29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. að neinu ráði, en vegna þess að mér fannst koma fram hjá hæstv. fjmrh., að hann teldi það einhvers konar gamanmál eða jafnvel fjarstæðu, að einhverjum dytti í hug, að það þyrfti að gera framkvæmdaáætlun fyrir Reykjavík, þá langar mig til þess að segja það sem mína skoðun, að eins og atvinnumálunum í Reykjavík er háttað, tel ég það síður en svo nokkra fjarstæðu, þó að Reykvíkingar álíti, að það þyrfti að líta á þeirra mál eitthvað betur en gert hefur verið undanfarin 30 eða 40 ár undir forsæti Sjálfstfl.

Það er alveg rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um atvinnuástandið við sjávarsíðuna. Það er ekki eitt einasta orð rangt í því, sem hann sagði um bátafjöldann og um togarafjöldann, og til þess að menn haldi ekki, að það sé bara vegna þess, að togurum hafi fækkað og bátum fjölgað, sem atvinnuástandið er núna eins og það er, þá ætla ég að leyfa mér að bæta þeim upplýsingum við, að árið 1958 var heildaraflamagnið á Íslandi um 580 þús. tonn, ef ég man rétt. Þá var sá hluti, sem landað var og unnið úr í Reykjavík, 20.8%, eða um 120 þús. tonn. Árið 1968 var aflamagnið á öllu landinu mjög svipað, það var einnig þá um 580 þús. tonn, en þá var hlutur Reykjavíkur í þessu aflamagni 11.9%, eða 64 þús. tonn, svo að jafnvel þó að einhverjum kynni að detta í hug, að það skipti ekki svo miklu máli, að togaraútgerð frá Reykjavík hefði dregizt saman, vegna þess að annað hefði komið í staðinn, þá er það ekki rétt, vegna þess að þessar tölur eru sannar og réttar, og þær sýna hlut Reykjavíkur í útgerðinni og þróun þeirra mála á undanförnum 10 árum. Þessar tölur eru teknar upp úr skýrslu, sem hafnarstjórinn í Reykjavík hefur gert, og ég hef áður látið þær í té á borgarstjórnarfundi. Þeim hefur ekki verið mótmælt, og ég hygg, að þær séu örugglega réttar. Og ég vil aðeins bæta því við, að hvorugt þessara ára var nokkurt síldarmagn að ráði í Reykjavík, sem hefði náttúrlega getað skekkt myndina að talsverðum mun. En því er ekki til að dreifa.

Hins vegar er ég ekki sammála hv. 6. þm. Reykv. um það, að Alþfl. sé einum um þessa þróun að kenna. Þó að vissulega megi ýmislegt segja um stjórn hans á sjávarútvegsmálunum undanfarinn áratug, þá verðum við þó að hafa í huga, að það er ekki hann fyrst og fremst, sem ber ábyrgð á stjórn Reykjavíkur. Þar eru aðrir sekari. Og ég vil — til þess að bera nú sannleikanum vitni á hv. Alþ. — geta þess, að borgarfulltrúar Alþfl. hafa margsinnis lagt til, að Bæjarútgerðin yrði efld og henni fengin ný skip til umráða, en það hefur ekki náð fram að ganga þrátt fyrir stuðning annarra minnihlutaflokka.

Það er enn fremur mjög athyglisvert fyrir okkur Reykvíkinga, að Atvinnujöfnunarsjóður hefur á undanförnum árum lánað til þess að kaupa atvinnutæki úr Reykjavík. Ég er ekki að lá mönnum, þó að þeir vilji fá atvinnutæki í sín byggðarlög og ætla ekki að gera það að árásarefni, hvorki á einn né annan. Og ég vil líka viðurkenna það, að hér fyrr á árum, allt fram til undanfarinna kannske tveggja ára, gat það verið mjög eðlilegt að styrkja atvinnurekstur annars staðar jafnvel á kostnað okkar hér, en það er alls ekki hægt að réttlæta það lengur, eftir að atvinnuleysið er hvergi meira á landinu en í Reykjavík í tölum talið og jafnvel óvíða hlutfallslega meira en það var t.d. á s.l. vetri, og margir óttast, að svo kunni enn að fara á þessum vetri. Ég held því, að það sé síður en svo ástæða til þess að gera það að gamanmálum, að Reykvíkingum dettur í hug, að það þurfi að líta á málefni þeirra á hv. Alþ. Ég hef ekkert á móti því og skil það mjög vel, að fulltrúar annarra kjördæma fari fram á það og óski þess, að mál þeirra séu tekin til athugunar og áætlanir séu um þau gerðar. Það er eðlilegur hlutur. En mér finnst óeðlilegt, ef Reykjavík ein á að gleymast í því sambandi. Þó að ég fallist eindregið á þá skoðun, sem hv. þm. Helgi Bergs, hv. 2. þm. Sunnl., sagði áðan, að vitanlega eru núverandi kjördæmi engan veginn þannig afmörkuð, að það sé endilega víst, að framkvæmdaáætlanir eigi að miðast við þau ein, heldur eru þar alls konar atvik önnur, sem geti spilað inn í. Ég held því, að það sé fullkomlega eðlilegt, að þessar till., bæði um Vesturland og Suðurland, fái samþykki, en jafnframt vil ég minna á það, að í fleiri horn er að líta.