30.01.1970
Efri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

126. mál, söluskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki láta þessa umr. hjá líða án þess að spyrja fáeinna spurninga um það mál, sem hér liggur fyrir í þessari hv. deild.

Það kom í sjálfu sér engum á óvart, að frv. um allverulega hækkun söluskatts var lagt fram hér á Alþingi. Það hafði verið boðað þegar áður, en ákvörðun var tekin varðandi inngöngu Íslands í EFTA, að sú leið yrði farin að hækka söluskattinn til þess að vega upp á móti því tapi, sem ríkissjóður yrði fyrir í sambandi við tollalækkanir vegna EFTA–aðildar. Það var í rauninni ekki nema tvennt, sem var í nokkurri óvissu að því er snerti meginatriði þessa frv. Annað var það, hversu hár söluskatturinn yrði, hversu mikil hækkun yrði á söluskatti og í öðru lagi, hvort hér yrði um að ræða jafnan söluskatt á allar vörur, einnig hinar brýnustu lífsnauðsynjar, eða hvort hann yrði e.t.v. mishár. Nú er þetta orðið ljóst, að söluskatturinn skal skv. frv. hækka úr 71/2 í 11 % og eftir því sem upplýsingar hafa verið gefnar um og eftir því sem reynslan af söluskatti, sem nemur 71/2% hefur sýnt, þá er hér um að ræða hækkun á ársgrundvelli um ca. 830 millj. kr. Söluskatturinn allur, þegar miðað er við áætlaða viðskiptaveltu á þessu ári, verður 2.6 milljarðar eða 2.600 millj. kr. og enn er boðað að lengra verði haldið á þessari braut, að lækka tolla, en þá trúlega að hækka söluskatt í einhverri mynd, annaðhvort í þeirri mynd, sem hann er nú í, eða þá í allbreyttri mynd, hinn svonefnda virðisaukaskatt, sem mér skilst að sé nú jafnvel til umræðu og geti orðið á næstu árum.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í sambandi við þetta mál við 1. umr., að söluskattur hafi verið hér undanfarin ár til mikilla muna lægri, heldur en í nálægari löndum. Mér skildist á honum, að Íslendingar hefðu dregizt þarna býsna mikið aftur úr og lá næstum því í orðunum, að þetta væri okkur til hálfgerðs vansa, að hafa dregizt þarna aftur úr nágrannaþjóðunum. Þar sem hæstv ráðh. er nú dugandi maður, er hann vís til að laga þetta. Hann gerir það þegar nokkuð með þessu frv. og ef hann verður dálítið lengur í þeim stól, sem hann situr í nú, þá er líklegt, að hann komi til með að laga það, þannig að við verðum ekki á þessu sviði, fremur en öðrum skattasviðum, eftirbátar annarra í skattheimtu.

Það er nú e.t.v. ofdirfska hjá mér að fara að eiga orðaskraf um skattamál við frsm. meiri hl., hv. 12. þm. Reykv., því hann er, eins og kunnugt er, hagfræðiprófessor og allra manna bezt að sér í þessum málum. Það er nú kannske vegna þess, að ég og aðrir þm. í þessari hv. d. höfum verið lærisveinar hans að segja má, sumir allmörg undanfarin ár, að ég dirfist að koma að örfáum aths. við það, sem hann sagði. Hann hefur kennt manni sitt hvað í hagfræði, a.m.k. þeim, sem næmir eru og ég ætla ekki að halda því fram, að þegar eitthvað er torskilið í hans kenningum, eins og mér fannst nú bera á núna, þá sé það af því, að hann sé ekki nógu lærður eða ekki nógu góður kennari, heldur býst ég við, að það sé af því að ég er nokkuð tornæmur. En þó hefur mér fundizt bera á því, að í hans oft og tíðum fróðlegu og greinargóðu fróðleikserindum um hagfræðileg efni komi það fyrir, þegar hann er að verja eða útskýra ákveðna þætti viðreisnarinnar sælu, að hagfræðin hjá honum sé svolítið torskilin. Ég ætla ekki að leyfa mér að segja, að hún sé vafasöm, heldur að hún sé svolítið torskilin og stundum heldur langsótt.

Hv. 12. þm. Reykv. talaði um það, að stjórnarandstaðan hefði ekki haldið því sama fram, þegar gengisfellingin var á ferðinni síðast, sem hún gerði nú. Og ég heyrði ekki betur en hv. þm. talaði um gengisfellinguna á s.l. ári. Þetta eru nú vafalaust mismæli eða misminni, a.m.k. leiðréttist það hér með, ef hv. þm. man það ekki, að það bar nú svo við, að það var engin gengisfelling á s. 1. ári, hún var að vísu í hittið fyrra og árið þar áður og kannske verður hún nú í ár, en árið 1969 datt alveg út. Það var engin gengisfelling hjá hæstv. ríkisstj. á því ári. Mér dettur ekki í hug að efast um það, að hv. þm. hefði haft mörg rök til að sýna fram á nauðsyn gengisfellingar árið 1969, ef þess hefði verið þörf, en hann slapp nú við það sem betur fór.

Hv. þm. mótmælti því nokkuð kröftuglega, að sú lækkun tolla, sem nú er ákveðin og sú hækkun söluskatts, sem ráðgerð er í þessu frv., séu láglaunafólki og launafólki almennt í óhag, eins og við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram. Og hann vildi með lærdómi sínum sýna fram á það, að söluskatturinn væri ekki óhagstæðari, en mismunandi háir tollar. Þetta á ég dálítið erfitt með að skilja og þarf vafalaust að fá öllu betri útskýringar á þessu hjá mínum ágæta kennara í hagfræði, hv. 12. þm. Reykv., en látum nú vera, þó að þarna sé ekki um mikinn mun að ræða. En hitt fæ ég með engu móti skilið, – eða sú hagfræði stendur a.m.k. í mér enn sem komið er, - að tolla eftirgjöf upp á rúml. 500 millj. kr. og skattheimta upp á 830 millj. kr., komi alveg nákvæmlega í sama stað niður fyrir þá, sem annars vegar eiga að fá 500 millj. kr. eftirgefnar og eiga hins vegar að borga 830 millj. kr. Nei, ég held, að það sé enginn vafi á því, að þessi breyting á skattheimtu ríkisins kemur býsna illa við allan almenning og hún verður honum sízt til hagsbóta. Og satt að segja er ég dálítið undrandi á því, hversu hæstv. ríkisstj. virðist vera treg til þess að draga úr þeim vanköntum, sem á þessu fyrirkomulagi eru, að draga úr því, að söluskattshækkunin leggist þyngra, en skyldi á þann, sem hefur minnstar tekjurnar og þó sérstaklega á þann, sem hefur flesta á sínu framfæri og jafnframt hversu treg hún virðist vera til þess að reyna að tryggja það, að þær tollalækkanir, sem samþykktar hafa verið, komi öllum almenningi til góða, eftir því sem mögulegt er, í lækkuðu vöruverði. Með því, að fella í fyrsta lagi tillögur framsóknar– og Alþb.–manna í hv. Nd., um að undanþiggja söluskatti nokkrar allra brýnustu lífsnauðsynjar almennings, þá hefur hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar að mínum dómi sýnt heldur lítinn skilning á því, að þessar tolla– og skattabreytingar koma býsna þungt niður á þeim, sem hafa marga á framfæri sínu. Og með því að fella einnig tillögu Alþb. í Nd. um, að gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að tryggja, að tollalækkanirnar kæmu þó fram í lækkuðu útsöluverði, þá sýnist mér einnig, að hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar geri minna, en ætla mætti til þess að draga úr þeim mismun, sem þarna er á tollalækkunum annars vegar og söluskatts hækkuninni hins vegar.

Það mætti vafalaust nefna mörg dæmi um það, hvernig það kemur við hinn almenna neytanda, að fá annars vegar ákveðna tolla lækkaða eða jafnvel fellda niður og að fá svo söluskattinn hækkaðan um 3 1/2%. Ég ætla að láta nægja að nefna hér eitt dæmi. Skömmu eftir að tollfrv. nýja kom fram, þá hitti ég bókaútgefanda hér í bænum, öflugan og ágætan stuðningsmann hæstv. fjmrh. og hann var, eins og ég raunar líka, ósköp ánægður með það, að nú skyldi loksins verða af því, að sá tollur, sem verið hefur á pappír til prentunar bóka, yrði felldur niður og mér skildist á honum, að hann væri það ánægður með þetta, að hann vildi senda hæstv. fjmrh. sérstakt þakkarávarp í tilefni af þessu. Ég veit ekki, hvort hann hefur gert það, það kann aðeins að hafa dregið úr því, að ég bað hann að reikna með mér lítið dæmi. Og það var, hvað toll eftirgjöfin á pappír annars vegar lækkaði bókina og hvað 3 1/2% söluskattsaukning hækkaði verðið á bókinni. Nú skal ég taka það fram, að það má segja, að útgefandanum komi niðurfellingin á pappírstollinum til góða, því það er ekki hann, heldur kaupandinn, sem borgar söluskattinn. Þetta er að vissu leyti rétt, en það þarf þó að athuga, að það eru takmörk fyrir því, hvernig hægt er að verðleggja bók og þetta kemur, þegar til lengdar lætur, í sama stað niður.

Við fórum þarna yfir lítið dæmi, sem er í stuttu máli á þá leið, að pappír í meðalbók kostar 40 þús. kr., eftir er gefinn 30% tollur, þ.e. 12 þús. kr. Bókin er prentuð í 2000 eintaka upplagi. Eintakið er síðan selt á 400 kr. Það gera samtals 800 þús. kr., þ.e.a.s. markaðsverð bókarinnar. Söluskattshækkunin, 3 1/2% af þeirri upphæð, er 28 þús. kr. Mismunurinn á 12 þús. kr. tollaeftirgjöf og 28 þús. kr. söluskattshækkun er, sem sagt, 16 þús. kr., þannig að ég sé ekki betur en að kaupendur umræddra bóka þurfi að borga 16 þús. kr. meira eftir en áður, þó þarna sé um að ræða algjöra niðurfellingu þeirra tolla, sem voru á þessari vörutegund. Ég held því, hvað svo sem sagt hefur verið í sambandi við þessa breytingu, bæði af hv. 12. þm. Reykv. og öðrum, að þessi breyting sé alveg tvímælalaust hinum almenna borgara og láglaunamanninum í óhag og ég get ekki betur séð, en það sé algerlega á fullum rökum reist, sem hv. 11. þm. Reykv. lagði hér áherzlu á, bæði í ræðu sinni í gær og í ræðu sinni áðan, að þessar breytingar á skattheimtunni séu enn ein röksemd fyrir kröfunni um hækkað kaupgjald.

Afstaða Alþb. til þessa máls er skýr. Alþb.–menn voru andvígir EFTA–aðildinni og ein af helztu afleiðingum hennar, sem þegar var boðuð, er farið var að ræða það mál, er að söluskatturinn verður hækkaður til þess að mæta þeim tollalækkunum, sem koma til framkvæmdar. Síðan hefur komið í ljós, eins og ég hef áður rakið og margir á undan mér, að í leiðinni á að ná í nokkur hundruð millj. kr. til þess að standa undir öðrum þörfum ríkissjóðs og vitanlega er þar um aukna skattheimtu að ræða, hvernig sem reynt er að beita öllum hagfræðikenningum til þess að afsanna það.

Ég held ég hafi það mín síðustu orð við þessa umr. að taka undir það, að endurskoðun alls skattakerfisins frá rótum er bráðnauðsynleg. Ég held, að það verði að hafa þessa endurskoðun mjög róttæka og það beri að haga henni þannig, að skattlagningin verði mest á það, sem kallað er eyðsla umfram það, sem menn þurfa til þess að geta lifað sómasamlega og svo skattlagning á gróða, þar sem um verulegan gróða er að ræða. Það er ekki réttlátt og það er ekki viturleg stefna í skattamálum í heild, að menn eigi að bera hinar sameiginlegu byrðar þeim mun þyngra sem þeir hafa fleiri á framfæri sínu, heldur eigi að hafa það að leiðarljósi í sambandi við hina nauðsynlegu endurskoðun allrar skattheimtu hins opinbera, ekki aðeins ríkis, heldur einnig bæjar– og sveitarfélaga, að menn eigi að borga til hinna sameiginlegu þarfa eftir efnum og ástæðum, eins og svo vel var orðað í gamla daga. Ég veit, að það eru til ýmis ráð til þess að gera þetta nú með nútímalegri aðferðum, heldur en áður var og þá er sjálfsagt að beita þeim, en ég vil leggja áherzlu á, að þessi meginhugmynd, að menn beri hinar sameiginlegu byrðar eftir efnum og ástæðum, er að mínu viti enn í fullu gildi og hún ætti einmitt að vera markmiðið, þegar að því kemur að taka allt skattakerfið og tollakerfið til rækilegrar endurskoðunar.