11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Frsm. minni hl. ( Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. til þál. á þskj. 79 um sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn er flutt af hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni, hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni, og hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, og hefur till. sama eða svipaðs efnis áður verið flutt á Alþ. og ekki hlotið afgreiðslu, a.m.k. ekki jákvæða. Allshn. hefur haft þetta mál til umsagnar alllangan tíma, eins og sjá má af því, að það er 71. mál þingsins, og var talið rétt að leita álits hlutaðeigandi aðila um þetta mál. Það varð niðurstaða í n. að senda málið til umsagnar barnaverndarráði Íslands, fræðslumálastjóra og bæjarstjórnum fjögurra fjölmennustu kaupstaðanna í landinu, Reykjavíkur, Kópavogs, Akureyrar og Hafnarfjarðar, og tel ég þá hér upp í fjölmennisröð.

N. hafa borizt svör og umsagnir frá öllum þessum aðilum nema einum, og þessi eini aðili, sem ekki sendi umsögn, er borgarstjórnin í Reykjavík. Umsagnirnar frá kaupstöðunum þrem og barnaverndarráði eru dagsettar í desember, og umsögn fræðslumálastjórans snemma í janúarmánuði. Það er skemmst af því að segja, að þessar umsagnir eru allar jákvæðar, og má segja, að þeir aðilar, sem þarna hafa verið spurðir og svarað hafa og ætla verður, að eigi mikinn hlut að máli, séu því meðmæltir, að till. verði samþ., þótt það sé orðað á misjafnlega ákveðinn hátt. Bæjarstjórn Kópavogs segir t.d.: „Bæjarráð mælir með till.“ Bæjarstjórn Akureyrar sendir samþykkt bæjarráðs, þar sem segir: „Bæjarráð leggur til, að bæjarstjórn mæli með samþykkt þáltill.“ Og bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sendir einnig frásögn af fundargerð bæjarráðs, þar sem segir: „Bæjarráð f.h. bæjarstjórnar lýsti því yfir, að það sé hlynnt því, að nefnd sú, sem um getur í till., verði skipuð.“ Fræðslumálastjóri, Helgi Elíasson, segir í lokin: „Ég er meðmæltur því, að gerð verði athugun sú, er felst í nefndri þáltill.“ Og barnaverndarráð Íslands sendir einnig jákvæða umsögn, en þar kemur fram ákveðin bending um skipun nefndarinnar og minni hl. allshn. gerir það að till. sinni, að till. verði breytt með hliðsjón af því, sem barnaverndarráð segir um það mál, og er brtt. minni hl. prentuð á þskj. 377. Hún er um aðra skipan nefndarinnar en gert hafði verið ráð fyrir. Að öðru leyti er till. óbreytt.

Ég skal ekki tala hér langt mál um þessa till. að öðru leyti. Það er alkunna, að skortur á möguleikum foreldra eða annarra forsjármanna til að koma börnum í sumardvöl í sveit er vaxandi vandamál í kaupstöðum og kauptúnum landsins og þá ekki sízt í Reykjavík. Börnum, sem þurfa að komast í sveit, fjölgar stöðugt vegna vaxandi íbúatölu kaupstaðanna, en sveitaheimilum fækkar á sama tíma og geta þeirra til að taka á móti aðkomubörnum í annríki sumarsins er takmörkunum háð. Vegna vélvæðingarinnar á sveitabæjunum eru verkefni við hæfi barna færri þar en þau áður voru. Flestir munu vera sammála um það, að sumardvöl þéttbýlisbarna í sveit sé til þess fallin að styrkja heilsu þeirra og yfirleitt æskileg af uppeldisástæðum, enda hafa börn, sem eru komin vel á legg, yfirleitt löngun til að njóta sumarsins á þennan hátt. Og þar sem hér er í raun og veru um uppeldismál að ræða að verulegu leyti, a.m.k. að mínum dómi, þá er vitanlega ekkert óeðlilegt við það, að þjóðfélagið í heild hafi afskipti af þessu eins og skólakennslu og öðrum uppeldismálum. Í seinni tíð hafa ýmis félög innt af hendi ýmiss konar hjálparstarf á þessum sviðum og bæjarfélög hafa einnig nokkuð lagt hér hönd að verki, eins og hv. frsm, meiri hl. sagði, en hann dró af því ályktun, sem mér finnst í meira lagi hæpin. En betur má, ef duga skal, enda hér um svo víðtækt verkefni að ræða, að eðlilegt má telja, að þjóðfélagið hafi um það nokkra forustu, að kannaðir verði til hlítar þeir möguleikar, sem fyrir hendi kunna að vera eða geta orðið til að leysa sumardvalarmál barnanna, og þá auðvitað í samráði við hlutaðeigandi aðila. Ég vil alveg sérstaklega benda á það, að sumir þeir möguleikar, sem þarna er um að ræða, eru þannig vaxnir, að til þess að nýta þá þarf að koma til samstarf ríkis og sveitarfélaga og þá þeirra félaga annarra, sem láta sig þessi mál varða. Þess vegna er það í alla staði eðlilegt, að ríkið hafi hér afskipti af, og þar sem við í minni hl. lítum á þetta mál sem stórt þjóðfélagsmál, þá teljum við einnig af þeim ástæðum, að það sé alveg rétt athugað hjá flm. till., að þjóðfélagið eigi að taka hér nokkra forustu, er verða mætti að liði í þessu vandamáli.