18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

44. mál, viðskiptafulltrúar

Flm. ( Guðlaugur Gíslason ):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um viðskiptafulltrúa á þskj. 44 og er hún svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að komið verði á fót skrifstofum viðskiptafulltrúa á Ítalíu og Spáni.“

Ég flutti á síðasta þingi till. sama efnis, en hún var þá það seint fram komin, að hún náði ekki afgreiðslu hér á hv. þingi. Ástæðan fyrir því, að ég tel nauðsynlegt, að hlutazt verði til um, að komið verði á fót skrifstofum í þessum tveimur löndum, er sú, að þetta eru stór viðskiptalönd okkar, þar sem við höfum ekki sendiráð, en sendiráðið á Ítalíu er staðsett í Osló og sendiráðið í London gegnir störfum á Spáni. Ég tel, að sú þróun sé að verða á útflutningsmálum okkar, að það hljóti að koma að því, að við verðum að vinna meira að framgangi á sölu framleiðsluvöru okkar, aðallega sjávarafurða, heldur en gert hefur verið hingað til. Ég hygg, að flestum sé það ljóst, að óvarlegt er að reikna með mikilli aukningu á heildaraflamagni sjávarafurða í framtíðinni. Þá hlýtur að koma að því, að meiri gjörvinnsla þessara afurða eigi sér stað, en það leiðir að sjálfsögðu til þess, að leita verður nýrra markaða á hinum meira unnu vörum og kannske í fleiri löndum en við höfum nú viðskipti við. Þetta þýðir að mínum dómi, að leggja verður meiri áherzlu á þann þátt utanríkismála, sem viðskipti okkar heyra undir. Það hlýtur að koma að því, að settar verði á stofn skrifstofur viðskiptafulltrúa þar, sem ekki eru sendiráð, og ég tel einnig, að viðskiptafulltrúar verði staðsettir annars staðar, þó að sendiráð séu fyrir hendi til þess að gæta viðskiptahagsmuna okkar sérstaklega. Þegar ég tala um, að það hljóti að koma að því, að meiri gjörvinnsla sjávarafurða eigi sér stað í framtíðinni en nú er, þá byggist það á því, að sú staðreynd liggur fyrir, að í flestum tilfellum erum við að flytja út óunnið eða lítt unnið hráefni sjávarafurða. Aðeins um einn flokk sjávarafurða má segja, að lengra sé komið, en þar á ég við hraðfrystar afurðir. Þeir aðilar, sem hafa haft þau mál til meðferðar á undanförnum árum, hafa vissulega unnið mikið og þarft verk við útflutning þeirrar vöru. Það er orðinn verulegur hluti hraðfrystra sjávarafurða, sem nú er fluttur út í neytendaumbúðum, einnig eiga þau fyrirtæki, sem annast þennan útflutning, verksmiðjur á erlendum vettvangi, sem gjörnýta þann fisk, sem ekki er fluttur út í neytendaumbúðum, þannig að úr honum eru unnir margvíslegir réttir, sem eru til neyzlu og sölu svo að segja beint á borð neytenda. Þetta á sér því miður ekki stað, að mér sýnist, í neinni annarri grein í framleiðslu sjávarafurða. Hér liggur fyrir hv. Alþ. till. til þál. frá hv. 5. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, um að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd til að rannsaka möguleika á aukinni hagnýtingu saltsíldar til útflutnings. Vissulega er þessi þáltill. tímabær og sýnir m.a., að þarna er úrbóta þörf. Annar stærsti útflutningsliður sjávarafurða nú orðið mun vera saltsíld. Í þeirri grein hefur orðið sáralítil, ég vil segja engin, breyting síðustu hálfa öld. Við erum enn í dag að flytja út saltfisk í 50 kg strigaumbúðum, enda þótt vitað sé, að nokkur og veruleg breyting hefur átt sér stað í þeim löndum, sem kaupa þessa vöru af okkur, þannig að þar er farið að selja hana til neytenda í mun smærri umbúðum, allt niður í litlar neytendaumbúðir. Ekki þarf að eyða að því mörgum orðum, að mun hagkvæmara væri fyrir þjóðfélagsheildina, ef farið væri inn á þá braut, eins og ég held að hljóti að koma að áður en langt um líður, að gjörvinna sjávarafurðir til útflutnings, þannig að þær yrðu seldar í sem smæstum umbúðum, helzt í hinum smæstu neytendaumbúðum. Þessu verður að vísu ekki komið við í öllum greinum sjávarútvegsins, en á sumum sviðum er það án efa hægt. Enn í dag flytjum við t.d. út hrogn í 100–120 kg tunnum, söltuð hrogn eru flutt út á þann veg, þó að vitað sé, að þetta er orðin neyzluvara erlendis, sem seld er í mjög smáum umbúðum. Það mundi margfalda útflutningsverðmætið, bæði á þessari vöru og annarri, ef farið væri inn á þá braut að fullvinna hana hér á landi og flytja hana út í þeim umbúðum, sem hún er nú seld í til neytenda erlendis. Þetta er eitt dæmið um það, hvað gera má með lítið auknum tilkostnaði. Það þarf aðeins að skapa aðstöðu til að vinna vöruna á þennan hátt, og það þarf ekki síður að skapa aðstöðu til að geta selt vöruna, sem unnin væri á þennan hátt, í þeim löndum, þar sem vörunnar er neytt.

Ég vil svo aðeins benda á lítið dæmi, sem sýnir verðhækkanir í útflutningi við frekari vinnslu sjávarafurða. Við sjáum það, ef flett er upp í Hagtíðindum, sem nú eru nýkomin út, að sé þorskalýsið kaldhreinsað, virðist útflutningsverð þess vera 22 kr. á kg, en sé það flutt út á venjulegan hátt, eins og við gerum að langmestu leyti, er það aðeins tæpar 12 kr. Þarna á sér stað mjög einföld breyting, sem að vísu kostar nokkuð í stofni, en mundi vissulega skila sér í auknu útflutningsverðmæti, bæði auknum vinnulaunum og auknum gjaldeyri, sem yrði til hagræðis fyrir þjóðarheildina. Ég hygg, að það liggi beint við næstum í öllum greinum útflutnings, að meiri gjörvinnsla hlýtur að verða á næstu árum til þess að skapa aukna atvinnu og til að auka gjaldeyristekjurnar.

Ég hef sérstaklega í þeirri till., sem ég hef hér leyft mér að flytja, bent á tvö lönd, þar sem ég tel að hafa þurfi viðskiptafulltrúa. Það er vegna þess, eins og ég gat um áðan, að við höfum þar ekki sendiráð, en við höfum veruleg viðskipti við þessi tvö lönd, þó að þar sé aðallega um að ræða eina útflutningsgrein sjávarafurða, saltfiskinn. Ég hygg, að það mundi verða mjög til hagræðis, ef í þessum löndum væri viðskiptafulltrúi, sem fylgdist þar með málum, því að það er svo með saltfisk eins og fleiri vörur okkar, að miklar sveiflur eru bæði á sölumöguleikum og verðlagi. Einnig hefur átt sér stað og er að eiga sér stað veruleg breyting á neyzluvenjum, þannig að fólk er farið að krefjast þess að fá vöruna í sem smæstum umbúðum og næstum tilbúna á borðið. Þessi þróun er að eiga sér stað í báðum þeim löndum, sem hér eru tilgreind, en við höldum enn þá uppi gömlu venjunni, að flytja saltfiskinn út í strigaumbúðunum ekki nema hálfverkaðan, sem er þó afturför frá því, sem áður var, meðan hann var fluttur úr þurrkaður, að vísu í sömu umbúðastærð, en hann var þó fullþurrkaður og meira unninn að því leyti.

Eins og ég sagði í upphafi, þá tel ég, þó að till. nái aðeins til tveggja landa, að það hljóti að koma að því fyrr en seinna, að þörf verði fyrir viðskiptafulltrúa í fleiri löndum og einnig þar, sem við höfum nú sendiráð. Á þessu þingi hefur verið lagt fram frv. til l. um utanríkisþjónustu Íslands. Í 11. gr. þess frv. er gert ráð fyrir, að skipaðir verði sérstakir viðskiptafulltrúar, ef þörf krefur. En ég tel, að ákvæðin í þessu frv. séu ekki nógu skýr. Þar er sagt: „Auk þeirra starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sem taldir eru í 10. gr., má skipa, þar sem þörf krefur, sérstaka viðskiptafulltrúa til takmarkaðs tíma.“ Ég tel, að þarna þurfi að kveða miklu skýrara á um og vil með þessari till., sem hér er lögð fram, leggja áherzlu á, að ég tel sérstaka nauðsyn á því, að skipaðir verði sérstakir viðskiptafulltrúar í þeim tveimur löndum, sem till. getur um.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.