23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að svara hv. síðustu tveimur ræðumönnum. Það er alger misskilningur á eðli þingræðis og starfsvenjum löggjafarþinga, að ráðh. hljóti að segja af sér, þó að frv., sem hann flytur eða styður, sé fellt. Því aðeins á hann að gera slíkt, að hann hafi áður sagt, að hann leggi starf sitt eða embætti við því, hvort frv. nái fram að ganga eða ekki. Ef ríkisstj. flytur stefnumál, stórt eða lítið, og ætlast til um leið og hún flytur það, að það nái fram að ganga með stuðningi þess þingmeirihluta, sem stjórnina styður, og bregðist sá meiri hl. með einhverjum hætti, þá hlýtur að sjálfsögðu ríkisstj. í heild eða ráðh. að segja af sér. Það er þetta, sem er að þessu leyti kjarni starfsreglna löggjafarþinga. Ef aftur á móti er um það að ræða, að ráðh. eða ríkisstj. flytur frv. og veit, þegar hún flytur það, að málið hefur ekki öruggt þingfylgi eins og við vissum um þetta frv. og ekki var dregin nokkur dul á, eins og ég tók fram í ræðu minni áðan, — við gerðum auðvitað ráð fyrir því, að svo gæti farið, að frv. félli, því að það var yfirlýst, að þrír af þeim 32 manna meiri hl., sem skipar þingið, styddu frv. ekki, — þegar þannig var háttað, þá var auðvitað fullkomin fjarstæða að telja, að það væri eðlilegt, að ríkisstj. eða ráðh. segi af sér, þó að frv. nái ekki fram að ganga. Um þetta atriði vona ég, að skynsamir menn þurfi ekki að deila. Í þessu fór ekkert öðruvísi í stjórnarliðinu en vitað var fyrir fram, áður en frv. var flutt. Það eina, sem í málinu var óvíst, var, hver afstaða einhvers hluta af stjórnarandstöðunni kynni að vera. Nú hefur komið í ljós, hver hún er, og þess vegna sætir það svolitlum tíðindum, en ekki í neinu tilliti þess konar tíðindum, að það þurfi eða eigi að hafa áhrif á störf ráðh. eða samstarf ríkisstj.

Auðvitað er það misskilningur, að frv. hafi verið flutt í trausti þess, að stjórnarandstaðan samþykkti það. Það var flutt til þess að fá úr því skorið, hvort rétt væri að einhver hluti stjórnarandstöðunnar styddi málið. Mér er engin launung á því, að fram á síðustu daga hef ég talið, að þetta mál ætti verulegt fylgi innan Framsfl. Og það þarf enginn að lá mér það, þó að ég hafi verið þeirrar skoðunar. Ég sé enga ástæðu til þess að gera opinberlega grein fyrir því, hvaða ástæður ég hafði til þess, en það voru ríkar ástæður, sem ég hafði til þess, mjög ríkar. Svo að frv. var ekki flutt af neinni léttúð eða neinu fyrirhyggjuleysi, þó að við vissum, að þrír af stjórnarliðinu fylgdu því ekki. Það var full ástæða til að halda, að þrátt fyrir það hefði þetta frv. þingfylgi. Og það er ekkert einsdæmi, að flokkar riðlist í afstöðu til máls eins og þessa. Það kemur fyrir á hverju einasta þingi, að flokkar klofna í afstöðu til mála, og oftar en einu sinni hefur það komið fyrir á undanförnum árum, að mál hafa náð fram að ganga með stuðningi þm. úr stjórnarandstöðu.

Það er líka misskilningur hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að það hefðu verið eðlileg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. að leita fyrir fram til þingflokks Framsfl. um afstöðu til málsins. Það eru vinnubrögð, sem ég ekki kannast við, að beitt sé. Við töldum eðlilegt að láta frjálsan þingvilja skera úr. Hann hefur skorið úr, dómurinn er fallinn, og honum ber að sjálfsögðu að una. Og það er fjarri því að vera einsdæmi, að stjfrv. sé flutt án þess að tryggja því stuðning fyrir fram. Þvert á móti var það þannig, að við vissum, að þetta frv. hafði ekki stuðning alls stjórnarliðsins, það lá fyrir, og það var kunnugt og var ekki leyndarmál fyrir nokkrum manni.

Hv. þm. spurði, hvað nú tæki við í verðlagsmálunum. Það viðhorf, sem skapazt hefur nú í dag, er alveg sérstaks eðlis, og ég hef ekki haft tíma til að hugleiða það og ríkisstj. ekki gefizt tækifæri til þess að ræða það, en það munum við að sjálfsögðu gera nú á næstunni. Hitt er mjög alvarlegur misskilningur hjá hv. þm. að halda það, að í raun og veru hafi engar lagabreytingar þurft til að ná því markmiði, sem með frv. var stefnt að.

Frv. var tvíþætt. Annars vegar var þar um að ræða eftirlit með einokunarverðmyndun og hringum, en engin slík lagaákvæði eru í gildi núna. Þetta voru merkustu nýmæli frv., að setja átti upp fast eftirlitskerfi með einokunarverðmyndun, óeðlilegri einokunarverðmyndun og hringum. Þetta voru höfuðnýmæli frv. Að öðru leyti var frv. um verðlagsráð og heimild til þess að setja á hámarksverð og hámarksákvæði í öllum meginatriðum nákvæmlega samhljóða gildandi lögum, verðlagsnefnd eins samsett og allt hvað eina. Það var fyrri kafli frv., ákvæðin um einokunareftirlitið, sem voru nýmæli, og nú frestast auðvitað, að þeim stofnunum verði komið á fót, sem meiningin var að nota næstu ár til þess að byggja upp. Síðan átti einmitt, þegar því eftirliti hefði verið komið á fót, að reyna á það, hvort þetta einokunareftirlit, þessi nýja stofnun, hvort hún gæti smám saman komið í stað þeirrar gamaldags verðgæzlu, sem enn er haldið uppi á Íslandi, eina landinu af öllum nálægum löndum, sem enn heldur 20–30 ára gömlu kerfi til eftirlits með gömlu verðlagi. Öll önnur nálæg lönd hafa einmitt komið á fót hjá sér stofnunum til eftirlits með óeðlilegu verðlagi, með hringum og með einokunarverðmyndun, og þær stofnanir hafa smám saman leyst hinar gömlu og úreltu verðlagsskrifstofur af hólmi. Nú frestast þetta með öðrum framfarasporum, sem meiningin var að stíga, en verða ekki stigin. Afturhaldsöflin hafa enn einu sinni, því miður, orðið ofan á á hinu háa Alþ., og um það er ekki að sakast.

Hv. þm. Magnús Kjartansson bar saman framlagningu þessa máls og kvennaskólafrv. og sagði, að ég hefði rökstutt það, að það var sent nefnd, en ekki flutt sem stjfrv., með því að ágreiningur væri um það í ríkisstj. Ég hygg, að ég hafi sagt, og veit með vissu, að ég sagði um það mál, að ágreiningur væri um það í báðum stjórnarflokkunum og raunar þingflokkunum öllum, að því er könnun hafði leitt í ljós, en hitt skal ég fúslega játa, að auðvitað hefði vel komið til greina að senda nefnd þetta mál til flutnings. Ég hefði verið alveg ófeiminn við að játa það, sem maður gerir ekki, en maður hefði átt að gera, og mér er það alveg ljóst, að í sjálfu sér hefði verið skynsamlegra og réttara, að ríkisstj. hefði sent þetta mál til flutnings í nefnd. Ég hika ekkert við að játa, að ríkisstj. hefði gert réttara í því að hafa þann háttinn á, en ástæðan fyrir því, að þetta var ekki gert, — það kom til athugunar, — var sú, að málið hafði verið undirbúið að öllu leyti sem stjfrv., eins og stjfrv, eru venjulega undirbúin, og það var talið rétt í ríkisstj., að sá ráðh., sem einkum hafði fjallað um undirbúninginn, mælti fyrir frv. Ekkert slíkt var hægt að segja um kvennaskólafrv. Það var að vísu samið í menntmrn., en samið eftir ósk Kvennaskólans sjálfs. Það var í raun og veru flutt samkvæmt ósk skólanefndar Kvennaskólans, og undir þeim kringumstæðum taldi ég og tel enn, að hefði verið algerlega óeðlilegt að flytja slíkt mál sem stjfrv. Auk þess var vitað, að um það var víðtækur ágreiningur í þinginu, sem alls ekki var bundinn við flokka. Skýringin á því, að þetta mál var engu að síður flutt sem stjfrv., er eingöngu þessi, hvernig undirbúningi málsins hafði verið hagað og talið var eðlilegt, að sá ráðh., sem hafði um þetta fjallað, mælti fyrir frv. við þingið. Segja má, að það hafi víssulega verið gerð tilraun til þess að sýna þinginu kurteisi, virðingu, að leggja málið fyrir á sama hátt og í samræmi við undirbúning þess, en hitt skal ég fúslega játa, sem er það eina, sem ég skal fallast á, að okkur hafi verið mislagðar hendur um, að það hefði verið eðlilegra, að þn. hefði flutt málið í staðinn fyrir að ríkisstj. flytti það sem heild.

Að síðustu vildi ég leiðrétta þann misskilning, sem ég vona, að sé eingöngu misskilningur hjá hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, að einhverjir þm. Alþfl. hafi skipt um skoðun eftir að málið kom inn í Alþ. Það er alger misskilningur. Það lá fyrir, áður en málið var flutt, og ég hafði skýrt frá því í ríkisstj., að það væri ágreiningur um málið, við gætum ekki heitið stuðningi alls þingflokksins við málið fyrr en frá því yrði skýrt, hverjir væru andstæðingar þess, þannig að áður en málið var flutt lá allt á hreinu um þetta, og það hefur farið nákvæmlega eins, enginn hefur skipt um skoðun í eina átt eða aðra, eftir að málið kom til kasta þingsins. En við vildum auðvitað skýra frá þessu áður til þess að koma hreint og beint fram við samstarfsflokkinn í þessu efni, til þess að ljóst yrði fyrir flutning málsins, að það hefði ekki öruggt þingfylgi, það hefði ekki tryggan þingmeirihluta. En ítarlegar umr. leiddu í ljós, að samt sem áður var talið rétt, að frv. væri flutt, eins og ég sagði áðan, vegna þess að ýmislegt benti til þess, að það mundi hafa stuðning úr stjórnarandstöðunni, þó að það hefði ekki stuðning annars stjórnarflokksins.