02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

72. mál, rannsóknarstofnun í áfengismálum

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þessi till. okkar hv. 1. þm. Vestf. hefur verið flutt áður, flutt síðla á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd. Ég þarf nú ekki að eyða löngum tíma í ræðuhöld vegna þessarar till., vegna þess að í fyrra, þegar ég mælti fyrir till., hafði ég um hana mjög ítarlega framsögu auk þess, sem grg. fyrir till. skýrir nákvæmlega það, sem fyrir okkur vakir. En ég vil þó til upprifjunar minna hv. þm. á það, sem helzt felst í þessari till. En það er að fela ríkisstj. að koma upp rannsóknarstofnun í áfengismálum, sem hafi það hlutverk að vinna að vísindalegum rannsóknum á áfengismálum, bæði félagslegum og læknisfræðilegum rannsóknum. Kannaðir verði í þessu sambandi möguleikar á samstarfi við Allþjóðaheilbrigðismálstofnunina, og höfð verði, eftir því sem ástæða þykir til, hliðsjón af áfengismálarannsóknum á Norðurlöndum. Verja skal til starfsemi þessarar og henni til undirbúnings, að svo miklu leyti, sem til hrekkur, þeim hluta af tekjum gæzluvistarsjóðs, sem ætlaður er til rannsókna á orsökum, eðli og meðferð drykkjusýki samkv. 17. gr. laga nr. 39 1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Að öðru leyti gerir till. ráð fyrir, að ríkissjóður kosti þessa starfsemi af ágóða sínum af einkasölu á áfengi. Eins og öllum er kunnugt, hefur ríkissjóður mjög verulegar tekjur af áfengissölu, eða að því er ég ætla um 4–500 millj. kr. á ári. Það væri því ekki of í lagt, þó að ríkissjóður léti nokkuð af hendi rakna til þess að vinna gegn því böli, sem ofneyzla áfengis óneitanlega hefur í för með sér. Eins og kemur fram í grg. með þessari till., þá er upphaf þessa máls það, að kosin var á Alþ. 1964 nefnd sjö alþm. til þess að rannsaka svo sem verða mætti ástandið í áfengismálum þjóðarinnar. Formaður í þessari nefnd var Magnús Jónsson, núverandi fjmrh., enda var hann flm. þeirrar till., sem að þessu laut. En aðrir nm. voru úr þingflokkunum. Þessi nefnd skilaði skýrslu til dómsmrh. árið 1966, eftir u.þ.b. tvö ár, allítarlegri skýrslu, og þessi skýrsla var síðan prentuð sem fylgiskjal með frv. til l. um breyt. á áfengislögum, sem lagt var fyrir Alþ. 1966. Ég ætla ekki að rekja allt efni þessarar skýrslu áfengismálanefndar, en í henni er að finna margt, sem að gagni mætti verða og til upplýsingar um ástand í áfengismálum, eins og það var, þegar nefndin var að störfum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ástandið í áfengismálunum á Íslandi var á margan hátt mjög slæmt og að við Íslendingar byggjum við margvíslegt áfengisböl. Nefndin formaði nokkrar ábendingar og till. til úrbóta í áfengismálum og meðal þeirra tillagna, sem e.t.v. voru einna nýstárlegastar og nefndin lagði ákaflega mikla áherzlu á, var sú till., að efnt yrði til vísindalegra áfengismálarannsókna hér á landi, bæði félagslegra og læknisfræðilegra, og nefndin benti einnig á, að rétt væri að kanna möguleika á því, hvort hægt væri að hafa samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina í Genf um þessar rannsóknir.

Þess má geta, að áfengismálarannsóknir hafa átt sér stað á Norðurlöndum, nágrannalöndum okkar, og þar hefur verið komið upp alveg sérstökum stofnunum, sem hafa með þessi mál að gera. Þannig er það í Finnlandi, að finnska áfengiseinkasalan kostar og rekur á sínum vegum sérstaka áfengismálastofnun, og er óhætt að fullyrða, að Finnar séu fremstir í flokki þeirra þjóða, sem rannsakað hafa áfengismálin frá mjög viðtæku sjónarmiði, bæði læknisfræðilegu og félagsfræðilegu. Einkum og sér í lagi hefur finnska áfengismálastofnunin á vegum áfengiseinkasölunnar þar fengizt við að rannsaka félagslegar afleiðingar ofneyzlu áfengis. Í Svíþjóð starfa tvær merkar læknisfræðilegar stofnanir að rannsóknum á áfengismálum, Institutionen för teoretisk Alkoholforskning og Alkoholklinik í Karólinska geðsjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Sama er að segja um Dani, þeir hafa komið upp hjá sér stofnun, sem heitir Socialforsknings Institut. Þessi stofnun hefur m.a. með að gera áfengismálarannsóknir og hefur látið framkvæma mjög víðtækar áfengismálarannsóknir í Kaupmannahöfn. Í Noregi er sömu sögu að segja, að þar er til stofnun, sem heitir Statens Institutt for Alkoholforskning og hefur þessi stofnun einnig haft með höndum allumfangsmiklar áfengismálarannsóknir í u.þ.b. 10 ár eða jafnvel lengur. Þá er þess að geta, að á vegum Norðurlandaráðs var stofnuð norræn áfengismálarannsóknarnefnd árið 1959. En af einhverjum ástæðum, sem mér eru ókunnar og ég hef ekki fengið upplýstar, voru Íslendingar ekki aðilar að þessari nefnd. En þessi norræna rannsóknarnefnd beitti sér upp úr 1960 fyrir samræmdum athugunum á drykkjuvenjum ungmenna í höfuðborgum Norðurlanda, öllum nema Reykjavík. Niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir í prentuðu máli, og eru e.t.v. til hér í Alþ. Í sambandi við þetta mál þykir mér rétt að geta um álit dr. Tómasar Helgasonar prófessors, sem er án efa okkar fremsti sérfræðingur í þessum efnum. Hann lét það í ljós við áfengismálanefnd Alþ. á sinni tíð, að eitt af því brýnasta, sem nú þyrfti að gera í sambandi við áfengismálin í landinu, væri frekari rannsóknir á drykkjuháttum fólks hér á landi og þá sérstaklega drykkjuháttum mismunandi aldurshópa: hvernig þeir hafa hafið drykkju, hvenær þeir drekka, hve mikið, hve lengi og ekki sízt hvers vegna hver einstakur drekkur til að byrja með, eins og prófessorinn segir, og hann segir jafnframt, að þegar niðurstöður slíkra rannsókna liggi fyrir, þá fyrst sé að vænta þess, að hægt verði að koma á kerfisbundnum vörnum gegn drykkjusýkinni. Nú hefur dr. Tómas Helgason látið eitt og annað frá sér fara varðandi þetta mál, m.a. hefur hann reynt að gera sér grein fyrir því, hversu margir drykkjusjúklingar og ofdrykkjumenn séu í landinu. Hann segir raunar í skýrslu eða bréfi til áfengismálanefndar, að þetta þurfi að kanna miklu betur og fá skýrt úr því skorið, hversu margir þessir sjúklingar séu, en hann hefur með sérstökum líkindareikningi, sem ég kann ekki að gera fullkomna grein fyrir, komizt að þeirri niðurstöðu, — þetta var fyrir u.þ.b. fimm árum, — að eiginlegir drykkjusjúklingar í landinu, eins og hann kallar það, muni vera um 1450 karlar og að auki um 140–150 konur. En ofdrykkjumenn, hann gerir hér greinarmun á þessu tvennu, drykkjusjúklingi og ofdrykkjumönnum, — telur hann alls munu vera í kringum 2300. Prófessorinn hefur uppi þá skýrgreiningu á orðinu drykkjusjúklingur, að það sé ofdrykkjumaður, sem er orðinn svo háður áfengi, að áfengið hefur valdið greinilegum skapgerðarbreytingum, eða er farið að hafa áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar, samskipti við aðra eða félagslega og fjárhagslega afkomu, eða sá, sem sýnir þau einkenni, að yfirvofandi sé, að áfengið hafi þessi áhrif. Prófessorinn bendir á, að ofdrykkjumenn séu 2300, en hann nefnir þessari tölu til samanburðar, að 75% örorkulífeyrisþega séu á þessum tíma, þegar athugun hans fer fram, 3500, þannig að það má hverjum vera ljóst, að hér er um verulegt heilsufarsvandamál að ræða, og á öðrum stað segir prófessor Tómas líka, að drykkjusýkin og ofdrykkjan sé geðsjúkdómur, sem þurfi að meðhöndla af sérfræðingum í geðsjúkdómum.

En sem sagt, herra forseti, ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta efni. Ég hef þegar áður talað ítarlega fyrir þessu, en ég vænti þess, að þetta mál fái greiðan gang gegnum þingið, komist til n. Ég vil geta þess, að um það bil sem ég var að fara á þennan fund, skaut því að mér vegfarandi, að hér í borginni starfaði félagsskapur ungra manna, sem ég held, að nefnist Tenglar, og hafa þeir mikinn áhuga á þessu máli. Vil ég í því sambandi minna hv. n., sem fær þetta til athugunar, á að hafa samband við þennan félagsskap, þessa ungu menn, sem af áhuga starfa að þessum málum, sem einmitt till. fjallar um. Ég vil svo að lokum leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.