02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

65. mál, verknáms- og þjónustuskylda ungmenna

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 70, um verknáms- og þjónustuskyldu ungmenna, er með mjög líku sniði og till., sem ég hef flutt á tveimur undanförnum þingum. Á þinginu í hitteðfyrra kom þessi þáltill. svo seint fram, að þá gafst ekki tími til að taka afstöðu til hennar. Á síðasta þingi var hliðstæðri till. vísað til allshn., og hv. allshn. fjallaði um hana og skilaði áliti. En hún varð ekki sammála, og komu fram tvö nál. og málið var aldrei eftir það tekið fyrir til umr. hér í hv. Alþ. Mig langar aðeins að víkja að því, sem fram kemur í afgreiðslu n. um þetta mál á s.l. hv. Alþ. Meiri hluti allshn. lagði til, að málinu væri vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem heimild er til í lögum nr. 63 27. júní 1941 fyrir kaupstaði og hreppsfélög til að stofna til þegnskylduvinnu fyrir ungmenni og enginn áhugi hefur komið fram til að nota þá heimild, sér Alþ. ekki ástæðu til að efna til kostnaðar við athugun á framkvæmd skylduþjónustu ungmenna og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Minni hluti allshn. lagði hins vegar til, að till. yrði samþ. með þó nokkurri orðalagsbreytingu. En sem sagt, þetta mál kom aldrei á dagskrá, eftir að nál. komu fram.

Ég vil aðeins víkja að því, sem fram kemur í áliti meiri hlutans, þar sem vísað er til þeirrar heimildarlöggjafar, sem til er um þegnskylduvinnu, eins og það er þar nefnt, en þau lög eru nr. 63 frá 27. júní 1941 og heita: „Um heimild fyrir kaupstaði og hreppsfélög til þess að koma á þegnskylduvinnu.“ Þetta eru sem sé heimildarlög, og eins og nm. taka fram í sínu áliti, hefur hvergi komið til þess, að þessi heimild yrði notuð. En aðalatriði þessara laga eru þau, að það þarf nokkurn meiri hluta, það þarf að bera þetta undir atkvæði kosningarbærra manna í viðkomandi sveitarfélagi, ef ósk kemur um að taka þessi lög til framkvæmda, og það er áskilið, að 3/5 hlutar þeirra, sem atkvæði greiða, — enda taki þá minnst helmingur atkvæðisbærra manna þátt í atkvgr., — samþykki, að þessi heimild verði notuð. En þó þarf enn fremur staðfestingu atvmrn. Það eru þess vegna talsverðar hömlur á því í lögunum sjálfum, að þetta verði notað. Auk þess sýnist mér nokkuð augljós ástæða til þess, að það vefjist a.m.k. nokkuð fyrir mönnum í einstökum sveitarfélögum, hvort hyggilegt sé að leggja til, að slíkt sé tekið upp. Ef það væri hvergi gert annars staðar, er líklegt, að íbúum þess sveitarfélags fyndist þarna vera gengið á sinn hlut, umfram það sem almennt væri gert. Þess vegna finnst mér ósköp skiljanlegt, að þessi lög hafi ekki komið til framkvæmda. Aldursmörk eru ákveðin í þessum lögum 16–25 ára. Þar er gert ráð fyrir, að það séu a.m.k. tvær til sex vikur árlega, sem hver maður vinni samkvæmt þessum lögum, en þó alls eigi lengur en þrjú ár á þessu tímabili. Gert er ráð fyrir, að menn hafi þarna það, sem nefnt er frítt fæði eða dvalarkostnað; það er hliðstætt eða sams konar ákvæði og ég hef talað um í mínum till. Svo er enn fremur í 5. gr. laganna getið um verkefni, sem vinna ætti að. Þau eru einnig mjög hliðstæð því, sem ég hef drepið á í hugmyndum mínum um framkvæmd skylduþjónustunnar. Enn fremur er gert ráð fyrir viðurlögum, ef menn ekki inna af hendi þessa skylduþjónustu, sem eru þá fólgin í sektum til viðkomandi sveitarsjóða. Ég hef aðeins talið rétt að rifja upp höfuðatriðin, sem felast í þessum lögum. Í stuttu máli verður að segja, að það blés ekki byrlega fyrir þessari hugmynd við afgreiðslu hv. allshn. á s.l. vetri, og þess vegna má segja, að það sé nokkur dirfska að leita nú enn eftir því til Alþ., hvort það vildi fallast á að gefa þessu máli gaum, sem að vísu er ekki meira en þetta, eins og ég vænti, að öllum hv. alþm. sé ljóst, hvort ástæða er til að skipa nefnd til þess að kanna, hvort við eigum að koma slíkri löggjöf á hjá okkur. Ég er sem fyrr eindregið þeirrar skoðunar, að aðstæður í okkar þjóðfélagi séu slíkar, að við eigum að gera þetta. Eins og mikið hefur borið á í umr., ekki sízt nú upp á síðkastið, þá ber skólamál ákaflega hátt. Því er ekki heldur að neita, að aukið nám á ýmsum sviðum er nauðsynlegt, til þess að þjóðfélagsþegnarnir séu færari um að inna af höndum þær skyldur, sem þjóðfélagið leggur á þá, eða réttara sagt til þess að þeir séu virkir þegnar í þjóðfélaginu. Tækniframfarirnar gera það t.d. að verkum, að þörf er sífellt meira og meira náms, sífellt meiri og meiri kunnáttu. Þrátt fyrir það verð ég að segja, að mér finnst, að e.t.v. hafi verið lögð helzt til einhliða áherzla á þennan þátt mála. Og ég hef hugsað þetta sem dálítið mótvægi í þessum efnum. Okkur er það ljóst, hversu gífurlegur kostnaður fylgir því fyrir þjóðfélagsheildina, að standa undir og geta fullnægt þeim námskröfum, sem nú eru uppi, og það þarf víst ekki að orðlengja það, að þetta er eitt af þeim erfiðustu málum, sem hv. Alþ. stendur frammi fyrir hverju sinni, t.d. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það er sagt, að menntun sé bezta fjárfestingin. Ég ætla ekki út af fyrir sig að deila um það, en það er með þessa fjárfestingu eins og marga aðra fjárfestingu, að hún þarf nokkurn tíma til þess að gefa arð, og á meðan þarf sá, sem féð leggur fram, að hafa efni á að láta það standa kannske arðlítið. Það mætti verða ofurlítill stuðningur einmitt við það, að þjóðfélagið geti innt þessa skyldu af hendi, að gera viðunandi aðstöðu í skólum og námi, að það fái nokkra endurgreiðslu, ef svo mætti segja, frá unglingunum og ungmennunum, t.d. í formi þess, sem ég hef hér nefnt verknáms- og þjónustuskyldu. Auk þess er ég þeirrar skoðunar, að það sé ekki minnst vert um þennan þátt í námi nútímaunglinga. Þetta er bein snerting við margvísleg störf í þjóðfélaginu, og því hef ég nefnt þetta verknáms- og þjónustuskyldu, að ég álít, að það eigi í mjög mörgum tilfellum að fella það beinlínis inn í skólanámið. Annars má segja, að það sé kannske ekki ástæða til að rökræða svo mjög á þessu stigi um kosti og galla þessa kerfis. Aðalatriðið er það, að Alþ. fáist til að gera það upp við sig, hvort hugmyndin er yfirleitt þess virði, að nefnd sé skipuð til þess að taka málið til athugunar. Ég verð að segja, að ég var dálítið hissa, þegar ég las þessa rökstuddu dagskrá á s.l. vetri hjá hv. meiri hluta n., þar sem segir svo: „ ... sér Alþ. ekki ástæðu til að efna til kostnaðar við athugun á framkvæmd skylduþjónustu ungmenna ...“ Nú neita ég því ekki, að auðvitað mun það hafa einhvern kostnað í för með sér að skipa slíka nefnd. En ég held, að uppeldismál, skólamál og menntamál séu það stór þáttur, að það sé næstum því að segja hlægilegt að vera að tala um þetta í sambandi við athugun á þessu máli.

Það væri freistandi að fara út í ýmis atriði, sem á góma ber, um margs konar þjóðfélagsvanda og ekki sízt æskumanna og skólamálanna. Ég ætla þó ekki að fjölyrða frekar um þetta mál núna, en vil aðeins enn þá beina því vinsamlegast til hv. alþm. að taka þetta mál nú til umhugsunar á ný, og ég vildi þá vænta þess, að þeir kæmust að þeirri niðurstöðu, að það væri þess virði að skipa nefnd til þess að kanna, hvort ekki sé rétt að taka upp verknáms- og þjónustuskyldu í einhverju formi. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.