11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Frsm. meiri hl. ( Jónas Pétursson ):

Herra forseti. Eins og þskj. bera með sér, varð allshn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. En eins og fram kemur í nál. hv. meiri hl., felst þessi ágreiningur ekki í efnishlið málsins, heldur í því, hverjir aðilar eiga fyrst og fremst að leysa það mál, sem þarna er um að ræða. Till. gerir ráð fyrir skipun nefndar af hálfu Alþingis og ríkisstj. til þess að taka til athugunar þessi mál um sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn. Meiri hl. n. telur, að þetta mál eigi að vera hér eftir sem hingað til fyrst og fremst í höndum sveitarstjórnanna, og á því byggist sú rökstudda dagskrá, sem við flytjum hér á þskj. 381, og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Þar sem málefni það, er þáltill. á þskj. 79 fjallar um, er bezt komið í höndum sveitarfélaga hér eftir sem hingað til, telur þingið ekki rétt að samþykkja till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, að ég tel, að þessi málaflokkur sé þess eðlis, að hann eigi að vera í höndum sveitarfélaganna. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun mína almennt, að ég vildi efla sveitarfélögin, ég vildi frekar auka þau verkefni, sem þau hafa með höndum og þar með þá í sumum tilfellum jafnvel draga úr því, sem lagt er í hlut ríkisins. Og þetta mál er einmitt þannig vaxið, að það hefur alltaf verið í höndum sveitarfélaganna, en með því að fara nú að skipa nefnd af hálfu Alþ. og ríkisstj. til íhlutunar í þessu, þá teljum við, sem að þessari rökstuddu dagskrá stöndum, að sú stefna horfi ekki til heilla í þessu máli.

Við leggjum sem sagt til, að málinu verði vísað frá með þessari rökstuddu dagskrá.