23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það hafa nú þegar farið fram langar umr. um það ágreiningsmál, sem hér hefur mest verið rætt og er tengt þeim tillöguflutningi, sem hér liggur annars fyrir til umr. Mér sýnist vafasamt að halda uppi löngum ræðuhöldum um þetta ágreiningsefni, eins og nú er komið. Það skýrist harla lítið, finnst mér, en hitt er í rauninni aðalatriði þessa máls, sem hæstv. iðnmrh, lét skiljast á sinni ræðu og ég hef talsvert gert að umræðuefni, þegar ég talaði fyrir hönd minni hl. fjhn. fyrir því, að sú till. yrði samþ., sem hér liggur fyrir. Aðalatriðið er, hvort samþykkja eigi þá till., sem hér liggur fyrir og fer fram á það, að þetta stóra og mikla mál, sem hér um ræðir, verði rannsakað af sérstakri rannsóknarnefnd og skýrsla um málið verði lögð fyrir Alþ. Ég tek eftir því nú, að hæstv. iðnmrh. ber einkum fyrir sig eitt atriði, þegar hann reynir að rökstyðja það, að ekki sé þörf á því, að þessi rannsókn fari fram. Hann segir, að þn., sem fékk till. til athugunar, þ.e. fjhn. þessarar d., hafi ekki óskað eftir frekari upplýsingum um málið en fram komu í n., þar með taldir fulltrúar minni hl. í fjhn., þeir hafi ekki óskað eftir frekari upplýsingum um málið og því í rauninni fengið allt, sem þeir báðu um. Hæstv. iðnmrh. getur varla endurtekið þetta, eins og hann hefur gert í þessum umr., hafi hann hlustað á mál mitt, þegar ég talaði upphaflega fyrir hönd minni hl, fjhn. og vék alveg sérstaklega að þessu atriði. Við í fjhn. litum svo á, þeir sem skipuðu minni hl., að það væri öldungis ómögulegt fyrir venjulega starfsnefnd í þinginu að taka að sér þá rannsókn á þessu stóra og viðamikla máli, sem þáltill. gerir ráð fyrir, að fram fari. Við litum svo á, að við í fjhn. hefðum ekki aðstöðu til annars en að yfirheyra lauslega framkvæmdastjóra Landsvirkjunar og formann stjórnar Landsvirkjunar, sem við gerðum, og fá hjá þeim nokkrar upplýsingar um málið og taka við þeim skýrslum, sem þeir gáfu okkur varðandi málið, en auðvitað hafði þessi starfsnefnd Alþ. ekki aðstöðu til þess að framkvæma þá rannsókn, sem þáltill. gerði ráð fyrir.

Ég vék að því í framsöguræðu minni, að slík rannsókn hefði vitanlega þurft að beinast að því að kanna allar þær áætlanir, sem gerðar voru um framkvæmdir við Búrfell og bera þær áætlanir síðan nákvæmlega saman við framkvæmdakostnaðinn, sem orðinn væri. Þetta er vitanlega mikið verk og þarf í rauninni að vinnast af þar til fróðum mönnum. Hæstv. iðnmrh. komst þannig að orði, að við í minni hl. fjhn. hefðum getað fengið til liðs við okkur löggilta endurskoðendur og þannig farið í gegnum þessi atriði. Vill hæstv. ráðh. segja, að það sé sanngjarnt, að venjuleg starfsnefnd í þinginu fari að vinna slík verk? Fyrir utan það, að mér er nýtt að heyra, að það hafi verið á valdi okkar í minni hl. fjhn. að ráða til okkar slíka starfsmenn, sem án efa hefðu tekið gildar greiðslur fyrir að kafa í gegnum öll skjöl þar að lútandi. Það hefði vitanlega einnig þurft að kanna þá reikninga, sem upplýsingar liggja fyrir um, að liggja nú hjá Landsvirkjunarstjórn frá ýmsum verktökum, þar sem þeir gera kröfur um viðbótargreiðslur fyrir verk sín, og kröfur þeirra skipta mörgum hundruðum millj. kr. Það þarf vitanlega að kanna þessar kröfur til þess að gera sér grein fyrir því, hvað er líklegt um endanlegan stofnkostnað þeirra framkvæmda, sem þegar hafa verið unnar. Síðan þyrfti auðvitað að fara í gegnum það, hvað líklegt væri um þær áætlanir, sem fyrir liggja um kostnað á þeim hluta verksins, sem enn hefur ekki verið unninn, rannsaka síðan rekstrarkostnað, alla einstaka þætti þar, til þess að hægt sé að svara þeim spurningum, sem deilt hefur verið um. Hér kemur auðvitað margt fleira til greina, en ég ætla að þessi upptalning sýni öllum hv. þdm., að vitanlega er gjörsamlega út í hött að tala um, að venjuleg starfsnefnd Alþ. geti tekið að sér þessa vinnu alla og samið um hana skýrslu og lagt hana síðan fyrir Alþ. Spurningin í þessu máli hefur verið þessi og er það enn þann dag í dag: Þykir ástæða til þess, að rannsókn fari fram af sérstaklega kjörinni nefnd til þess að alþm. fái skýrslu um málið í heild? Við í minni hl. höfum lagt á það áherzlu, að við teljum eðlilegt og rétt, að þessi rannsókn fari fram, en svo undarlega bregður við, að hæstv. ráðh., sem hafa haft með áætlanagerðir að gera á beinan og óheinan hátt ásamt forustumönnum Landsvirkjunar, — þær áætlanagerðir, sem hafa verið lagðar fyrir Alþ. upphaflega, þegar málið var lagt fyrir, og síðar, þegar leitað hefur verið til Alþ. í sambandi við málið, og þeir sem hafa í rauninni borið ábyrgð á því, hvernig að framkvæmdum hefur verið staðið og hvernig til hefur tekizt, — þeir snúast gegn því, að þessi rannsókn fari fram og allur sannleikurinn í málinu verði dreginn fram og benda aðeins á, að fyrir liggi upplýsingar frá forustumönnum Landsvirkjunar og fjhn. Nd. hafi fengið aðstöðu til þess að skoða málið. Auðvitað veit ég, að hæstv. iðnmrh. sér, að þessi röksemd hans fær ekki staðizt. Það er alveg augljóst mál, að hann virðist ekki fyrir sitt leyti vilja, að þessi rannsókn fari fram. Því styður hann þá till., sem kemur frá meiri hl. fjhn., að till., sem fyrir liggur, verði felld og neitað verði um rannsókn.

Ég ætla svo að víkja örfáum orðum að nokkrum þeim deilumálum, sem snerta virkjunarframkvæmdirnar. Ég hef veitt því athygli, að hæstv. iðnmrh. hefur ekki minnzt á þá viðurkenningu frá forustumönnum Landsvirkjunar, sem ég gerði talsvert að umtalsefni og fram kom í svörum þeirra til fjhn. um framkvæmdakostnaðinn við I. áfanga virkjunarinnar, þar sem þeir viðurkenna, að raunverulega hefðu upphaflegar áætlanir átt að lækka um sem nemur 7.4 millj. dollara vegna gengisbreytinganna, þar sem innlendir kostnaðarliðir áttu að lækka í dollurum talið um þessa upphæð. Forustumenn Landsvirkjunar viðurkenna, að þessi lækkun hafi í rauninni ekki komið fram, þessar 7.4 millj. dollara, heldur hafi framkvæmdakostnaðurinn í dollurum talið verið svipaður því, sem upphaflega var áætlað. Forustumenn Landsvirkjunar viðurkenna, að þetta nemi 768 millj. kr. miðað við núverandi gengi. Það er því alveg augljóst mál, að virkjunarframkvæmdirnar hafa orðið 768 millj. dýrari en upphaflegar áætlanir voru um. Þetta hefur auðvitað heitið hingað til á okkar máli, að áætlanir hafi ekki staðizt og framkvæmdakostnaður hafi orðið meiri en upphaflega var áætlað. Ég tel, að ekki sé hægt að deila um þetta, vegna þess að þessi viðurkenning liggur alveg tvímælalaust fyrir í skýrslum Landsvirkjunar. Hitt er svo í rauninni allt annað mál, hvort þetta, sem tapaðist á umframkostnaði, hefur aftur jafnazt upp í dollurum talið með þeim óbeina hagnaði, sem hlaut að verða á vissum framkvæmdaliðum við tvennar gengislækkanir á þessu verki.

En það á ekki að vera að berja höfðinu við steininn í þessum efnum og neita staðreyndum, því að kostnaður við verkið hefur í reynd farið fram úr áætlun. Ég hafði í minni fyrri ræðu nokkuð vikið að því, að þegar kemur að útskýringum Landsvirkjunar á því, hver teljist vera framleiðslukostnaður raforkunnar frá orkuverinu, þá styðst Landsvirkjun við aðrar forsendur við þessa útreikninga en hún hafði sjálf gert í skýrslum til Alþ. áður. Þar á meðal reiknaði Landsvirkjun nú með því, að seljanleg orka frá orkuverinu verði 1720 millj. kwst., en hún hafði áður reiknað með því, að seljanleg orka frá orkuverinu væri 1635 millj. kwst. Á það var bent, að það er engin leið að fá út þetta orkumagn, sem nú er reiknað með, 1720 millj. kwst., sem seljanlega orku frá orkuverinu, nema á þann hátt að reikna með því, að nýtingartími virkjunarinnar – að því leyti til, sem þarf að selja orkuna til innlendra aðila, —verði mun meiri en þekkzt hefur hér á landi hingað til. Sé miðað við það, að nýtingartíminn sé svipaður og yfirleitt hefur verið reiknað með áður varðandi sölu á orku frá vatnsorkuverum til innlendra aðila, eru engar líkur til þess, að seljanleg orka frá orkuverinu fari yfir 1635 millj kwst. En nú er skyndilega farið að taka alla framleiðanlega orku úr orkuverinu og reikna með því, að hún geti öll selzt á þessu verði. Á þann hátt fara menn því enn nær því en áður að geta haldið því fram, að framleiðslukostnaðarverð orkunnar sé þó lægra en söluverð á orkunni til álfélagsins. Það er í rauninni tómt mál að tala um að halda uppi löngum umr. fram og til baka um þetta. Ég tel víst, að a.m.k. allir þeir hv. þdm., sem hér hafa hlýtt á umr., hafi áttað sig á því, hvað meiri og minni hl. ber á milli í þessum efnum. Ég tók eftir því, að í síðustu ræðu sinni vék hæstv. iðnmrh. að ýmsum í rauninni alveg óskyldum atriðum því máli, sem hér er til umr. Hann fór að minnast á ístruflanirnar í Þjórsá og las þar nokkuð upp úr nýrri skýrslu. M.a. las hann þá upp setningu, sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: Alvarlegar truflanir í Þjórsá geta alltaf komið fyrir af völdum ísmyndunar. Það er einmitt þetta, sem við höfum ýmsir bent á, bæði upphaflega, þegar málið um Þjórsárvirkjun lá fyrir Alþ., og síðar. Auðvitað hefur okkur ekki dottið til hugar að halda því fram, að ísvandamálið í Þjórsá væri af þeirri gráðu, að þar væri ekki hægt að vírkja, síður en svo. Við höfum hins vegar bent á, að það liggur fyrir frá færustu innlendum sérfræðingum, að í Þjórsá er um verulega hættu að ræða af ístruflunum, en það þýðir, að það þarf þá að reikna með því í auknum mæli að grípa til varaaflstöðvanna. En aflið frá varaaflstöðinni er miklum mun dýrara en aflið frá virkjuninni sjálfri. En þegar framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá þessu orkuveri í heild er reiknað út, þá höfum við reiknað með því, að ístruflanavandamálið sé nálega ekkert og að lítið sem ekkert þurfi að byggja á aðkeyptu rafmagni frá varaaflstöðvunum. En einmitt í þessari skýrslu, sem hæstv. ráðh. las úr, er staðfest, að þetta vandamál er fyrir hendi, og það ber því vitanlega að reikna með því, þegar verið er að reyna að gera sér raunhæfa grein fyrir því, hvert kostnaðarverð orkunnar frá orkuverinu er.

Ég tók eftir því, að hæstv. iðnmrh. heldur enn áfram miklum samanburði á viðskiptum Norðmanna við Swiss Aluminium og viðskiptum okkar og telur enn, að við höfum fengið miklu hagstæðari kjör en þeir í Noregi, öfugt við það, sem hann sjálfur og aðrir viðurkenndu þó um það leyti, sem samningarnir við Swiss Aluminium voru gerðir á Alþ. Ég hef bent á, að ég tel, að þessi samanburður hjá hæstv. ráðh. sé mjög ónákvæmur og segi harla lítið um það efni, sem þar er deilt um. Hæstv. ráðh. hefur margendurtekið, að nú séum við að sumu leyti komin í hagstæðara verð vegna gengisbreytinga í Noregi. Ég spyr aðeins: Hvenær hafa þær gengisbreytingar í Noregi átt sér stað? Mér er ekki kunnugt um það. Á þessum síðustu árum, 1967 og 1968, þegar við felldum okkar gengi tvisvar, féll norska krónan ekki. Okkar króna er skráð gagnvart norskri krónu í svo til nákvæmlega sama hlutfalli og gagnvart Bandaríkjadollar, enda held ég, að þetta sé ekki nákvæmt hjá hæstv. ráðh., nema að því leyti til, að það geti verið um minni háttar breytingu á skráningu, svona frá degi til dags, eða tímabundna á milli norskrar krónu og Bandaríkjadollars að ræða. Útreikningar, sem hann birti fyrr, hæstv. ráðh., voru um það, að verðið á raforku í Noregi til alúminíumverksmiðju þar væri rétt aðeins neðan við 3 mill, en áður hafði verið gefið upp, að það væri 3 mill, svo að ég held, að ekki hafi orðið sérleg breyting á í þeim efnum. En verð okkar á raforku til Swiss Aluminium er raunverulega, eins og hér hefur margsinnis komið fram, 21/2 mill, svo að um það var vitanlega ekkert að ræða, að okkar raforkuverð til álfélagsins er lægra en það, sem sama félag keypti orkuna á í Noregi. Spurningin um skattana, sem tvinnast inn í þetta mál, hefur alltaf verið miklu óljósari, en þar er hins vegar býsna ólíku saman að jafna. Í Noregi borgar alúminíumverksmiðjan skatta eftir norskum lögum eins og um norskt fyrirtæki væri að ræða. En við höfum samið um fast framleiðslugjald, en skattar eru þess eðlis, að þeir geta verið lægri eitt árið og annað árið mun hærri. Það fer auðvitað eftir afkomunni, eftir því hvað telst skattskylt, svo að hér getur margt gripið inn í.

Eins og ég benti á, er ekkert um það að villast, að okkar framleiðslugjald hefur einnig verið miðað að nokkru leyti við stórfelld fríðindi, sem verksmiðjufélagið fékk varðandi undanþágu frá tollum við byggingarframkvæmdir, sem hins vegar voru ekki í Noregi. Það er eins og um annað, sem hefur verið rætt af þessu tagi, það er meira og minna út úr réttri línu, og er mjög vafasamt að halda uppi löngum umr. um það.

Ég vil þó gera eina aths. enn í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann minntist á afstöðuna til kísilgúrverksmiðjunnar og varðandi blönduð fyrirtæki, hvort Íslendingar ættu jafnvel í vissum tilvikum að fallast á að vera þátttakendur í atvinnurekstri í landinu með erlendum aðilum eða ekki. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að við Alþb.-menn greiddum ekki atkvæði á móti lögunum um kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn einmitt á þeim grundvelli, að við Íslendingar ættum þó þar að forminu til meiri hluta hlutafjárins. Og sú afstaða okkar hefur komið skýrt fram á Alþ., að við teljum, að það geti vissulega komið til greina, að Íslendingar eigi og reki fyrirtæki með erlendum aðilum í þeim tilvikum, þegar Íslendingar eiga óumdeilanlega meiri hlutann í viðkomandi fyrirtæki og geta þannig eðli málsins samkvæmt haft tögl og hagldir í félögunum, ef slík félög lúta að öllu leyti íslenzkum lögum. En við höfum hins vegar fundið að því varðandi kísilgúrverksmiðjuna, að þar var gerður annar samningur við hinn erlenda aðila, sem á minni hlutann í rekstrarfélaginu, um að það skuli eiga meiri hluta í sérstöku sölufélagi, sem hefur með afurðasölu verksmiðjunnar að gera. Þar hefur hinn erlendi aðili meirihlutavald og hann semur um það, að hann hafi einkaumboð til þess að selja framleiðslu verksmiðjunnar og áskilur sér þar há sölulaun og mikil fríðindi. Við erum á móti slíku fyrirkomulagi. Hitt gat vel komið til mála, að Íslendingar kæmu upp fyrirtæki af þessari stærð sem kísilgúrverksmiðjan er með hlutdeildareign útlendinga. Þetta vildi ég taka fram í sambandi við hina almennu afstöðu okkar Alþb.-manna til þessara mála og til þessa máls sérstaklega.

Annars fannst mér hæstv. iðnmrh. vera ákaflega skapillur, þegar hann ræddi þessi mál, og mér kom til hugar, að að einhverju leyti stafaði þessi skapillska hjá hæstv. ráðh., þegar hann ræddi þetta mál, af því, að hann hlýtur að hafa fengið, eins og við aðrir alþm., upplýsingar um það, að það var búið að fella stjfrv. í Ed. þingsins. Það er auðvitað stórsögulegur atburður, þegar um það er að ræða, að stjfrv. um stórmál eru felld á Alþ., að ég tali nú ekki um, þegar svo vill til, að úrslitaatkv. er í höndum eins af ráðh., þá er vitanlega um stórpólitískan atburð að ræða. Hingað til hefði verið talið alveg sjálfsagt, að ríkisstj. segði af sér, þegar slíkt á sér stað, og ég hygg, að það mundi gerast á flestum þjóðþingum í V.-Evrópu. Ef stjfrv. um stórmál er fellt og það beinlínis með atkv. eins ráðh., þá á það að verða til þess, að stjórnin segi af sér. E.t.v. er þessi skapillska, sem mér fannst mjög koma fram í ræðu hæstv. iðnmrh., sem nú gegnir störfum forsrh., eitthvað tengd við þennan atburð. Þá er þetta ósköp skiljanlegt, að hann er nokkuð skapillur. En ég vil í beinu framhaldi af þessu, sem ég hef minnzt á svona í framhjáhlaupi í þessu máli, spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ráðh. telji ekki, að hér hafi gerzt slíkur atburður, að stjórnin hljóti að taka tillit til hans. Og þá er kannske óþarft að ræða öllu lengur eða meira um þetta mál, sem er á dagskrá, en rétt að taka fyrir næsta mál á dagskrá eða taka til óspilltra mála í sambandi við kosningar, sem hljóta þá að fylgja í kjölfar þess, að stjórnin gefst upp.