18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

62. mál, áætlunargerð vegna fjárhagsaðstoðar við íþróttastarfsemina

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj: 67 höfum við hv. 11. þm. Reykv. og 3. þm. Vestf. leyft okkur að flytja till. til þál. um áætlunargerð vegna fjárhagaðstoðar ríkisins við íþróttástarfsemina í landinu. Eins og fram kemur í tillgr., er gert ráð fyrir því, að þetta mál verði framkvæmt með þeim hætti, að skipuð verði nefnd, sem í eigi sæti þessir aðilar: Forseti Íþróttasambands Íslands, formaður Ungmennafélags Íslands, íþróttafulltrúi ríkisins og tveir menn kosnir af Sþ. Menntmrh. á að skipa formann þessarar nefndar. Hlutverk hennar á að vera að gera fjárhagsáætlun fyrir íþróttastarfsemina í landinu, þó ekki mannvirki. Skal fyrsta áætlun gerð fyrir árið 1971, en eftir það skulu áætlanir gilda til fjögurra ára. Þó má endurskoða þær að tveim árum liðnum frá því, að þær hafa verið gerðar, ef einhverjir nm. óska þess. Við áætlunargerðina skal hafa hliðsjón af fjárframlögum annarra þjóða til íþróttastarfseminnar, t.d. Norðurlandaþjóðanna, og keppt verði að því með áætlunargerðinni, að fjárskortur hamli ekki getu íslenzkra íþróttamanna. Við gerð fjárlaga hverju sinni skal áætlun þessi lögð til grundvallar í fjárframlögum ríkissjóðs til íþróttastarfseminnar. Kostnaður við áætlunargerðina greiðist af fjárveitingu til íþróttastarfseminnar.

Eins og fram kemur í grg. þeirri, sem fylgir þessari þáltill., hafa allverulegar umr. orðið á yfirstandandi ári um getu íslenzkra íþróttamanna í keppni við erlenda íþróttamenn. Það orkar ekki tvímælis, að allt frá upphafi sögu Íslands hefur íslenzka þjóðin átt íþróttamenn, sem hafa getið sér frægðarorð meðal annarra þjóða, og svo er enn, og það er mikils virði fyrir þjóðina og æsku landsins, að svo verði áfram.

Nú hefur íslenzkum íþróttamönnum oft gengið miður í keppni við erlenda íþróttamenn heldur en óskað hefði verið eftir, og hafa margar ástæður verið færðar fram fyrir því, að svo hefur farið. Það er ekki mitt eða okkar flm. þessarar till. að dæma um, hversu haldgóðar þær röksemdir eru, er þar hafa verið greindar.

Hitt er okkur ljóst og við höfum veitt því athygli, að í umr. um þetta mál hefur það mjög komið fram, að fjárhagur íslenzkrar íþróttahreyfingar væri mjög bágborinn, og hefur þar fyrst og fremst verið til umr. fjárhagur þeirra á sviði íþróttamála. Það hefur komið fram hjá mörgum íþróttamönnum, sem um þetta hafa rætt í blöðum, að einmitt fjárhagsgeta þeirra dragi mjög úr afrekum þeirra á sviði íþrótta og horfi þar til mikilla vandræða.

Öllum er ljóst, að íþróttahreyfingin er þýðingarmikil fyrir æsku þessa lands og fyrir þjóðina í heild, og þjóðin verður að gefa þessum málum gaum, fjármálum íþróttahreyfingarinnar eins og öðrum málum, því að þetta er eitt af hennar vandamálum, sem úr verður að bæta.

Á síðari árum hefur mjög verið horfið að því að gera áætlanir um fjárframlög og uppbyggingu hinnar ýmsu starfsemi í þjóðfélaginu. Okkur flm. þessarar þáltill. finnst því ástæða til, að gerð verði áætlun um nýtingu þeirrar fjárhagsaðstoðar, sem þjóðfélagið getur látið í té hverju sinni, og til þess að gera þá áætlun verði þeir kvaddir til, sem bezta þekkingu hafa og hafa forustu í félagsmálahreyfingum æskunnar í landinu, bæði Íþróttasambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands og svo sá embættismaður ríkisins, sem sérstaklega fjallar um íþróttamál og hefur sýnt þeim málum mikinn áhuga og mikinn dugnað. Enn fremur leggjum við til með till. okkar, að þetta verði tengt Alþ. með því, að tveir fulltrúar verði þaðan. Það er skoðun okkar, að þessi uppbygging eða þetta form á uppbyggingu mætti verða til þess, að skilningur yrði almennari á fjárþörf til þessarar félagsstarfsemi og íþróttamenn ættu með þessum hætti betri möguleika til þess að koma málum sínum á framfæri en verið hefur.

Ljóst er, að til þess að úr þessu verði. bætt, verður auðvitað aukin fjárveiting að koma til. Það er okkar skoðun, að íslenzka þjóðin vilji sinna þessum málum með þeim hætti og hér muni ekki verða um það stórfellda fjárveitingu að ræða, að það hefði nein teljandi áhrif á fjárlög íslenzka ríkisins, heldur mætti með þessum hætti nýta þetta miklu betur og byggja þetta kerfi upp og auðvitað að hvetja okkar íþróttamenn til meiri dáða og meiri afreka með því að styðja þá betur fjárhagslega. Við erum sammála um það flm., að nauðsyn beri til, að Alþ. sinni þessu máli og styðji okkar íþróttaæsku með ráðum og dáð. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja þessa till., sem við vonum, að verði til þess að bæta úr í þessu máli. Við treystum því, að hér á hv. Alþ. verði tekið á þessu máli með skilningi og málið megi ná fram að ganga.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.