23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. raforkumrh. var svolítið skapillur í svari sínu áðan. Má vel vera, að það stafi af fréttum, sem hann fékk úr Ed., eins og hv. þm. Lúðvík Jósefsson benti á, en ég hef samt tekið eftir því, að þessi hæstv. ráðh. hefur oft þennan hátt á, þegar honum finnst hann standa höllum fæti í umr. Þá reynir hann að vega upp hæpinn málstað með því að nota þeim mun stærri orð og flytja þau af þeim mun meiri þótta. Mér finnst þetta frekar viðkunnanlegt einkenni á þessum hæstv. ráðh., því að það sýnir, að hann er dálítið viðkvæmur fyrir þeim verkefnum, sem hann á að vinna, og gerir sér grein fyrir því, þegar honum hefur ekki tekizt að vinna þau eins og hann ætti að gera.

Ég ætla ekki að taka til umr. mörg atriði úr ræðu þessa hæstv. ráðh., það hafa aðrir þm. gert á einkar greinargóðan hátt. Ég vil hins vegar minna á það, að í ræðu minni áðan benti ég á eitt ákaflega veigamikið atriði, sem gersamlega kippir stoðunum undan málflutningi Landsvirkjunarstjórnar, og það er tapið á viðskiptunum við álbræðsluna fyrstu 5 árin. Þar fylgi ég einvörðungu tölum þeim, sem Landsvirkjunarstjórn gefur sjálf upp. Þetta tap er 424 millj. kr. á 5 árum. Eftir þann tíma heldur Landsvirkjunarstjórn því fram, að örlítill ágóði verði af viðskiptunum. Tölum ber ekki saman um það, hvað ágóðinn sé mikill. Harza heldur því fram, að hann sé aðeins 0.7 aurar á kwst., en eigi að vinna upp þetta tap, þá tekur það ákaflega langan tíma, ef munurinn er aðeins 0 7 aurar á kwst., og sé reiknað með eðlilegum vöxtum, ná þeir endar aldrei saman. Þessi staðreynd ein, tapið þessi fyrstu 5 ár, kippir þannig gersamlega stoðunum undan reikningsfærslu Landsvirkjunar.

Mér þótti ákaflega eðlilegt, að hæstv. ráðh. taldi ekki fært að ræða þetta atriði nema með því að vísa til annarra hagsbóta, sem hann taldi fylgja þessari samningsgerð, því að þetta atriði eitt saman, tapið fyrstu 5 árin, hnekkir gersamlega kenningunni um það, að raforkuviðskiptin geti verið hagkvæm okkur.

Ég minntist örlítið á ísvandamálin í ræðu minni áðan, og það varð hæstv. ráðh. tilefni til þess að halda því fram, að við á Þjóðviljanum hefðum talið það gleðitíðindi, að stöðvanir hafi orðið aftur og aftur við Búrfell vegna þess vandamáls. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að spara sér ummæli af þessu tagi. Það geta ekki verið gleðitíðindi fyrir neinn Íslending, að fyrirtæki eins og Búrfellsvirkjun lendi í vandræðum. Það eru hvorki gleðitíðindi fyrir okkur né aðra. Hins vegar höfum við bent á það og bentum á það í upphafi, að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til þessara vandamála. Þessu var svarað með háði og spotti margsinnis, en engu að síður varð árangurinn sá, að teknar voru upp ýmsar varúðarráðstafanir, sem ekki voru fyrirhugaðar í upphafi, einungis vegna þessarar gagnrýni, og slíkt hið sama hefur gerzt í allan vetur, eins og ég rakti áðan. Það hefur verið höfð miklu meiri gát á en menn ætluðu sér í upphafi, það hefur verið haldið uppi ákaflega frumstæðu eftirliti, menn hafðir á vakt allan sólarhringinn með dýrum tækjum og þetta er mjög kostnaðarsamt atriði, og þetta atriði verður að reikna inn í rekstrarkostnað, ef þetta á að standa um langa hríð. Það gefur auga leið, en það er ekki gert í skýrslu Landsvirkjunarstjórnar. Það var þetta atriði, sem ég benti á áðan og hér er um að ræða óvefengjanlega staðreynd. Hér er að sjálfsögðu ekki um neitt fagnaðarefni að ræða, heldur vandamál, sem verður að leysa.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson svaraði mjög rækilega því, sem hæstv. ráðh. sagði um samanburðinn á samningum þeim, sem við höfum gert, og samningum, sem gerðir hafa verið á Norðurlöndum, og ég þarf ekki um það að tala frekar. Ég minntist á það, að við Alþb.-menn værum ekki andvígir samvinnu við erlenda aðila um fyrirtæki hér á landi, ef tryggt væri, að Íslendingar hefðu endanlegt vald í sínum höndum. Hér er um algert úrslitaatriði að ræða. Hitt er svo alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að slík samvinna er ákaflega erfið í sambandi við framleiðslu áls og raunar kísilgúrs, vegna þess að markaðurinn er í höndum alþjóðlegra einokunarhringa, sem ráða öllu á markaðinum og geta sett litlum þjóðum stólinn fyrir dyrnar. Á þetta hafa Norðmenn rekið sig mjög óþyrmilega. Mjög myndarleg verksmiðja, sem Norðmenn áttu einir, lenti í slíkum vanda, að þeir neyddust til þess fyrir nokkrum árum að hleypa erlendum aðilum inn í hana vegna þessara aðstæðna á markaðinum, og við höfum einnig þessa reynslu í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna. Við ætluðum að vera sjálfstæðir aðilar á markaðinum í Evrópu, en bandaríski auðhringurinn Johns-Manville skarst í leikinn og hefur nú tryggt sér þannig eftirlit með þessari framleiðslu, sem við eigum þó meiri hluta í, að það má mikið vera, ef við höfum mikinn hag af þeirri framleiðslu, þegar til lengdar lætur. Hingað til höfum við aðeins haft tap af henni. Það er því alveg rétt, að þarna er við mörg vandamál að etja, og er engan veginn einfalt að ráða fram úr þeim, ef hafin er framleiðsla á slíkum efnum eða vörum, sem lúta starfsemi einokunarhringa.

Ég minntist á það áðan, að verð á raforku væri margfalt hærra en á Íslandi í Vestur-Evrópulöndum, í Vestur-Þýzkalandi og Bretlandi, fjórfalt eða fimmfalt hærra. Hæstv. ráðh. bar ekki brigður á þetta, en minnti á, að í Bretlandi hefðu stjórnarvöld reynt að laða til sín fyrirtæki með því að greiða niður stofnkostnað um allt að því þriðjung eða meira en þriðjung, 35–40%. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Brezk stjórnarvöld hafa fallizt á það að greiða niður kostnað af stofnsetningu slíkra fyrirtækja gegn því, að þau fallist á að greiða þetta háa raforkuverð, og í sambandi við álframleiðslu er raforkuverðið gersamlega aðalatriðið. Það er verðið á raforku, sem hreinlega sker úr um þá framleiðslu alla, þannig að það er ákaflega fljótt að jafna sig upp, ef fyrirtæki fallast á að greiða hærra verð fyrir raforku en almennt tíðkast, og þá er mjög auðvelt að jafna metin, þó að lagt sé fram eitthvert fé til stofnkostnaðar í upphafi.

Mér þótti dálítið gaman, þegar hæstv. ráðh. stóð hér áðan og minnti á, að samningur okkar við álbræðsluna væri aðeins til 45 ára. Hann reisti sig allur upp, þegar hann sagði: Síðan stöndum við með kranann og getum skrúfað fyrir. En hæstv. ráðh. ætlaði ekki að skrúfa fyrir fyrr en eftir 45 ár. Í skýrslu, sem hann gaf Alþ. um samningagerðina við álbræðsluna, sagði hann, að 1. áfangi álbræðslunnar væri hálfgerð tilraunastarfsemi, og til þess að fá hinn erlenda aðila til þess að reisa slíka verksmiðju hér, þá yrðum við að fallast á ákaflega lágt raforkuverð. En ef ætti að stækka þessa verksmiðju, þá væru engin rök til þess að fallast á óbreytt raforkuverð. Þetta sagði hann margsinnis, og ég rifjaði þessi ummæli upp í vetur. Og það var ekki aðeins hæstv. ráðh., sem sagði þetta, þetta var einnig leiðbeining til okkar frá Alþjóðabankanum, að við mættum ekki semja um óbreytt raforkuverð. Ef til greina kæmi að stækka verksmiðjuna, ættum við heldur að skrúfa fyrir kranann, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan. En fyrir því er nýleg reynsla, að það stendur ekki til að skrúfa fyrir neinn krana. Hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hv. alþm, hafa fallizt á að semja um óbreytt raforkuverð. Hæstv. ríkisstj. hefur orðið að kyngja öllum stóru orðunum, ekki eftir 45 ár, heldur núna strax, og þetta er rökstutt með því, að við höfum raforku, sem við höfum engan markað fyrir og neyðumst því til þess að selja hana á því verði, sem þessi eini aðili vill kaupa hana fyrir.

Hins vegar er ekkert tillit tekið til hins, að það er álhringnum ákaflega mikið hagsmunamál og fjárhagsatriði að fá að stækka verksmiðju sína, vegna þess að verksmiðja af þeirri stærð, sem byggð var upphaflega, er óhagkvæm. Hún verður þeim mun hagkvæmari, sem hún stækkar meira, og það er ákaflega mikill skortur á tillitssemi, að hinn erlendi aðili skyldi ekki fallast á eðlilega hækkun við þessar aðstæður. En fyrst hæstv. ráðh. fór að minnast á stöðuna eftir 45 ár, sakar kannske ekki að rifja upp, að á þeim tíma hefur ýmislegt gerzt. Þótt við séum ekki búnir að virkja nema svo sem eins og 6% af vatnsorku okkar, mun þróunin verða ákaflega ör á næstunni, ef hér verður eðlileg iðnaðarþróun. Svo verður komið laust eftir næstu aldamót, að við verðum búnir að virkja öll vatnsföll okkar. Því hefur margsinnis verið lýst yfir af sérfræðingum, að Búrfellsvirkjun sé ódýrasta virkjun, sem við getum ráðizt í. Nú munu að vísu vera hugmyndir um það, að hægt muni að finna eina eða tvær jafnódýrar virkjanir, en engu að síður er algerlega ljóst, að á þessum 45 árum munum við verða búnir að ráðast í fjölmargar virkjanir í okkar þágu, þar sem framleiðslukostnaður á raforku verður miklu hærri en af Búrfellsvirkjun. Og þessa dýru orku verðum við að nota í okkar þágu, á meðan erlendur aðili situr að ódýrustu orku, sem hér er hægt að framleiða, og fær hana raunar undir kostnaðarverði. Ef menn fara að tala um almennar afleiðingar þessara viðskipta, verður einnig að taka þessa hlið málsins með í reikninginn.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. þm. Lúðvík Jósefsson sagði í lok ræðu sinnar. Hér hafa á þingi í dag gerzt þeir atburðir, sem gefa okkur tilefni til þess að spyrja, hvort nokkur ástæða er til að halda þessari umr. áfram. Hér hefur verið fellt stjfrv. Hér hefur verið fellt stjfrv. eftir langvinn átök. Þar er ekki um að ræða nein mistök, þetta hefur gerzt, og einn af ráðh. hæstv. ríkisstj. stóð að því að fella þetta mál. Það er full ástæða til þess að vænta þess, að hæstv. forsrh. komi hingað og gefi yfirlýsingu af þessu tilefni, og raunar er einnig ástæða til þess að vænta þess, að hæstv. viðskmrh. gefi einnig yfirlýsingu, því að þetta frv. var flutt af honum. Það, sem gerðist í Ed. í dag, er alveg sérstök vantraustsyfirlýsing á þennan hæstv. ráðh. og sérstök uppreisn í hans eigin flokki, því að það var flokksbróðir hans og félagi í ríkisstj., hæstv. sjútvmrh., sem felldi þetta frv. Í nágrannalöndum okkar, þar sem er gróið þingræðisskipulag, þykir sjálfsagt, þegar slíkir atburðir gerast, að ríkisstj. segi af sér, og ég hygg, að alþm. almennt þyki ákaflega fróðlegt að heyra, hvort þessir tveir hæstv. ráðh., hæstv. núv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., eru ekki þeirrar skoðunar, að þessi atburður hljóti að hafa áhrif á framtíð ríkisstj.