22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Í grg., sem fylgir þessari þáltill., skýrir flm. frá ýmsu, sem gerzt hefur í byggðaáætlunarmálunum. Hann víkur að því, að á Alþ. hafi verið samþ. till. um að gera framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði, og hann drepur einnig á, að Efnahagsstofnunin hafi haft með höndum Norðurlandsáætlun. Ég sé það, að þessi þáltill. muni að sjálfsögðu fara í n. samkv. till. flm., og þess vegna dettur mér í hug að gefa nokkrar upplýsingar til viðbótar um þessi áætlunarmál, sérstaklega að því leyti, sem að Austurlandi snýr, til afnota fyrir n. og þá, sem hlýða vilja, áður en þetta mál kemur til nánari skoðunar.

Ég þykist sjá, að í sambandi við þetta verði að sjálfsögðu athugaðir ýmsir þættir þeirra mála, og upplýsingarnar, sem ég vildi gefa, eru þær í fyrsta lagi að rifja upp, að við þm. að austan höfum á undanförnum árum nokkrum sinnum rætt um það á Alþ., að við teldum brýna nauðsyn á áætlun fyrir Austurland og höfum fært fyrir því ýmis rök. Enn fremur höfum við flutt, við þær stofnanir, sem vinna að þessum áætlunargerðum, þetta sama mál, bæði Efnahagsstofnunina, ráðh. og stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, og mér er ánægja að geta sagt frá því, að stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hefur falið Efnahagsstofnuninni gerð Austurlandsáætlunar, og er þar lögð aðaláherzla á samgöngumál. Þetta vildi ég segja til þess að fylla inn í frásögnina um það, hvað gerzt hefur í þessum málum. Enn fremur höfum við þm. Austurlands ritað ríkisstj. og farið fram á, að hún leiti fyrir sér um tveggja millj. dollara lán hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til Austurlandsáætlunar, sem er alveg hliðstæð fjárhæð þeirri, sem sótt var um til Norðurlandsáætlunar. Það var sótt um lán til Norðurlandsáætlunar eiginlega um leið og byrjað var að fitja upp á áætluninni og áður en Alþ. hafði samþ. lánsheimildina, og við höfum þess vegna þegar skrifað ríkisstj. og farið fram á það við hana, að hún hafi sama háttinn á, leggi þessa beiðni fram, með því að okkur er það alveg ljóst, að það er ekki síður stuðningur hér við slíka áætlun en Norðurlandsáætlunina, og það vonum við, að hæstv. ríkisstj. sé líka ljóst.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að segja frá þessu, svo að þessi atriði lægju einnig fyrir til skoðunar, þegar málið kemur fyrir hjá fjvn. og hjá hv. Alþ.