23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í D-deild Alþingistíðinda. (3192)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann taki mildilega á því, að menn segi örfá orð fyrir utan það ræðuefni, sem er til umr., vegna þess hversu óvenjulegur þessi atburður er, sem hér hefur gerzt, eins og ég rakti áðan. Þetta er næsta einstætt í þingsögu okkar. Þess vegna ítrekaði ég fsp., sem hv. þm. Lúðvík Jósefsson kom með áður, og hæstv. viðskmrh. taldi rétt að svara henni undir þessum lið, og mér fannst það sjálfsagt, eins og á stóð, og vil þakka hæstv. ráðh. fyrir það. Hins vegar minntist ég þess, þegar hann kom með svar sitt áðan, að ég hafði áður í vetur spurt hann spurningar af dálítið hliðstæðu tilefni. Það var í sambandi við frv. um réttindi fyrir Kvennaskólann til að útskrifa stúdenta. Ég spurði hæstv. ráðh. þá að því, hvers vegna hann flytti það mál ekki sem stjfrv. Þá kom hann hingað og sagði, að könnun hefði leitt í ljós, að það væri ágreiningur um þetta mál innan stjórnarflokkanna, og þess vegna væri ekki hægt að flytja það sem stjfrv., og þess vegna hefði nefnd verið beðin að flytja það. Nú kemur hæstv. ráðh. og heldur fram alveg gagnstæðri kenningu, að það sé vel hægt að flytja sem stjfrv. mál, þótt um það sé ágreiningur. Ég hef fyrir satt, að hæstv. ráðh. hafi verið þeirrar skoðunar, þegar hann flutti málið, að um það væri ekki ágreiningur. Hins vegar hafi komið í ljós það alvarleg andstaða meðal óbreyttra manna í Alþfl., að flokksforustan hafi ekki þorað að fylgja þessari ákvörðun eftir skömmu fyrir kosningar, — félagar hæstv. ráðh. hafi sem sagt breytt um skoðun í meðförum málsins á þingi, þeir hafi beygt sig fyrir vaxandi óánægju óbreyttra Alþfl.-manna með stefnu ríkisstj. og með þátttöku Alþfl. í þeirri stefnu. Ég held, að það sé algert einsdæmi í þingsögu okkar, að ráðh., sem verður fyrir því, að frv. frá honum er fellt, segi ekki af sér. Ég hygg, að jafnvel ef það væri borið undir lögfróða menn, þá lægi nærri, að þetta væri skylda hæstv. ráðh., og a.m.k. lít ég svo á, að það sé siðferðileg skylda hans.

Ég vil einnig ítreka það, að það væri ákaflega mikilvægt, ef hæstv. núv. forsrh. segði nokkur orð um þetta atriði. Mér er kunnugt um það, að Sjálfstfl. hefur gefið kaupsýslumönnum ákveðin loforð um, að þetta mál skyldi ná fram að ganga í skjóli stjórnarsamvinnunnar. Nú stendur Sjálfstfl. þannig uppi, að hann getur ekki staðið við þessi loforð, og telur þessi hæstv. ráðh., að hægt sé að sitja sem fastast eftir slíka atburði?

Út af þeim orðum, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði áðan í sambandi við till. um rannsóknarnefnd, hef ég ekki mikið að segja. Mér þótti dálítið einkennilega að orði komizt af manni, sem skipar forsetastöðu, þegar hann sagði, að hver heilvita maður hefði sannfærzt um það, að ég hefði farið með staðlausa stafi í ræðu minni í haust. Ég veit ekki, hvaðan þessum hv.- þm. koma yfirburðir til þess að kveða upp úrskurð um það, hvort aðrir menn eru heilvita eða ekki. Ég varð ekki var við það í ræðu þessa hv. þm., að hann gæti vefengt eitt einasta atriði úr ræðu þeirri, sem ég flutti í haust við 1. umr. fjárlaga, ekki eitt einasta atriði. Þær staðreyndir, sem ég kom með, hafa verið staðfestar, að því undanskildu, eins og ég hef rakið hér, að endanlegt raforkuverð er talið lægra í skýrslu stjórnar Landsvirkjunar, vegna þess að hún hefur breytt um forsendur. Ef hún héldi forsendum þeim, sem Alþ. voru gefnar á sínum tíma, kæmi það einnig í ljós, að tölur mínar um það atriði hafa staðizt fullkomlega og þessar staðreyndir verða ekki hraktar með neinum almennum fúkyrðum frá þessum hv. þm.