30.01.1970
Efri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

126. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar það frv., sem hér liggur fyrir, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um málið, þannig að við 4 nm., sem stöndum að nál. á þskj. 313, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt. 2 nm. tjáðu sig andvíga frv. og hafa skilað séráliti og lagt fram gagngerðar brtt., en 1 nm., hv. 4. þm. Norðurl. e., var fjarstaddur sökum veikinda, þegar málið var afgreitt.

Eins og hv. þdm. er kunnugt og fram kemur í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv., þegar það var lagt fram, er aðalástæðan fyrir þeirri hækkun söluskatts, sem lögð er til með frv., sú að bæta ríkissjóði það tekjutap, sem hann verður fyrir vegna þeirrar tollalækkunar, sem nauðsynleg er vegna EFTA–aðildar. Hv. stjórnarandstæðingar, sem lagzt hafa gegn frv. þessu, viðurkenna a.m.k. að nokkru þörf tekjuöflunar í stað tollteknanna, sem niður falla, en segja, að aðra leið beri að fara í því efni, en þá að hækka söluskattinn. Nú býst ég við því, að það mundi vefjast talsvert fyrir hv. stjórnarandstæðingum, ef þeir ættu að gera ákveðnar till. um það að afla þótt ekki væri nema 500 millj. kr. í ríkissjóð eftir öðrum leiðum, en þeirri að hækka söluskattinn. Skal ég ekki gera þeim það til skapraunar að pressa þá upp í krók, hvað það snertir. En mér finnst, að þær till., sem fram koma í nál. hv. minni hl., séu alls kostar ófullnægjandi varðandi þetta atriði.

Rökin gegn því að nota söluskattinn sem skattstofn eru þau, að þar sem söluskatturinn leggst hlutfallslega jafnt á öll neyzluútgjöld, þá hljóti hann að hvíla tiltölulega þyngra á efnaminna fólki heldur, en hinu efnameira. Sé yfir skamman tíma litið, er þetta að vísu að því leyti rétt, að sá hluti teknanna, sem sparaður er, sleppur við skattinn. En gera má ráð fyrir því, að efnafólk spari stærri hluta tekna sinna, en hið efnaminna. Að því slepptu, að í landi eins og okkar, þar sem fjármagn skortir tilfinnanlega, má færa góð rök fyrir því, að skynsamlegt sé að hvetja fólk til þess að spara, þá ber þess að gæta í þessu sambandi, að þeir, sem leggja einhvern hluta tekna sinna fyrir, taka sparifé sitt ekki með sér yfir í eilífðina. Tilgangur sparifjársöfnunar einstaklinga er því að jafnaði sá að nota peningana til einhvers síðar og þá verða þeir auðvitað að greiða söluskatt. Er til lengdar lætur, greiðist söluskattur því að jafnaði hlutfallslega jafnt af öllum tekjum.

Nú er ég að vísu sammála hv. 11. þm. Reykv., sem hér talaði við 1. umr. málsins, um það, að skattaálagningin í heild eigi að vera stighækkandi miðað við efnahag, ef stighækkunin gengur þá ekki út í þær öfgar, að hún lami alveg hvöt manna til þess að afla sér tekna. Það má nefna í þessu sambandi, að það var reiknað út áður en skattalagabreytingin var gerð 1960, að fyrir fiskisæla skipstjóra borgaði það sig ekki að vera lengur, en hálft árið á sjó, því að allar tekjur, sem þeir ynnu sér inn umfram þetta, færu óskiptar í skatt, eins og skattstigar voru þá. En nú hefur, eins og kunnugt er, verið ráðin á þessu nokkur bót og skal það ekki rætt frekar. En stighækkun skattaálagningar í heild þarf ekki að þýða það, að allir þeir skattstofnar, sem notaðir eru, séu stighækkandi og í nágrannalöndum okkar hefur sú leið verið farin, sem kunnugt er, hvað óbeinu skattana snertir að leggja annars vegar á söluskatt, sem er hlutfallslega jafn af öllum neyzluvarningi, en skattleggja sérstaklega tilteknar vörutegundir, sem litið er á sem munaðarvöru, svo sem áfengi, tóbak, einkabifreiðar o.fl. Eru söluskattar þó þar sem kunnugt er allmiklu hærri en hér á landi og verður svo jafnvel eftir þá hækkun, sem hér er lagt til að verði gerð á söluskattinum. Það eru jafnaðarmannastjórnir á hinum Norðurlöndunum, sem yfirleitt hafa beitt sér fyrir þeirri breytingu á skattakerfinu að lækka aðflutningsgjöld og beina skatta, en hækka í þess stað söluskattana og verður því tæplega haldið fram, að þær hafi gert slíkt í fjandsamlegum tilgangi við verkalýðinn.

Því var haldið fram við 1. umr. þessa máls af þeim hv. stjórnarandstæðingum, sem þá tóku til máls, að sú tilfærsla skattanna, sem hér um ræðir, þýddi kjaraskerðingu fyrir almenning og aukna dýrtíð. Þetta er ósannað mál, svo að ekki sé meira sagt. Það hefur verið upplýst, að vísitala framfærslukostnaðar muni haldast óbreytt eða því sem næst, þrátt fyrir þessar aðgerðir. Slíkri staðhæfingu til grundvallar verður því að leggja einhvern annan mælikvarða, en vísitölu framfærslukostnaðar og hver er sá mælikvarði annar? Nú er það svo sem kunnugt er með þá vísitölu, sem nú er notuð, að um hana varð samkomulag milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma og þess má geta, eða á það má minna réttara sagt, að verkalýðssamtökin töldu sér svo mikinn hag í því, að hinn nýi vísitölugrundvöllur væri upp tekinn, að segja má, að þau hafi fært töluverðar fórnir í því skyni, því að samkv. gildandi vísitölu og gildandi kjarasamningum bar þeim 1. des. 1967 6% hækkun á vísitöluuppbót, en samkv. nýju vísitölunni aðeins rúmlega 3%, svo að, að vissu leyti mátti segja, að þarna væri um fórn að ræða. En með því var það undirstrikað, sem ég tel út af fyrir sig alveg rétta afstöðu frá hagsmunasjónarmiði þeirra aðila, sem þarna áttu hlut að máli, að þessi samtök hafa talið sér breytinguna í hag. En ef þessi vísitala er nú alröng og vanmetur þær verðhækkanir, sem verða af völdum þessara skattabreytinga, þá kemur spurningin um það, hvaða mælikvarða annan á að nota þarna. En það hefur ekki komið fram.

Það kom einnig fram í ræðum þeirra beggja, hv. 11. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austf., að þeir virtust líta á það sem sjálfsagðan hlut, að lækkun aðflutningsgjalda þýddi aðeins verðlækkun munaðarvöru, sem einkum væri keypt af efnafólki, en þá um leið samsvarandi hækkun nauðsynja vegna söluskattsins. Ég dreg satt að segja mjög í efa, að þessi staðhæfing eigi sér nokkra stoð í veruleikanum. Það er að mínu áliti síður en svo víst, að efnafólk noti tiltölulega meira af aðfluttum vörum en þeir efnaminni. Þvert á móti má færa þau rök fyrir hinu gagnstæða, að munaður er öðru fremur fólginn í kaupum á ýmiss konar þjónustu, svo sem skemmtunum, ferðalögum utan lands og innan o.s.frv., en miklu síður í kaupum á þeim vörum, sem nú verður einkum verðlækkun á, svo sem fatnaði, búsáhöldum o.fl. Hitt skal tekið fram, að úr þessu yrði auðvitað aldrei fyllilega skorið, nema gerð væri sérstök rannsókn eða athugun á skiptingu neyzluútgjalda fólks í mismunandi tekjuflokkum. En ég endurtek það, að ég tel það algerlega ósannað mál, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni, að þessi breyting þurfi að vera efnaminna fólkinu í óhag. Enda væri það svo, að ef þessi skoðun, sem hv. þm. héldu fram við 1. umr. málsins, væri rétt, þá bryti það mjög í bága við það, sem þessir sömu þm. hafa haldið fram við önnur tækifæri, og hef ég þar í huga gengisfellingar. Þegar þær hafa verið framkvæmdar, þá hygg ég það ekki rangt með farið, að þessir sömu þm. hafi talið, að gengisfelling bitnaði einmitt sérstaklega á lágtekjufólki. En ef það væri svo, að það sé fyrst og fremst efnafólk, sem nota þarf aðfluttar vörur, þá ætti gengislækkun einmitt ávallt að vera tilvalin leið til að leggja byrðarnar á breiðu bökin, eins og það er orðað. En eins og ég sagði, held ég, að það sé rétt munað hjá mér, það mundi þá leiðréttast, ef ég fer rangt með, - að hvorugur hv. þm. var þessarar skoðunar, þegar gengið var fellt á s.l. ári.

Nú er ég auðvitað ekki að halda því fram, að það eigi að greiða sömu aðflutningsgjöld af öllum varningi, sem inn er fluttur. Auðvitað er rétt að mismuna þar að vissu marki. En sá mikli mismunur, sem verið hefur á aðflutningsgjöldum hér á landi eftir því, hvort þær hafa verið taldar meira eða minna nauðsynlegar, hefur haft margvísleg óheppileg áhrif, sem að mínu áliti gera meira en að vega upp á móti þeim kostum, sem slíkt kann að hafa í för með sér. Og vil ég þá í fyrsta lagi nefna það, að það er alveg afstætt hugtak, svo að ekki sé meira sagt, hvað er nauðsynlegt og hvað er munaður, þannig að enginn viðurkenndur mælikvarði er til á það, hvernig greina beri þarna á milli og jafnvel þó að slíkur mælikvarði væri til, mundi hann ábyggilega vera síbreytilegur eftir mismunandi neyzluvenjum.

Í öðru lagi má í þessu sambandi benda á hættuna á smygli í stórum stíl, sem er bein afleiðing hinna geysiháu tolla, sem voru hér í gildi fram að tollalagabreytingunni árið 1961, en sú tollalagabreyting var einmitt sett til höfuðs smyglinu. Þrátt fyrir hana má segja, að enn sé pottur brotinn í þessu efni. Að þessu var vikið í ræðu hæstv. fjmrh, við 1. umr. málsins. Ég get samt ekki stillt mig um að bæta því þar við, að minna á upplýsingar, sem hæstv. fyrrv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, gaf hér í hv. d., þegar málið var til meðferðar fyrir hér um bil 9 árum, og ber þá aftur á góma hina margumtöluðu nælonsokka. Hann sagðist hafa spurzt fyrir um það hjá Hagstofunni, hvað innflutningur á nælonsokkum hefði verið mikill s.l. ár. Um það höfðu engar innflutningsskýrslur borizt, þannig að hvað þessa vörutegund snerti var samkvæmt hagsskýrslum innflutningurinn ekki neinn. En ég minnist þess ekki að hafa hitt nokkurn kvenmann, sem ég tók eftir að væri í öðru en nælonsokkum. Hefði svo verið, að þær væru almennt farnar að ganga í íslenzkum ullarsokkum, hefði maður vafalaust tekið eftir því. En vera má, að einhver hv. þm. sjái ástæðu til þess að leiðrétta þessi ummæli mín. Innflutningurinn var sem sagt enginn, en þó vitað, að um verulega neyzlu á þessari vöru var að ræða, því eins og ég sagði, þá gengu allar konur a.m.k. hér á Reykjavíkursvæðinu í nælonsokkum. Þegar búið var að lækka tollinn verulega, þá hafa þeir, sem þessar vörur fluttu inn, talið, að áhættan við smyglið væri orðin of mikil, þannig að þeir völdu þá leiðina að látá þetta ganga gegnum tollyfirvöld, eins og annan innflutning.

Þetta var nú annað atriðið, en í þriðja lagi og það tel ég ekki það þýðingarminnsta, af því að það er atriði, sem oft sést yfir í þessu sambandi, þá hljóta hin geysilega misháu aðflutningsgjöld að hafa mjög óheppileg áhrif á uppbyggingu iðnaðarins, því það hlýtur nú einu sinni að vera þannig með alla tolla, sem á eru lagðir, hvort heldur tilgangurinn með þeim er að afla fjár til ríkisins eða að vernda innlenda framleiðslu, að þeir hafa verndaráhrif. Af þessu leiðir þá, að það, hvað iðnaðurinn eigi að hafa mikla tollvernd, mundi vera metið með tilliti til þess, hvort framleiddar eru óþarfavörur eða nauðsynjar, þannig að þeim mun meiri óþarfi sem er framleiddur, þeim mun meiri verður tollverndin og svo öfugt. Mér kæmi það mjög á óvart, ef allir hv. þdm. væru ekki sammála um það, hvað sem öllu öðru líður, að slík stefna í verndartollamálum er auðvitað mjög óheilbrigð og óeðlileg. Ég fjölyrði nú ekki meira um þetta.

Í þeim ræðum, sem þessir tveir hv. þm., sem ég nefndi, fluttu hér við 1. umr., var komið allvíða við, þannig að segja mátti, að með því væru hafnar almennar stjórnmálaumræður, sem ég vil ekki taka þátt í hér, því ég tel það ástæðulaust. En ég get þó ekki látið hjá liða, því það vakti sérstaka athygli mína, að fara aðeins örfáum orðum um þær tölulegu upplýsingar, sem hv. 11. þm. Reykv. gaf um launakjör í Danmörku. Ég dreg ekki í efa, að með þessar tölur hafi rétt verið farið og víst er um það, hvað sem öllu öðru líður, að nú munu launatekjur í Danmörku yfirleitt vera hærri, heldur en hér á landi, mælt í raunverulegum verðmætum. Svo er samkvæmt OECD–skýrslunni, sem liggur á borði hv. þm., en þar er um nýja skýrslu að ræða. En í þeirri skýrslu, sem gefin var út fyrir 2–3 árum, var niðurstaðan sú, að raunverulegar þjóðartekjur á mann hér á landi væru allt að því 20% hærri en í Noregi eða Danmörku.

Nú álít ég, að þetta megi ekki taka of alvarlega, því góð rök má færa fyrir því, að íslenzka krónan hafi á þeim tíma verið ofmetin. Hitt mundi sennilega ekki vera fjarri lagi, að á þessum tíma hafi raunverulegar þjóðartekjur á mann hér á landi verið svipaðar og í Danmörku og Noregi. En ef við berum okkur saman við Danmörku nú, þá hefur sú þróun orðið, eins og kunnugt er, vegna óviðráðanlegra áfalla, sem þjóðarbúskapur okkar hefur orðið fyrir, að þjóðartekjurnar hafa lækkað um 15–20%, en á þessum sama tíma hafa Danir búið við jafnan hagvöxt, u.þ.b. 4–5% á ári, svo það er auðvitað óhjákvæmilegt, að þessi munur komi fram í launakjörum. Hitt er svo annað mál, að þær tölur, sem hv. þm. fór hér með, — og það kom raunar fram hjá honum, að hann gerði sér það ljóst að vissu marki, — ofmeta mjög þann mun, sem hér er um að ræða. Stærsti liðurinn, sem þarf að leiðrétta við slíkan samanburð, er að beinir skattar í Danmörku eru allt aðrir og miklu hærri en hér. Þó að menn kvarti að vísu yfir beinu sköttunum hér, þá er það ekki sambærilegt við það, sem er í Danmörku og á öðrum Norðurlöndum, enda verða þessar þjóðir, sem hafa sama og engin aðflutningsgjöld, að bæta sér það upp með einhverju móti. Varðandi Danmörku skal ég upplýsa það, að samkvæmt þeim skattstigum, sem giltu 1965, — og ég veit ekki til þess, að róttæk breyting hafi orðið þar á síðan þá, – var mönnum gert að greiða til ríkisins 70% af þeim tekjum, sem voru yfir 25 þús. danskar kr., en það jafngildir um 300 þús. ísl. kr., og allt upp í 110%. Þetta voru aðeins beinu skattarnir til ríkisins, en hér við bætast tekjuútsvörin, sem að vísu eru til muna lægri en hér á landi, en námu þó 10—15%, að því er ég bezt veit, svo hér er auðvitað um alveg ósambærilega hluti að ræða. Þó er rétt að það komi fram í sambandi við þetta, að þetta jafnast nokkuð út, vegna þess að í Danmörku eru allir skattar frádráttarbærir, en hér eru það aðeins útsvörin, eins og kunnugt er. Það er þó auðsætt, að hér er um allt annað að ræða og það verður að taka þetta inn í dæmið, ef bera á saman kjör launþega í Danmörku og á Íslandi.

Svo er önnur spurning í þessu sambandi, en það er verðlagið. Ég man ekki betur, en að á s.l. hausti hlustaði ég á útvarpsviðtal einmitt við hv. 11. þm. Reykv., sem hafði þá dvalið um nokkurt skeið í Danmörku, og þar svaraði hann því til aðspurður um, hvort verðlag væri hærra í Danmörku eða hér, að sér fyndist, að svo mundi vera, og það held ég sé rétt, að öðru leyti en því, að auðvitað er samanburður á verðlagi í mismunandi löndum ákaflega erfiður. Í Danmörku er öll þjónusta yfirleitt dýrari, heldur en hér og það stafar m.a. af hærra kaupgjaldi. Aftur á móti er ýmiss konar búðarvarningur, eins og fatnaður, búsáhöld, smávarningur o.þ.h., ódýrari þar, en það stafar af lágum aðflutningsgjöldum. Í heild hygg ég þó, að sú skoðun, sem kom fram hjá hv. þm. um þetta, sé rétt og dregur það eðlilega úr þeim mun á raunverulegum kjörum, sem hér er um að ræða. Aftur á móti gáfu þær tölur, sem hv. þm. tilfærði, rétta mynd af öðru, nefnilega því, að launamismunur í Danmörku er til mikilla muna meiri en hér á landi, þó að þetta jafnist að vísu nokkuð vegna hinna geysiháu skatta, sem þar er um að ræða. Að öðru leyti skal ég ekki ræða kaupgjaldsmálin.

Hv. 11. þm. Reykv. undirstrikaði það mjög, að þörf væri mikilla kauphækkana. Það mundi ég í sjálfu sér geta tekið undir, ef hægt væri að sjá fyrir því, að þessar kauphækkanir, sem launþegunum vissulega er þörf á, væri hægt að taka annars staðar frá, en úr vösum launþeganna sjálfra. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna þá hv. þdm., sem um lengri tíma hafa átt sæti hér í hv. d., á það, að hv. fyrrv. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, útbýtti hér þing eftir þing, sem fskj. með frv., sem hann flutti um áætlunarráð ríkisins, rannsókn, sem opinberar stofnanir höfðu gert um þróun kaupmáttar launa á u.þ.b. 15 ára tímabili, frá 1945–1960. Þó að geysimiklar kauphækkanir hefðu átt sér stað á þessu tímabili, þá stóð kaupmáttur launa nokkurn veginn í stað, sem þýðir það, að allar þær kauphækkanir, sem náðust fram á þeim tíma, voru sóttar í vasa launþeganna sjálfra og það eru auðvitað ekki kjarabætur. Það verður að sjá til þess, að kauphækkanirnar komi einhvers staðar annars staðar frá. Þetta fjölyrði ég ekki frekar um, en vil telja bæði tímabært fyrir atvinnurekendur og launþega og eftir atvikum fulltrúa ríkisvaldsins að setjast nú þegar á rökstóla og framkvæma hlutlæga athugun á þeim möguleikum, sem fyrir hendi kunna að vera í þessu efni, svo ekki verði stofnað til stórvandræða á vinnumarkaðinum á komandi sumri.

Þá vil ég að síðustu aðeins víkja að spurningunni um innheimtu söluskatts, sem hér hefur borið á góma og ástæðunni til þess, að yfirleitt hefur þeirri reglu verið fylgt við álagningu söluskatts að hafa hann nokkurn veginn jafnan. Hún er sú, að talið hefur verið óframkvæmanlegt, að hafa fullnægjandi eftirlit með því í verzlunum, sem verzla bæði með söluskattsskyldar og söluskattslausar vörur eða vörur, sem hafa mismunandi háan söluskatt, að þessu sé haldið aðgreindu. Auðvitað er hægt, eins og heimild var samþ. um í Nd., að gera fyrirtækjum skylt að hafa tvo kassa, eins og það er kallað á miður góðu máli. En eins og hæstv. fjmrh. benti á, þá hefur mönnum dottið þetta í hug annars staðar, en þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að jafnvel þó þetta væri framkvæmanlegt, þá væri það algerlega ófullnægjandi lausn, ef það kæmi þá að nokkru gagni, því spurningin er, hver á að tryggja það, að það séu þær réttu upphæðir, sem settar eru í hvorn kassann um sig. Það er þarna, sem vandinn liggur. Þess vegna, – þó segja megi, að það hafi auðvitað engan skaðað, að þessi heimild til handa fjmrh. var samþykkt, – hef ég takmarkaða trú á, að slíkt geti komið að gagni. Það er auðvitað til önnur leið í þessu efni, sem meiri árangurs mundi vera að vænta af, en það er ef söluskattinum væri, eins og þegar hefur verið gert á hinum Norðurlöndunum, breytt í virðisaukaskatt. Þetta hefur auðvitað sína annmarka. Þeir, sem skatturinn er innheimtur hjá, verða fleiri en nú er og það út af fyrir sig er ekki gott, því innheimtan verður kostnaðarsamari. En þá fær maður fram svipað ástand og nú ríkir hér á launamarkaðinum, en ástæðan til þess, að erfiðara er fyrir launþega að koma tekjum sínum undan skatti en aðra, — og þeir leggja þess vegna mikla áherzlu á, að sem strangast eftirlit sé haft með skattframtölum, – er sú, að atvinnurekandinn verður að gefa þetta upp, ella verður hann að greiða skatta af laununum sjálfur. En þegar söluskatturinn er lagður á, á mörgum stigum, þá hafa þessir aðilar, sem framleiða vöruna á hinum einstöku stigum, eftirlit hvor með öðrum. Hver um sig verður að gefa það upp, hvað hann hafi keypt af þeim, sem eru á næsta framleiðslustigi á undan honum, þannig að virðisaukaskatturinn, ef hann er lögleiddur, skapar þannig miklu meiri möguleika á því að hafa fullnægjandi eftirlit með skattheimtunni. Þess vegna tek ég undir þá skoðun, sem mér skildist að kæmi fram hjá hæstv. fjmrh., að ef söluskatturinn á að vera svo stór tekjustofn sem nú er, þá á auðvitað að gera meiri kröfur en áður til eftirlits með honum. En þá hygg ég, að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að það verði að taka upp virðisaukaskatt, þó að það kosti auðvitað sitt.

Ég álít, hvað sem öllu öðru líður, að þær aðgerðir, sem hér er um að ræða, valdi almenningi ekki kjararýrnun. Ég tel það algerlega ósannað mál og að frekar megi færa rök fyrir því gagnstæða, því sú breyting, sem gerð er á tollalögum, EFTA–aðildin o.s.frv. ættu frekar að vera spor í áttina til betri kjara heldur en lakari kjara. En þar með er auðvitað ekki sagt, að ekki sé frekari úrbóta þörf í skattamálum. Það ber vissulega nauðsyn til, að þau séu alltaf til endurskoðunar, enda, eins og komið hefur fram og öllum þdm. er kunnugt um, þá er það ekki lagfæring á skattamálunum út af fyrir sig, sem fyrst og fremst hefur legið því að baki, að þessi breyting hefur verið gerð, heldur sú nauðsyn, sem skapazt hefur til nýrra tekjuöflunaraðferða vegna EFTA–aðildarinnar og tollalækkunarinnar í sambandi við hana.