29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Í þessum umr., sem eru orðnar alllangar, hefur hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, skipað sér í sérstakan flokk. Ræður hans hafa í fyrsta lagi borið þess merki, að hann hafi öllu meiri áhuga á því að nota tækifærið til að gera pólitíska árás á Alþfl. en að ræða þetta mál almennt, eins og allir aðrir þm. hafa gert. Svo er hann eini þm., sem í umr. hefur tekið afstöðu beinlínis og ótvírætt á móti till., gerði það í einni af síðustu setningunum, sem hann lét út úr sér í seinni ræðu sinni.

Hv. þm. hefur í báðum ræðunum lagt á það mikla áherzlu að ráðast á Alþfl. fyrir það, að hann hafi brugðizt hugsjón sinni um áætlunargerð og hvatt mjög til þess, að Alþfl. herti á um þessi mál, af því að Framsfl. mundi hafa skipt um skoðun síðan hann sat í ríkisstj. Ég vil minna hv. þm. á það, sem hann vafalaust veit vel, að vinstri stjórnin komst ekki ýkja langt í áætlanagerð. Það var ekki mínum flokki að kenna og ekki hans flokki að kenna, heldur Framsfl., sem nú á að hafa tekið sinnaskiptum. Þess vegna bið ég hv. þm. að afsaka það, þó að ég sé ekki allt of trúaður á, að Framsfl. muni reynast eins áhugasamur um þessa hluti, ef hann kemst aftur í ríkisstj. eða til valda, eins og hann er í stjórnarandstöðu.

Ég vil benda hv. þm. á, að í tíð núverandi ríkisstj. hafa verið stigin mörg og mikilvæg skref í áttina til að taka upp áætlanagerð á Íslandi. Í tíð þessarar ríkisstj., þar sem Alþfl. hefur verið þátttakandi, hafa verið teknar upp framkvæmdaáætlanir ríkisins, þ.e. val á milli stórverkefna og útvegun fjármagns til þeirra, sem nú eru svo fastur liður í árlegum búskap, að menn geta varla ímyndað sér, hvernig hægt var að komast af án þeirra áður fyrr. Það hafa verið gerðar umræddar landshlutaáætlanir, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun, eitthvað af Austurlandsáætlun. Unnið hefur verið að umfangsmikilli skólaáætlun. Komið hefur verið upp Atvinnujöfnunarsjóði, sem hefur þetta verkefni og er að koma sér upp aðstöðu til þess að vinna að því. Komið hefur verið upp efnahagsmálastofnun, þar sem eru margir sérfróðir menn, sem þegar hafa mikla reynslu í því að vinna að áætlanagerð. Sett hafa verið lagafyrirmæli um vegáætlun, sem hefur gersamlega breytt allri meðferð vegamála og ákvörðunum um framkvæmdir. Og það hafa verið sett í lög ákvæði um hafnaáætlun.

Ef litið er á þetta af nokkurri sanngirni, vil ég leyfa mér að halda fram, að það sé algert öfugmæli að tala um, að þeir stjórnarflokkar, sem verið hafa í ríkisstj. undanfarin ár, hafi brugðizt í einu eða neinu gagnvart áætlanagerð. Að sjálfsögðu hefði Alþfl. viljað ganga lengra í áætlunargerð, en það er nú einu sinni venja í samsteypuríkisstj., eins og allir íslenzkir stjórnarflokkar vita af reynslu sinni, að enginn einn flokkur fær öllum vilja sínum framgengt, heldur er þar farið bil beggja.

Ég vil að lokum leyfa mér að halda fram, að þessi ríkisstj. hafi komið upp sterkari hagstjórnartækjum en áður hafa verið til í þessu landi, hagstjórnartækjum, sem gera ríkisvaldinu kleift að hafa miklu víðtækari og meiri áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar en áður hefur verið. Ég skal ekki flokka þau mál, sem ég hef bent á, undir neina „isma“, en þetta er eins og um margar fleiri hugmyndir, sem einu sinni voru umdeildar, að þær vinna smám saman viðurkenningu. Hér hefur þokazt svo verulega í rétta átt, að það er ekki annað en áróðursofstæki í hv. þm. að flytja ræðu eftir ræðu í sambandi við þessa till. til að ráðast á Alþfl. í þessu efni. Þegar Alþb. eða fyrirrennarar þess hafa verið í ríkisstj., þá hefur ekki miðað nálægt því eins langt í áætlunargerð og gert hefur undanfarin ár.