11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3325)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að vekja alveg sérstaka athygli á afgreiðslu hv. meiri hl. allshn. á þessu máli. Í nál. segja þeir meirihlutamenn:

„Ekki skal dregið úr mikilvægi þess málefnis, er till. fjallar um. Þvert á móti viljum við undirstrika það, en teljum, að samþykkt till. yrði sízt til bóta.“

Þeir telja málið mikilsvert, og þeir vilja undirstrika það, hvað málið er mikilsvert, en niðurstaðan er, að málinu skuli vísað frá. Þegar allir, sem spurðir voru og svöruðu, leggja til, að hún verði samþ. og meiri hl. n. er þeirrar skoðunar, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, og það er undirstrikað sérstaklega, þá komast þeir að þeirri niðurstöðu, að málinu skuli vísað frá. Þetta er eftirtektarverð afgreiðsla á máli að mínum dómi. Þeir segja í nál. sínu, rökstuddu dagskránni:

„Þar sem málefni það, er þáltill. á þskj. 79 fjallar um, er bezt komið í höndum sveitarfélaga hér eftir sem hingað til, telur þingið ekki rétt að samþykkja till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá:“

Í till. er ekki farið fram á það, að ríkið stofni til þessarar starfsemi. Till. fer ekki fram á neitt annað en að það sé sett í þetta nefnd, sem athugi málið og geri sínar till. til Alþ. 1. mgr. till. er á þessa leið: Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd til þess að gera till. um stofnun sumarheimila í sveitum, o.s.frv. Það stendur ekkert um það í till., að ríkið eigi að fara að stofna þessi sumarheimili. Það gat vel verið, að þessi nefnd hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að sveitarfélögin ættu að gera það. En samt kemst meiri hl. n. að þeirri niðurstöðu, að það komi ekki til mála að samþykkja till. Ég held, að hér sé einhver sú fáránlegasta afgreiðsla á till. miðað við rökstuðninginn og dagskrána, sem ég hef heyrt í langa tíð. Að viðurkenna réttmæti málsins og undirstrika nauðsyn þess, hvað það sé mikilvægt, og komast svo að þeirri niðurstöðu, að till. skuli vísað frá. Þetta vildi ég sérstaklega undirstrika og vekja athygli hv. þm. á, af því að þetta er svo óvenjulegt. Að öðru leyti hef ég ekkert um það að segja annað en það, að auðvitað meina þeir meirihlutamenn ekkert með þessu, sem þeir eru að tala um, að málið sé mikilvægt. Þeim hefði aldrei dottið í hug að koma með till. um að vísa málinu frá, ef þeir hefðu talið það mikilvægt. Þetta er ekkert annað en yfirskin. Að vilja ekki láta nefnd athuga málið, en segja samt, að það sé mjög mikilvægt, sýnir, að engin alvara er á bak við og slíkt álit met ég ekki mikils.