29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er eiginlega nauðsynlegt, að hv. 6. þm. Reykv. sé viðstaddur, því að ég ætlaði að gera aths. við hans talnafræði, en sú talnafræði er farin að verða mjög þekkt á hv. Alþ. og komin upp í milljarða, ef hann fer í raforkumálin. En við hinir ófróðari talnamenn vildum halda okkur við það, sem stendur í bókum á þrykki og lesa beint upp úr þeim og fara þess vegna rétt með tölur. En hann talaði um bátaflotann og þá óheillavænlegu þróun í sjávarútvegsmálum, sem hefði orðið á undanförnum árum og vildi kenna Alþfl. um ófarnaðinn. Þó man ég það, að bátar komu svo títt til landsins á sumum tímum, að varla þótti í frásögur færandi í blöðum né útvarpi. En nú er Bleik brugðið og nú muna menn ekki eftir þeim góða flota, sem kom á árunum 1960–1966 og virkilega gaf þjóðinni mikið í aðra hönd. En þegar maður les beint úr skýrslum um bátaflotann, skal líka geta um rúmlestatölu, þ.e. heildarstærð flotans, en lesa ekki aðeins fjölda báta, því að það segir ekki nema hálfan sannleikann. Ég vil leiðrétta hv. 11. þm. Reykv. með það, að það er aðeins sagður hálfur sannleikur, þegar maður les um tölu báta. Það þarf líka að vita stærð þeirra. En hér áður hafði hv. 6. þm. Reykv. lýst yfir því, að bátaflotinn í dag væri mjög einhæfur. Ég veit ekki, hvað hann á við með orðinu einhæfur, þegar sama skip getur stundað allar veiðar. Það tel ég vera og við, sem störfum við þennan atvinnuveg, fjölhæft skip, en ekki einhæft skip, þó að það hafi verið notað fyrst og fremst undanfarin ár fyrir síldveiðar, meðan síldin var og hét, en er í dag hið ágætasta togskip, mjög gott til línuveiða, úthafsveiða og einnig netaveiða við landið, sami bátur án mikils tilkostnaðar og sumir með engum tilkostnaði í breytingar fyrir viðkomandi veiðiaðferð. Slíkt skip tel ég fjölhæft og vil leiðrétta það í eitt skipti fyrir öll á hv. Alþ. En ég ætla að lesa hér úr skipaskrá 1959, með leyfi forseta. Þar segir: „61 fiskiskip yfir 100 rúml. eru 10 316 rúml.“ Árið 1968 eru fiskiskip yfir 100 rúmlestir að stærð 203 og 42780 rúml. Það er fjórföldun að stærð til. Þetta er léleg þróun, kallar hv. þm. Það er nú öðru nær. Togurum hefur hins vegar fækkað verulega. Togarar eru skráðir í árslok 1959 43, fjölgaði síðan og komust upp í 60, þó með talin 250 tonna skipin 12, sem sumir kalla síldveiðiskip í öðru orðinu og togara í hinu orðinu. En 1968 eru togarar taldir 28, 20 þús. rúml., svo að rúmlestatalan hefur hvergi nærri fallið niður í samræmi við tölu þeirra, sem eðlilegt er, því að við vitum það, að nýju togararnir voru 1000 tonna skip á móti hinum, er voru rúmlega 600 lesta. Engu að síður er það gleðiefni, að svo almennur áhugi er orðinn fyrir togaraútgerð í landinu, að þjóðin. er við því búin að veita togurum eðlileg rekstrarskilyrði. En þeir tímar voru á Íslandi, að talið var eðlilegt að ýta togurum út fyrir og skapa þeim verri skilyrði en mörgum öðrum fleytum.

Ég vil ekki lengja þennan umræðutíma, sem er orðinn skemmtilega langur um till. En ég vil taka undir þau orð Benedikts Gröndal, að gildi áætlunarbúskapar hér á Íslandi er og hefur farið vaxandi, og það er gleðilegt til þess að vita, að menn eru að verða æ hlynntari slíkri þróun, því að hún er nauðsynleg og eðlileg.