02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef nú enn á ný freistazt til þess að bera fram till. til þál. um það mál, sem hér er á dagskrá, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn. Þetta er kannske af meðfæddum þráa fremur en nokkur von sé til þess, að málið fái áheyrn hjá hv. Alþ., því að þrisvar hefur till. verið flutt svo til óbreytt og aldrei komizt gegnum hreinsunareld nefndanna, sem hér starfa. En efni till. er það, að skipuð verði nefnd fimm manna til þess að gera till. um stofnun sumardvalarheimila í sveitum fyrir börn úr kaupstöðum og kauptúnum. Sérstaklega skal það kannað, hvort, og þá á hvern hátt, því verði við komið að nýta skólahúsnæði í þessu skyni. Á þessum sumardvalarheimilum, sem við höfum í huga, skal stefna að því, að börnin hafi viðfangsefni, sem geti orðið þeim að sem mestum andlegum og líkamlegum þroska, þ. á m. ræktunarstörf, gæzla húsdýra og umgengni við þau. Síðan segir í till., að nefndin skuli hafa samráð við ýmsa aðila, borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórnir í kaupstöðum, sveitarstjórnir í kauptúnahreppum og barnaverndarráð. Svo eru að lokum hér nokkur ákvæði um það, hvernig nefndin skuli skipuð og fleira því viðkomandi.

Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt hér enn, er sú, að það var um langan aldur venja kaupstaðarbúa að koma börnunum á sveitaheimili til sumardvalar. Þessi tilhögun þótti holl og þroskavænleg og það var mjög eftir því sótzt að koma þeim þannig fyrir og fram undir síðustu ár hefur þetta tekizt. Kaupstaðabörn, kaupstaðaungmenni, hafa fram að þessu notið góðs af sumardvöl í sveit. Nú er þetta allt saman breytt, eins og allir þekkja hér og möguleikar fólksins í sveitinni til þess að taka á móti þessum sumargestum eru nánast engir. Búsetan hefur kollsteypzt hér í þjóðfélaginu, eins og við þekkjum. Fyrir 40 árum eða 1930 bjuggu 26% þjóðarinnar í Reykjavík. Nú búa hér 40% þjóðarinnar, og í þéttbýlinu hér við Faxaflóa býr helmingur þjóðarinnar og rúmlega það. Þess vegna er það ljóst, að ekki er hægt að leysa þetta mál á þann hátt, sem gert var. Það er alveg ljóst. En það er skylt að geta þess, að ýmis félagasamtök hafa á virðingarverðan hátt leitazt við að bæta úr þessari þörf, sem hér er um að ræða. Og ég hygg, að andstaðan gegn þessari till. sé fyrst og fremst komin af því, að það eru ýmsir, sem álíta, að þessum málum verði betur fyrir komið með því, að áhugamenn hafi umsjón þeirra. Þessu er ég algerlega andvígur. Það verður ekki hægt að leysa jafn stórkostlegt viðfangsefni eins og þetta á þann hátt, að áhugamenn einir og þeirra hópar séu látnir glíma við vandamálið án nokkurrar aðstoðar og án nokkurs eftirlits. Enda sýnir reynslan það, að þetta hefur ekki tekizt. Í vaxandi mæli eru ungmenni úr kaupstöðum þannig sett, að þau hafa enga sumardvöl. Þá er annað tveggja fyrir hendi, að leita á vinnumarkaðinn og taka þau störf, sem þar eru, sem er áreiðanlega ekki heppilegust leið, og svo þá hitt, sem er verst af öllu, að hafa ekkert við að vera. Hér í Reykjavík hafa borgaryfirvöld komið til móts við þennan vanda að nokkru leyti. Ég vil láta það koma fram. Hér hefur á undanförnum árum verið starfræktur vinnuskóli fyrir 14–15 ára gömul ungmenni, og í þeim vinnuskóla, sem starfaði á yfirstandandi ári, voru 984 nemendur. Þetta er náttúrlega mikil bót að mínu mati. En hitt er þá á að líta, að þessi vinnuskóli hefur aðeins getað starfað þannig, að ungmennin hafa haft starf hálfan daginn, fyrir hádegi annan daginn og eftir hádegi hinn daginn. Við þennan skóla unnu 48 kennarar. Nemendunum var greitt nokkurt kaup. Eldri nemendur fengu 23 kr. á unna vinnustund, en yngri nemendur 20 kr. fyrir hverja vinnustund. Verkefnin voru skógræktarstörf í Heiðmörk, alls konar lagfæringar á lóðum og útivistarsvæðum í borginni, starf við íþróttavellina, starf á Korpúlfsstöðum að lagfæringu og hreinsun, eins í Saltvík, og yfirleitt störf, sem eru við hæfi þessa aldursflokks. Ég læt þessa hér getið vegna þess, að það má gjarnan geta þess, sem vel er gert, en jafnframt er það ljóst, að þetta er engan veginn nægilegt. Yngra fólk en 14 ára hefur ekki aðgang að þessum skóla og engri starfsemi á vegum Reykjavíkurborgar. Það hefur farið í vöxt, að einkaheimili annast sumardvöl gegn greiðslu. Þetta getur verið ágætt. Það er mér kunnugt um. En annars staðar gengur þetta ekki eins vel og hygg ég, að það muni þá fyrst og fremst vera fyrir skort á leiðbeinendum. Í nýútkominni skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er frá því skýrt, að nefndin hafi beitt sér fyrir því, að út var gefinn bæklingur með leiðbeiningum um gæzlu sumardvalarbarna. Þennan bækling samdi frú Áslaug Sigurðardóttir í Vík í Skagafirði, sem hefur margra ára reynslu í þessum málum og hefur að allra dómi leyst þau afburða vel af hendi. Þar með tel ég víst, að þessi bæklingur sé út af fyrir sig eins vel gerður og hægt er að ætlast til, en augljóst er þó, að það eitt er ekki nóg að gefa út slíkan bækling. Það verður að mínum dómi að samræma þetta starf. Það verður að tryggja það, að fleiri kaupstaðarbörn fái sumardvöl en kost eiga á því núna, og það verður að tryggja það og hafa eftirlit með því, að sú sumardvöl sé sú heppilegasta, sem völ er á.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu um þessa tilhögun núna, enda fáir til þess að hlýða á hana. Vísa ég til þess, sem ég hef áður sagt um þetta efni, en vil beina þeirri eindregnu áskorun til hv. alþm., að þeir gefi sér nú tíma til þess að kynna sér þetta mál og helzt að fallast á efni till. með því að samþykkja hana eða þá láta til sín taka á einhvern annan hátt, en ekki leiða þetta mál hjá sér eins og það væri vandamál, sem ekki er til.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umr.