsins. Upphaf málsins var það, að hv. 6. þm. Reykv. hafði í ræðu við 1. umr. fjárlaga gert þessi atriði að umtalsefni og haldið þar fram tilteknum atriðum, en nokkrir hæstv. ráðh. og ýmsir stuðningsmenn ríkisstj. töldu, að það, sem fram kom í ræðu hv. 6. þm. Reykv., væri ekki rétt og mótmæltu ýmsu því, sem hann hafði sagt, og gáfu svo upplýsingar, sem virtust fara allmikið í bága við það, sem hv. þm. hafði sagt varðandi þessi mál. Vegna þessara andstæðu skoðana, sem hér höfðu komið fram um þetta mikilsverða mál, og vegna þess að hér urðu allmiklar deilur um málið á Alþ. og langar umr., var þessi rannsóknartillaga flutt. Tveir hv. þm., hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv., fluttu þá þessa þáltill., sem hér er til afgreiðslu. Þeir lögðu sem sagt til, að d. léti fara fram ítarlega rannsókn á þessu máli, hlutlæga rannsókn málsins, þar sem staðreyndirnar yrðu dregnar fram og skýrsla yrði lögð fyrir Alþ. um málið sem heild. Ég hygg, að flestum hefði í rauninni fundizt það eðlilegt um jafnmikilvægt mál og hér var á ferðinni, að þessi vinnubrögð yrðu viðhöfð. En hæstv. ríkisstj., sem hafði staðið að því að gera áætlanir um Búrfellsvirkjun og staðið að framkvæmdum eða borið ábyrgð á öllum framkvæmdum og einnig staðið að orkusölusamningi við álfélagið, virtist vera andvíg því, að slík rannsókn sem þessi yrði látin fara fram, og síðan var það staðfest í fjhn. d., sem fékk þessa till. til meðferðar, að stuðningsmenn ríkisstj. þar voru sama sinnis og ráðh. Þeir vildu ekki, að rannsóknin yrði látin fara fram. Þeir töldu, að ekki væri ástæða til þess að rannsaka málið, þrátt fyrir þær hörðu og löngu deilur, sem hér höfðu átt sér stað um þetta mál, og þeir töldu einnig, að fjhn. d. gæti í rauninni annazt þá athugun á málinu, sem eðlileg væri. Nú gefur það auga leið, að venjuleg starfsnefnd Alþ. hefur enga aðstöðu til þess að kafa í slíkt stórmál sem hér er um að ræða, taka til athugunar allar áætlanir, sem gerðar höfðu verið um virkjunarframkvæmdir, rannsaka, hvernig staðið hafði verið að framkvæmdum og hver framkvæmdakostnaður hefði í rauninni orðið, bæði sá, sem þegar var bókfærður, og sá, sem e.t.v. var ekki enn þá bókfærður, vegna þess að deilur stóðu um það, hvort reikningar, sem borizt höfðu, ættu að bókfærast, eða að kanna það, hver verða mundi heildarkostnaður framkvæmdanna, því að enn er þar ýmsu ólokið. Það gefur einnig auga leið, að venjuleg starfsnefnd Alþ. hafði enga aðstöðu til þess að kanna ítarlega, hvernig mundi verða háttað rekstrarkostnaði þessa mikla mannvirkis og hvert væri í raun og veru framleiðslukostnaðarverð orkunnar miðað við allar aðstæður. Það var ljóst, að þessi starfsnefnd Alþ., fjhn. Nd., gat í rauninni ekki gert aðra athugun á þessu máli en þá, sem hún gerði, að kalla fyrir sig formann Landsvirkjunarstjórnar og framkvæmdastjóra Landsvirkjunar og hlýða á þeirra mál og spyrja þá nokkurra spurninga varðandi málið, en um frekari athuganir af hálfu n. gat varla verið að ræða. Og það var í rauninni aðeins þetta, sem n. gerði. En í sambandi við þetta vaknar sú spurning, hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh., sem með málið hafa haft að gera, eru því andvígir, að rannsókn sem þessi sé látin fara fram, og hvernig stendur á því, að meiri hl. fjhn., stuðningsmenn ríkisstj. í n., standa gegn því, að till.samþ. og rannsókn sé látin fara fram. Án efa viðurkenna allir þessir aðilar, að hér sé um stórmál að ræða og það sé mjög nauðsynlegt, að þjóðin öll fái að vita hið sanna í þessu máli, hver sé raunverulega orðinn stofnkostnaður virkjunarframkvæmdanna og hver muni í rauninni verða framleiðslukostnaður orkunnar frá þessu orkuveri og hvort bygging orkuversins hefur staðizt áætlanir eða hvort hér hefur orðið um umframkostnað að ræða. Það gefur auga leið, að það er ófullnægjandi, eins og þetta mál ber að, að aðeins forstjóri Landsvirkjunar eða formaður Landsvirkjunarstjórnar segi sitt álit á þessum hlutum. Þeir eru slíkir aðilar að málinu sem heild og hafa tekið það mikinn þátt í þeim deilum, sem uppi hafa verið í rauninni frá öndverðu um bæði áætlanagerðir í þessum efnum og um ýmsa framkvæmdaþætti málsins, að þeir verða ekki teknir sem hlutlausir aðilar, þó að þeir hljóti vitanlega að koma allmikið við rannsókn málsins og vera þar beinir aðilar að. En hvernig getur þá staðið á því, að ráðh. skuli vera andvígir því, að hlutlaus athugun fari fram á málinu og hlutlaus skýrsla um rannsóknina sé síðan lögð fyrir Alþ.? Ég hef ekki getað fundið aðra skýringu en þá á þessum viðbrögðum hæstv. ráðh., að þeim finnist, að með því að samþykkja till. sem þessa séu þeir að viðurkenna fyrir fram á beinan eða óbeinan hátt, að hér hafi eitthvað misfarizt, og því sé samþykkt till. hættulegt undanlát. Einnig má vera, að þeir óttist það hreinlega, að staðreyndir málsins verði leiddar í ljós á ótvíræðan hátt. Ég tel það mjög illa farið, ef á að innleiða þann skilning á hv. Alþ. varðandi rannsóknarnefndir, að þegar lagt er til, að rannsókn fari fram á mikilvægum málum, sé þar með búið að slá því föstu, áður en rannsóknin hefur farið fram, að hér hafi verið um eitthvert misferli að ræða.

Rannsóknarnefndir eru mjög algeng fyrirbæri hjá þjóðþingum víða um heim. Slíkar rannsóknarnefndir starfa mjög oft t.d. í Bandaríkjunum, taka þar til sérstakrar athugunar hin ýmsu mál, sem að höndum bera, og það þykir sjálfsagt, að slík athugun fari fram, og m.a.s. á slík rannsókn sér oft stað með þeim hætti, að unnið er þar mjög fyrir opnum tjöldum. En hér á landi virðist það vera ríkjandi skoðun hjá valdamönnum í þjóðfélaginu, að ekki megi samþykkja skipun sérstakra rannsóknarnefnda til þess að yfirfara gerðir ýmissa aðila og leiða það miskunnarlaust fram í dagsljósið, sem gerzt hefur í raun og veru. Þessi afstaða valdamanna er í rauninni alveg fráleit. Og það er illa farið að mínum dómi, að meiri hl. hv. fjhn. skuli hafa fallizt á þessa afstöðu ráðh., að neita því, að eðlileg rannsókn á þessu máli fari fram. Ég vil sérstaklega undirstrika þetta vegna þess, að þetta, sem ég nú hef rætt um, er í raun og veru kjarni þess máls, sem er til umr. Hér var um það að ræða; að fyrir Alþ. till. um, að efnt skyldi til ákveðinnar rannsóknar á tilteknu máli. Þeir, sem standa að ríkisstj. og ráða yfir meiri hl. á Alþ., ákveða að standa saman um að neita því, að rannsókn fari fram. Þetta er fráleit afstaða, hún vekur tortryggni.

En þá stöndum við enn einu sinni frammi fyrir því deilumáli, sem hér hafði verið í þingsölunum áður, deilunni um framkvæmdirnar við Búrfell og deilunum um framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá þessari virkjun. Við höfum fengið á borðið til okkar nokkrar nýjar upplýsingar í málinu, þó að þær séu að mínum dómi fjarri því að vera allar þær upplýsingar, sem hefðu þurft að koma fram í málinu. Og ég skal víkja nokkuð að þessum ágreiningsefnum, sem málið snerist um, og lýsa því, hvernig þessi ágreiningsefni líta út frá sjónarmiði okkar, sem skipum minni hl. fjhn. og stöndum að minnihlutaálitinu.

Ég er sammála frsm, meiri hl. fjhn. um það, að það voru einkum þrjú atriði, sem deilt var um, þrjú efnisatriði, sem deilt var um á Alþ. og fram höfðu komið í fjárlagaræðu hv. 6. þm. Reykv. varðandi þetta mál. Það var í fyrsta lagi, að hann hafði haldið því fram, að stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar hefði farið mjög verulega fram úr áætlun, eða sem næmi í kringum 25%. Í öðru lagi hafði hann haldið því fram í þessari ræðu sinni, að stofnkostnaður virkjunarinnar væri orðinn með varagasaflsstöð og ýmsum tilheyrandi mannvirkjum, sem þegar höfðu verið gerð, 3 770 millj. kr. Og í þriðja lagi hafði 6. þm. Reykv. haldið því fram í þessari ræðu, að nú væri framleiðslukostnaður raforkunnar frá orkuverinu um 45 aurar á kwst., en þegar virkjunin væri fullnýtt, gerð að fullu og fullnýtt, mundi framleiðslukostnaðarverð orkunnar lækka, en verða sennilega í kringum 26 aurar á kwst. Þetta voru þau þrjú meginatriði, sem komu fram í ræðu hv. þm. og ollu allmiklum umr. á Alþ. og miklum ágreiningi á milli hans og nokkurra annarra þm. annars vegar og a.m.k. tveggja hæstv. ráðh. og stuðningsmanna þeirra hins vegar.

Mér þykir rétt að víkja nokkru nánar að þessum ágreiningsefnum og skoða þau í ljósi þeirra upplýsinga, sem liggja fyrir í málinu. Ég sný mér þá fyrst að fyrsta atriðinu, en það er spurningin um það, hvort stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar hefði farið fram úr áætlun eða ekki. Og hvað fór hann þá mikið fram úr áætlun, hafi hann farið fram úr áætlun? Ég tel, að miðað við þau gögn, sem nú liggja fyrir og m.a. bárust fjhn. d. frá Landsvirkjun, fari ekkert á milli mála, að stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar hefur farið mjög verulega fram úr áætlun. Það er að vísu rétt, að það er nokkuð erfitt að segja til um það með fullri nákvæmni, hvað umframkostnaðurinn er mikill; m.a. vegna þess, að á byggingartímanum hefur gengi íslenzkrar krónu tvívegis verið breytt, og vitanlega hafa þær breytingar haft sín áhrif á byggingarkostnaðinn og þar af leiðandi raunar einnig á fyrri áætlunargerð um stofnkostnaðinn. Þegar áætlun var gerð um stofnkostnað virkjunarinnar, kom skýrt fram, að stofnkostnaðinum var í meginatriðum skipt í tvo flokka, annars vegar innlendan kostnað við byggingu orkuversins og hins vegar erlendan kostnað. Nú sjá það allir menn, að um leið og gengi íslenzkrar krónu gerbreytist, hlýtur hið áætlaða kostnaðarverð hins innlenda kostnaðar vitanlega að eiga að lækka í dollurum, aðeins vegna gengisbreytingarinnar. Þegar forsvarsmenn Landsvirkjunar voru um þetta spurðir á fjhn.- fundi, hvað upphafleg áætlun hefði í raun og veru átt að lækka mikið vegna gengisbreytingarinnar, svöruðu þeir því, eins og kemur einnig fram í fskj. því, sem prentað er með áliti meiri hl. og er að finna á bls. 19 í áliti meiri hl., að vegna gengisbreytinganna hefði upphafleg áætlun um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar raunverulega átt að lækka um 7.4 millj. dollara af þessum ástæðum. En reynslan varð hins vegar sú að dómi Landsvirkjunar, að byggingarkostnaðurinn lækkaði ekki um þessar 7.4 millj. dollara, heldur beinlínis hækkaði byggingarkostnaðurinn nokkuð í dollurum talið. Í svari Landsvirkjunar segir, að raunverulega hafi byggingarkostnaðurinn af þessum ástæðum farið 678 millj. kr. fram yfir áætlaðan upphaflegan kostnað, og Landsvirkjun gerir grein fyrir því, í hverju þessi umframkostnaður liggi. Landsvirkjun segir, að þessi umframkostnaður liggi m.a. í gengistöpum á lánum fyrir innlendum kostnaði, sem nemur 154 millj. kr. Það fór sem sagt þannig í reyndinni, að tekin voru erlend lán fyrir innlenda kostnaðinum, af því að þar brugðust áætlanir, og þar kom því fram beint gengistap við gengisbreytingar. Landsvirkjun segir enn fremur, að aðflutningsgjöld og skattar hafi hækkað umfram áætlanir um 44 millj., að aukagreiðslur fyrir erlent vinnuafl hafi numið 102 millj., að innlendar kauphækkanir umfram áætlun hafi numið 50 millj. og sérstakar bónusgreiðslur til verktaka hafi numið 186 millj. Þannig hefur Landsvirkjun útskýrt þessa umframhækkun, sem nemur 536 millj. Þá vantar skýringu á hækkun, sem nemur 142 millj., en Landsvirkjun segir, að sú hækkun stafi af „aukningu á mössum, ýmsum tæknilegum atriðum og mismuninum á of lágt og of hátt áætluðum liðum“, eins og orðrétt segir í umsögn Landsvirkjunar.

Þessar upplýsingar frá Landsvirkjun einar nægja til þess að taka af allan vafa um það, að raunverulega fóru byggingarframkvæmdir við 1. áfanga Búrfellsvirkjunar fram úr áætlun, sem nemur 678 millj. kr. Það er í rauninni þetta, sem einnig var staðfest með þeirri sérstöku áætlun, sem Harza gerði á síðara stigi málsins, sem benti til þess, að raunverulega hefði heildarbyggingarkostnaðurinn átt að vera sem þessari upphæð nemur lægri en upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir. Þegar þessi upphæð er borin saman við heildarframkvæmdakostnaðinn, kemur í ljós, að stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar hefur raunverulega farið fram úr áætlun sem nemur fullum 25%. Það reynist því fullkomlega rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði varðandi þennan lið. Ég tel, að ekki sé hægt að þræta um það lengur, að forustumenn Landsvirkjunar hafa með umsögnum sínum, sem þeir hafa lagt fyrir Alþ. og upplýstu á nefndarfundi hjá fjhn., viðurkennt, að í reynd hefur orðið um umframkostnað sem þessu nemur að ræða. Hitt er svo allt annað mál, að vegna gengisbreytinganna verður ekki um mikla hækkun í dollurum talið að ræða, miðað við þær upplýsingar, sem þeir gefa upp.

Ég sný mér þá að öðru ágreiningsefninu. Deilt var um það, hver væri orðinn stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar nú með varaaflsstöð og tilheyrandi mannvirkjum. Hv. 6. þm. Reykv. hafði haldið því fram í sinni ræðu, að þessi kostnaður næmi nú um 3770 millj. kr. Í umr. á Alþ. kom fram í ræðu hæstv. þáv. raforkumrh., að hann taldi, að stofnkostnaður þessara sömu framkvæmda næmi 3 660 millj. kr. eða 110 millj. kr. lægri upphæð. Í skýrslum, sem Landsvirkjun lagði fram á fundi hjá fjhn., gerir hún grein fyrir því, að þessi stofnkostnaður við Búrfellsvirkjun og við gasaflsstöðina nemi 3 708 millj. kr. Þetta kemur skýrt fram í þeim gögnum, sem liggja fyrir frá Landsvirkjun. Þó er líka ljóst, að í þessari tölu er ekki talinn allur kostnaður við miðlunarframkvæmdir, sem þegar hafa verið unnar. Málið liggur þá þannig fyrir nú, að hv. 6. þm. Reykv. hafði haldið því fram, að stofnkostnaður þessara mannvirkja væri orðinn 3 770 millj. kr. Hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson taldi kostnaðinn vera 3 660 millj. Landsvirkjun telur hann vera 3708 millj. kr. Og eins og ég segi, þá er ljóst, að nokkur kostnaður, sem þegar hefur þó verið efnt til, er ekki talinn með í þessum tölum. Hér sjá allir, að orðið er um mjög óverulegan skakka að ræða, sem í rauninni tekur ekki á þessu stigi málsins að vera að þræta frekar um.

Ég vík þá að þriðja ágreiningsefninu, hvert væri raunverulegt framleiðslukostnaðarverð raforkunnar frá Búrfellsvirkjun. Hv. 6. þm. Reykv. hafði sagt í sinni ræðu, að nú væri framleiðslukostnaðarverðið 45 aurar á kwst. Landsvirkjun hefur hins vegar upplýst, og það kemur fram í grg. hennar, sem prentuð er í fskj. með áliti meiri hl. fjhn., að framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá Búrfellsvirkjun sé 47.4 aurar á kwst. Landsvirkjun viðurkennir, að framleiðslukostnaður orkunnar sé nokkru hærri en hv. 6. þm. Reykv. hafði haldið fram í sinni ræðu. Í upplýsingum frá Landsvirkjun kemur skýrt fram, að hún viðurkennir í útreikningum sínum, að framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá Búrfellsvirkjun muni verða nokkru hærra fram til ársins 1975 en nemur því verði, sem orkan hefur verið seld á til álfélagsins. Hv. 6. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu, að hann teldi, að þegar virkjunin hefði verið byggð að fullu og hún væri fullnýtt, mundi framleiðslukostnaðarverð orkunnar vera í kringum 26 aurar á kwst. En Landsvirkjun telur í sínum upplýsingum nú, að framleiðslukostnaðarverðið muni verða nokkru lægra en þetta, þegar virkjunin sé fullnýtt, eða í kringum 20.1 eyrir á kwst. Forustumenn Landsvirkjunar gera í þessum útreikningum sínum grein fyrir því, hvernig þeir komast að þessari niðurstöðu. Og það vekur athygli, þegar þessi grg. þeirra er skoðuð, að nú ganga þeir út frá allt öðrum forsendum við útreikninga á framleiðslukostnaðarverði orkunnar en þeir hafa gert áður, allt öðrum forsendum en byggt var á, þegar grg. voru lagðar fyrir Alþ. um framkvæmdirnar við Búrfell á sínum tíma. Það kemur í ljós, að forustumenn Landsvirkjunar ganga út frá því, að afskriftatími virkjunarinnar sé 40 ár. En í fyrri skýrslum var miðað við, að afskriftatíminn væri 25 ár. Nú telja þessir forustumenn Landsvirkjunar, að reikna megi með rekstrarkostnaði við virkjunina, sem nemi 8.5% af stofnkostnaði hennar á ári, en í upphaflegum áætlunum, sem komu fyrir Alþ., var reiknað með því, að þessi rekstrarkostnaður næmi 9.2% af heildarkostnaði virkjunar. Nú segir í hinum nýju forsendum Landsvirkjunar í sambandi við þessa útreikninga, að telja megi, að stjórnunarkostnaður og viðhald muni nema 1% af heildarverði virkjunarinnar á ári, en í fyrri forsendum var talið, að þessi kostnaður næmi 1.5%. Nú kemur fram í þessum nýju forsendum, að talið er, að þegar virkjunin verður fullnýtt, verði seld orka frá virkjuninni sem nemi 1720 millj. kwst. á ári, en í fyrri áætlun, sem send var Alþ., var reiknað með því, að seljanleg orka frá orkuverinu væri 1635 millj. kwst.

Nú ber einnig að gæta þess, að þegar talið var samkv. fyrri áætlunum, að rekstrarkostnaður virkjunarinnar næmi 9.2% af heildarkostnaði virkjunarinnar, var gengið út frá því, að vextir af lánum væru 6%. Nú liggur hins vegar fyrir, að vextirnir nema í kringum 71/2%. Það er því alveg augljóst mál, að það verður að reikna með því, að rekstrarkostnaður virkjunarinnar sé a.m.k. 9.2%, eins og upphaflega var reiknað með, og þó benda allar líkur til þess, að hér þyrfti að reikna með hærri tölu, vegna þess að vextirnir hafa reynzt hærri en þá var reiknað með.

Sé gengið út frá því, að heildarstofnkostnaður virkjunarinnar, þ.e. þeirra þátta, sem enn eru óunnir, verði eins og Landsvirkjunarstjórn reiknar með eða meiri hl. hennar, en hins vegar gengið út frá að fylgja þeim forsendum við útreikninga á framleiðslukostnaðarverði orkunnar, sem byggt var á í upphafi, þ.e. að rekstrarkostnaðurinn nemi 9.2% af heildarkostnaði og seljanleg orka sé jafnmikil og reiknað var með í upphafi, þá mundi það þýða, að verðið á raforkunni frá virkjuninni mundi kosta 21.3 aura á kwst., og ef við það verð er síðan bætt verðinu á raforkunni frá varagasaflsstöðinni og miðað við það, sem Harza telur, að sú orka muni kosta, þarf að bæta við þetta orkuverð 1.7 aurum á kwst., en það þýðir, að framleiðslukostnaðarverðið mundi þá vera 23 aurar á kwst., eða nokkru hærra en söluverðið á orkunni er til álfélagsins, en það er 22 aurar á kwst eða 2.5 mill.

Nú er alveg augljóst, að forustumenn Landsvirkjunar reikna með því, að sá hluti virkjunarinnar, sem enn er óunninn, eigi að lækka verulega í verði frá því, sem upphaflega var áætlað. Forustumenn Landsvirkjunar áætla t.d., að síðari áfangi virkjunarframkvæmdanna muni kosta 2.61 millj. dollara, en þessi sami liður var áætlaður áður 5.10 millj. dollara. Sömuleiðis er byrjunarmiðlun í Þórisvatni, sem áður var áætluð 2 millj. dollara, nú áætluð á 1.48 millj. dollara. Af fyrri reynslu hlýtur maður að taka þessar áætlanir með fyrirvara og telja það ekki verulega líklegt, að þær standist fremur en þær fyrri, heldur sé raunverulega líklegt, að heildarkostnaður mannvirkisins verði nokkru meiri en Landsvirkjun reiknar nú með. En auðvitað er ómögulegt að segja um það með nokkurri vissu, hver endanlegur byggingarkostnaður virkjunarinnar verður. Þegar það er því haft í huga, að ýmsir þættir, sem mjög verka á rekstrarkostnað virkjunarinnar, eins og vaxtagreiðslur og annað slíkt, eru mun hærri en upphaflega var reiknað með, þá sýnist mér, að enginn vafi geti leikið á því, að hið raunverulega framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá virkjuninni muni verða þó nokkuð yfir söluverðinu til álfélagsins. Þá er einnig þess að gæta, að upplýst er, að mjög háir reikningar, sem enn hafa ekki verið samþykktir, liggja fyrir frá verktökum. Í þessum reikningum gera verktakarnir kröfur um nokkur hundruð millj. kr. í viðbótargreiðslur sér til handa. Það kemur beinlínis fram í bréfi frá Harza, að félagið reiknar með því, að þessum kröfum verði að sinna að meira eða minna leyti. Mér sýnist því allt benda til þess, að stofnkostnaðurinn verði að lokum mun meiri en Landsvirkjun reiknar með og framleiðslukostnaðurinn, þegar virkjunin verður komin í fullnýtingu, verði meiri en nemur þessum 23 aurum, sem ég hef þegar bent á, að raunverulega komi út úr því dæmi, sem Landsvirkjun hefur sett upp. En hv. 6. þm. Reykv. hafði sagt í sinni ræðu, að hann teldi, að þegar virkjunin væri fullnýtt mætti búast við því, að orkuverðið væri í kringum 26 aurar á kwst. Mér sýnist allt benda til þess, að þessi áætlun hans muni ekki fara fjarri réttu lagi. Niðurstaða mín og okkar í minni hl. fjhn. er því sú, að þau ágreiningsefni, sem hér voru uppi, hafi skýrzt nokkuð frá því, sem áður var. Það hafi beinlínis komið í ljós með viðurkenningu frá forustumönnum Landsvirkjunar, að fyrsti byggingaráfangi hefur farið verulega fram úr áætlun, þó að það hafi að nokkru leyti jafnazt aftur með ávinningi í sambandi við gengisbreytingar, og staðhæfingar hv. 6. þm. Reykv. hafi verið réttar í þessum efnum. Mér sýnist einnig, að stofnkostnaður virkjunarinnar, sá sem hv. 6. þm. Reykv. hélt hér fram, að orðinn væri, sé í meginatriðum réttur, og mér sýnist sömuleiðis, að hann hafi farið með rétt mál, þegar hann taldi, að framleiðslukostnaður raforkunnar frá Búrfellsvirkjun væri nú 45 aurar á kwst., en Landsvirkjun viðurkennir raunar, að hann sé nokkuð yfir 47 aurar á kwst., og einnig sú staðhæfing hans, að líkur bentu til, að framleiðslukostnaður orkunnar frá Búrfellsvirkjun, þegar hún yrði komin í fulla nýtingu, yrði í kringum 26 aurar á kwst. Augljóst er, að framleiðslukostnaður orkunnar frá orkuverinu er a.m.k. talsvert hærri en verðið á orkunni er, sem samið hefur verið um til álfélagsins.

Þetta voru í rauninni ágreiningsefnin, sem mest var deilt um á Alþ., þegar þetta mál var rætt við fyrri umr., og skal ég svo ekki fjölyrða frekar um það. .Ég tel það hins vegar illa farið, að meiri hl. n. hefur ekki viljað fallast á að efna til þeirrar rannsóknar á málinu og skýrslugerðar um málið, sem till. fjallar um, sem hér er til umr. Hitt atriðið ætla ég ekki heldur að ræða, sem nokkuð hefur dregizt inn í þessar umr., þótt með vafasömum rétti sé, hvort hagstætt sé fyrir Íslendinga, miðað við allar þessar aðstæður, að selja raforkuna frá orkuverinu áfram til álfélagsins á því verði, sem nú hefur verið samið um, eða ekki, það er auðvelt að túlka það á fleiri en einn veg. Vitanlega er auðvelt að segja, þegar efnt hefur verið til mikilla framkvæmda og búið er að stofna til hárra lána og mikils kostnaðar, að betra sé að selja orkuna, þó á undirverði sé, en láta hana ónotaða. Ekki neita ég því, að það sé nokkru betra en láta orkuna óselda. En mín afstaða er sú, að við fáum ekki fullkomið framleiðslukostnaðarverð fyrir orkuna með samningunum við álfélagið, og því hefði í rauninni ekki átt að gera þann samning um viðbótarorkusölu án þess að fá a.m.k. framleiðslukostnaðarverð. Ég veit, að hv. þm. þekkja þetta dæmi af svo óteljandi tilvikum úr lífinu. Það er t.d. sagt við launamenn stundum eða verkamenn: Auðvitað er miklu betra fyrir þig að þiggja lágt kaup, langt undir umsömdum taxta, en vera iðjulaus. Það má til sanns vegar færa, að það sé aðeins betra en að fá ekki neitt. En þetta eru ekki haldbær rök. Auðvitað þurfum við að leggja framleiðslukostnaðarverð orkunnar til grundvallar, og við eigum ekki að sætta okkur við að selja orkuna undir framleiðslukostnaðarverði. Það á að vera okkar meginsjónarmið. Ég tel fyrir mitt leyti, að það hafi verið gert í þessu tilfelli. En eins og ég sagði, var það ekki aðalatriði þessa máls, sem hér er um að ræða, heldur hitt, ágreiningurinn um það, hvort rétt hefði verið að efna til þeirrar hlutlægu rannsóknar á þessu stóra máli, sem till. fjallar um. Ég tel, að við ættum að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir um rannsókn, og mér sýnist; að sjálf ágreiningsefnin hafi skýrzt nokkuð og í öllum meginatriðum hafi komið í ljós, að það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í þessum efnum og deilurnar spunnust út af, hafi verið rétt.

Ég skal svo ekki lengja að þessu sinni frekar en orðið er þessar umr., en minni hl. fjhn. leggur til, eins og fram kemur á þskj. 402, að fyrirliggjandi till. verði samþykkt.