05.11.1969
Sameinað þing: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

26. mál, rannsókn sjóslysa

Flm:

(Geir Gunnarsson): Herra forseti. Á þskj. 28 flyt ég ásamt hv. 5. þm. Reykn. og hv. 4. landsk. þm. svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um breyting á lagaákvæðum um rannsókn sjóslysa á þann veg, að gert verði ráð fyrir, að sérstök rannsóknarnefnd annist sjóslysarannsóknir að öðru leyti en því, að sjó- og verzlunardómur á einstökum stöðum á landinu sjái um rannsókn hinna smávægilegri sjóslysa.

Nefnd þessi dragi saman allar þær upplýsingar, sem unnt er að afla við rannsókn sjóslysa, og miðli þeirri vitneskju jafnan til sjómanna, sjömannaskóla, útgerðarmanna og annarra aðila, sem málið varðar.“

Þessi till. var flutt í lok síðasta þings og gerð grein fyrir henni þá, og ég tel því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um hana nú. Við flm. teljum, að með þeim hætti, sem nú er á um rannsókn sjóslysa, skorti verulega á, að þau mál séu tekin nægilega föstum tökum og úr mætti bæta með því að breyta lögunum á þann veg, að eftirleiðis fari einn aðili með rannsókn allra sjóslysa.

Samkv. núgildandi lögum er rannsókn sjóslysa í höndum dómenda í hinum ýmsu sjó- og verzlunarþinghám í landinu. Hlutverk þessara dómstóla virðist í reynd fyrst og fremst vera að leiða í ljós, hvort um er að ræða saknæma óaðgæzlu við slys, en minna hirt um þau atriði, sem varðað gætu slysavarnir. Bersýnilegt er, að með því að dreifa rannsóknum sjóslysa á svo margar hendur fæst ekki sá árangur af samanburði milli einstakra slysa, samanburði á áhrifum mismunandi búnaðar skipa og mismunandi viðbragða skipshafna, sem unnt ætti að vera að fá fram, ef einn aðili, ein rannsóknarnefnd, rannsakaði öll sjóslys önnur en þau smávægilegustu, sem áfram gætu verið í höndum dómenda á viðkomandi stöðum. Þar á ég einkum við atvik, þegar nánast er um formsatriði að ræða, t.d. skýrslugerðir vegna greiðslu slysadagpeninga í sambandi við smávægileg óhöpp eða þess háttar. Þó ætti hin sérstaka rannsóknarnefnd jafnan að hafa rétt til að rannsaka nánar hvert hinna smærri slysa sem væri, ef hún teldi ástæðu til þess. Mér sýnist enginn vafi á, að með því að færa sjóslysarannsóknir á hendur eins og sama aðila, sem safnar allri reynslu á einn stað, hefur yfirlit og samanburð á öllum sjóslysum, ættu að aukast mjög líkur á, að árangur rannsóknanna gæti leitt til þess, að draga mætti úr hættu á slysum, sem verða af hliðstæðum orsökum og áður hafa legið til slysa, sem rannsökuð hafa verið.

Samkv. lögum um loftferðir eru ákvæði um rannsóknir vegna flugslysa mun strangari en ákvæði núgildandi laga um rannsóknir sjóslysa. Í lögum um loftferðir segir, að í skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa skuli gerð grein fyrir orsök flugslyssins og auk þess till. um varúðarráðstafanir, sem gera má til þess að afstýra áframhaldandi slysum af sömu eða líkum orsökum. Til þess að von sé um, að unnt sé að gera nauðsynlegar till. um varúðarráðstafanir gegn slysum á sjó á grundvelli rannsókna á slysum, sem áður hafa orðið, teljum við flm. þessarar þáltill. nauðsynlegt, að ein sérstök rannsóknarnefnd annist rannsókn allra slysa á sjó, í stað þess að slíkar rannsóknir dreifast á hendur fjölmargra aðila, eins og nú á sér stað samkv. núgildandi lögum. Nefndin, sem hefði þetta hlutverk, mundi tryggja, að dregin væri saman öll vitneskja, sem unnt er að afla við rannsókn sjóslysa, og gæti síðan miðlað þeirri reynslu til allra þeirra, sem mestu varðar, að njóti hennar, til sjómanna og sjómannasamtaka, til skipasmiða og útgerðarmanna.

Afkoma þjóðarinnar hefur jafnan byggzt á harðri og óvæginni sjósókn og sú harða sjósókn hefur kostað mörg mannslíf og mikið eignatjón. Við megum því aldrei láta undir höfuð leggjast að gera hverjar þær ráðstafanir, sem unnt er, til að draga úr sjóslysum. Við flm. væntum þess, að þær breytingar, sem þessi till. okkar miðar að, að gerðar verði varðandi lagaákvæði um rannsókn sjóslysa, geti stuðlað að auknum slysavörnum. Ég vil geta þess að lokum, að hv. allshn. sendi till. þessa, eftir að hún hafði verið lögð fram í vor, ýmsum aðilum til umsagnar, og mér er kunnugt um, að umsögn hefur borizt frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, þar sem mælt er með því, að þessi till. verði samþ.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.