21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

82. mál, framkvæmd skoðanakannana

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 91 að flytja svo hljóðandi þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að kosin skuli 5 manna nefnd að viðhafðri hlutfallskosningu í Sþ., er framkvæmi athugun á því, hvernig skoðanakannanir verði bezt framkvæmdar með tilliti til þess, að niðurstaða þeirra leiði í ljós sem bezt má verða vilja þess hóps, er skoðanakönnunin tekur til. Skal hlutverk nefndarinnar vera tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa út leiðbeiningar um það, hvaða grundvallarreglum beri að fylgja við framkvæmd skoðanakannana, þannig að þær gefi sem réttasta mynd af því, hvaða skoðun sé ríkjandi meðal þess hóps, er könnunin nær til. Í öðru lagi skal nefndin athuga, hvort grundvöllur mundi vera fyrir því, að komið yrði á fót stofnun, er gegndi því hlutverki að framkvæma skoðanakannanir á hlutlausan hátt, annaðhvort að eigin frumkvæði eða fyrir aðra, er til stofnunarinnar kynnu að leita, og með hverjum hætti eðlilegt væri, að hið opinbera stuðlaði að því að koma henni á fót “

Þessari þáltill. fylgir allítarleg greinargerð og hef ég í rauninni ekki svo miklu við hana að bæta, en þar sem ég hef orðið var við, að nokkurs misskilnings hefur gætt í sambandi við þessa till., þó að það hafi að vísu komið meira fram í einkaviðtölum við áhugamenn um þessi efni en á opinberum vettvangi, þá tel ég þó rétt að bæta við þetta nokkrum orðum, ef verða mætti til þess að skýra nánar en gert er í grg. fyrir hv. þm., hvað það er, sem fyrir mér vakir. Það er þá e.t.v. rétt að byrja á því, vegna þess að því efni eru ekki beinlínis gerð skil í grg., að skilgreina það, hvað ég á við með skoðanakönnun. Eins og felst í orðinu þá er með þessu átt að mínu áliti við það, að kanna fylgi meðal almennings, annaðhvort við ákveðnar hugmyndir eða ákveðna einstaklinga. Eins og kunnugt er, þá fara öðru hverju fram skoðanakannanir í Bandaríkjunum, sem eiga að sýna vinsældir þær, sem Bandaríkjaforseti nýtur á hverjum tíma, eða kanna fylgi manna við ákveðna stjórnmálastefnu. En sú spurning vaknar þá eðlilega, hvaða munur sé á skoðanakönnunum og kosningum, því að eru kosningar ekki líka fylgiskannanir? Að mínu álíti er svarið við þessu á þann veg, að sé skoðanakönnun eða niðurstöður hennar bindandi fyrir ákvarðanir, sem teknar verða um það málefni, sem hún nær til, þannig að vald liggur skoðanakönnuninni að baki, þá sé rétt að tala um kosningar. En sé tilgangurinn aðeins sá að fá upplýsingar um skoðanir eða vilja þess hóps, sem könnunin nær til, án þess að um skuldbindingu sé að ræða til þess að taka tillit til niðurstöðunnar, þá er um eiginlega skoðanakönnun að ræða. Oft eru þó óglögg skil þarna á milli, t.d. ef niðurstöður skoðanakönnunar eru raunverulega látnar ráða úrslitum um þær ákvarðanir, sem eru teknar, þó að ekki hafi verið gefnar fyrir fram yfirlýsingar um, að svo skuli vera. Annað atriði má líka benda á í þessu sambandi, sem leiðir af mismunandi tilgangi skoðanakannana og kosninga, en það er mismunandi afstaða til áróðursstarfsemi. Þegar um eiginlegar skoðanakannanir er að ræða, gefur það auga leið, að áróðursstarfsemi þjónar ekki neinum skynsamlegum tilgangi, og hljóta þær reglur, sem fylgt er við framkvæmd skoðanakönnunarinnar, því að miðast við að útiloka, að áróðursstarfsemi hafi áhrif á niðurstöðurnar eða a.m.k. að torvelda slíka starfsemi svo sem unnt er. Þegar um kosningar er að ræða hins vegar, þá geta menn að vísu haft mismunandi skoðanir á því, hvort áróður sé æskilegur eða ekki, en hann er þó a.m.k. að jafnaði leyfður. Nú má auðvitað segja sem svo, að ef áróðurinn takmarkast við það eitt að gefa sannar upplýsingar, þá ætti auðvitað ekkert að vera við hann að athuga, en engum mun nú vera kunnugra og ljósara heldur en okkur þm., að sannleikurinn og áróðursstarfsemin á aðeins samleið að vissu marki, en út í það fer ég nú ekki nánar, því að það liggur utan við tilgang þessarar þáltill. Mest af þeim skoðanakönnunum, sem hér á landi hafa farið fram, hafa eins og kunnugt er verið á vegum einkaaðila, svo sem blaða, tímarita, fyrirtækja og félagasamtaka. Það er engan veginn ætlun mín, eins og ég raunar tel mig hafa tekið alveg skýrt fram í grg., að stofna til þess, að hið opinbera taki upp afskipti af slíku, enda getur tilgangur slíkra skoðanakannana verið mismunandi og oft annar en hinna eiginlegu skoðanakannana, eins og þær hafa verið skilgreindar hér. Stundum er þetta gert fólki til skemmtunar. Það á við um ýmsar skoðanakannanir, sem framkvæmdar eru á vegum blaða og tímarita. Stundum er þetta gert í áróðursskyni fyrir vissar hugmyndir og skoðanir o.s.frv. Sama máli gegnir um hinar svo kölluðu prófkosningar á vegum stjórnmálaflokkanna, sem eru á mörkum þess að vera skoðanakannanir eða kosningar, eftir því hver tilgangurinn er með þeim og á hvern hátt þær eru framkvæmdar. Það hef ég ekki haft í huga við flutning till., þó að vísu muni þess dæmi í nágrannalöndunum, að um slík prófkjör hefur beinlínis verið sett löggjöf, en slíks mundi ég ekki vera hvetjandi. Annað mál er svo það, að þeir aðilar, sem nú hafa verið nefndir, gætu á ýmsan hátt haft gagn af niðurstöðum þeirrar athugunar, sem þáltill. gerir ráð fyrir að framkvæmd verði, en þeim er auðvitað í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja notfæra sér slíkt eða ekki. Það er þó ekki slík leiðbeiningarstarfsemi, sem fyrir mér hefur fyrst og fremst vakað með flutningi þessarar till., heldur hitt, að ég tel bæði líklegt og að ýmsu leyti æskilegt, að opinberir aðilar beiti skoðanakönnunum, til þess að hafa niðurstöður þeirra til hliðsjónar við ýmsar ákvarðanir, frekar en hingað til hefur verið gert. Þá virðist og vaxandi áhugi fyrir því, að þjóðaratkvgr. verði í ríkara mæli viðhafðar en nú er, sbr. þá þáltill., sem næst er á dagskrá á eftir minni till., og mér skilst, að útséð sé nú um að verði afgr. hér á hv. Alþ. og er ég í sjálfu sér fylgjandi þessari till. En þar sem um skylt málefni er að ræða, eins og vikið skal að hér á eftir, þá hef ég einmitt einnig haft þjóðaratkvgr. í huga. Um eiginlegar skoðanakannanir á vegum opinberra aðila hefur að vísu til skamms tíma ekki verið að ræða nema að takmörkuðu leyti, en þó hafa þær um alllangt skeið verið tíðkaðar í einni eða annarri mynd á einu tilteknu sviði stjórnsýslunnar, en það eru skólamálin. Ég minnist þess t.d., að fyrir einum 16–17 árum átti ég sæti í nefnd, sem hafði það verkefni að endurskoða námsefni, einkum þó á hinum lægri skólastigum. Við efndum í tilefni af því til allitarlegra skoðanakannana meðal kennara á hinum ýmsu skólastigum. Að vísu varð árangur af þeirri skoðanakönnun kannske ekki eins mikill og við höfðum vænzt, en ég hygg, að þarna sé ekki um neinn einstæðan atburð að ræða, og hygg jafnvel, að þetta hafi að undanförnu farið í vöxt á sviði skólamálanna. M.a. hefur, eins og kunnugt er, verið komið upp sérstakri skólarannsóknastofnun, sem, að því er ég bezt veit, hefur m.a. beitt sér fyrir skoðanakönnunum um ýmsa hluti, sem varða starfssvið hennar, eins og telja má í alla staði eðlilegt. Mér er það að vísu fjarri að halda því fram, að það skeri úr um réttmæti máls, að meiri hluti sé því fylgjandi — en það getur varla verið ágreiningur um hitt, að það geti verið mikilvægur liður í lýðræðislegum stjórnarháttum, — hvernig sem maður skilgreinir nú lýðræðið að öðru leyti, sem mjög má um deila, — að kynna sér skoðanir almennings á þeim málefnum, sem til lykta skal ráða. Það má líka benda á, að aðrar leiðir, sem farnar hafa verið til þess að kynna sér skoðanir almennings, s.s. fundahöld, eru erfiðari í framkvæmd en áður vegna tilkomu sjónvarps og ýmissa annarra hluta, sem gera það erfiðara en áður að fá fundasókn.

Þá ætla ég að leyfa mér í stuttu máli að víkja aftur að þjóðaratkvgr. Eins og ég sagði áðan, þá mun ég fylgja þeirri till., sem hér hefur verið lögð fram og allshn. Sþ. hefur mælt með, en við þá athugun, sem gert er ráð fyrir að fram fari samkvæmt þessari þáltill., gæti samþykkt þeirrar till., sem ég legg hér fram, að mínu áliti komið að miklu gagni. Ég tel hins vegar ekki, og tek það skýrt fram, að till. um þjóðaratkvgr. geti komið í stað minnar till., vegna þess að henni er eðlilega markað miklu þrengra svið en minni till. En einmitt varðandi þjóðaratkvgr. er sérstök ástæða til að kryfja til mergjar það vandamál, sem vikið er að í niðurlagi grg. minnar fyrir þáltill., þar sem rætt er um örðugleika á því, að fá fram nokkurn meirihlutavilja, þegar um fleiri en tvo kosti er að velja. Þetta mál er tiltölulega einfalt, ef kjósa á mann í tiltekna trúnaðarstöðu, því að jafnvel þó að fleiri en tveir séu þá í framboði og meiri hl. náist ekki í fyrstu umferð, er alltaf hægt að þrengja kosninguna svo, að um tvo sé kosið að lokum, sbr. ákvæði þingskapa um kosningu forseta Alþ. Þarna getur því ekki verið neinn vafi á, hvor þessara tveggja aðila á meirihlutafylgi að fagna, nema í þeim tilvikum, sem auðvitað geta komið fyrir, að atkvæði séu jöfn, en þá er hlutkesti venjulega látið ráða, eins og kunnugt er. Sama máli gegnir, þegar málin liggja svo einfaldlega fyrir, að það eru aðeins tvær skoðanir, sem eru uppi, eins og þegar við deilum um það, hvort leyfa skuli áfengan bjór eða ekki, þá er þetta annaðhvort eða. En málin liggja ekki alltaf svo einfaldlega fyrir og mér finnst einmitt nærtækt dæmi um slíkt till. sú, sem afgreidd var hér á hv. Alþ. laust fyrir jólin og mikill styr stóð þá um. Þar á ég við aðild Íslands að EFTA. Í sambandi við þá till, kom, eins og kunnugt er, fram till. um að bera það mál undir þjóðaratkv., en hefði sú leið verið farin, hefði málið orðið flóknara. Ef ekki hefði verið um annað að ræða en að menn hefðu skipzt þarna í tvo hópa, þá, sem voru með EFTA-aðild, og þá, sem voru á móti EFTAaðild, þá var málið auðvitað einfalt, en eins og hv. þm. er kunnugt, þá kom fram þriðja skoðunin á málinu. Þeir, sem þeirri skoðun héldu fram, hv. framsóknarmenn, töldu sig í sjálfu sér hlynnta EFTA-aðild, en málið væri ekki nægilega undirbúið og bæri að slá því á frest. Nú geta menn verið með þessu eða á móti, það ræði ég hér ekki, en þetta er þó þriðja skoðunin á málinu og hefði málið verið borið undir þjóðaratkv., þá hefði ekki verið neitt rúm fyrir slíka skoðun, eins og slíkar þjóðaratkvgr. eru að jafnaði framkvæmdar. Nú er ég ekki að segja, að þarna þurfi í sjálfu sér að vera um óleysanlegt vandamál að ræða, en þetta hlýtur að verða eitt þeirra vandamála, sem kryfja verður til mergjar, þegar taka á afstöðu til þess, í hve ríkum mæli sé æskilegt að heimila þjóðaratkvgr. Í öðrum málum getur það sama komið fram, og á það hefur verið bent af einum hv. þm, fyrr á þessu þingi í sambandi við prófkosningar flokkanna. Hv. 1. þm. Norðurl. e. benti á það, að mínu áliti alveg réttilega, nú fyrir skömmu, þegar hann hafði framsögu fyrir þáltill. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, að prófkosningar mundu verða miklu auðveldari viðfangs, ef um einmenningskjördæmi væri að ræða. Þá er alltaf auðvelt að þrengja kosninguna, svo að það sé valið um tvo menn. Um þær reglur, sem fylgja á, getur þá ekki verið neinn ágreiningur og þessi fylgiskönnun, sem um er að ræða, hlýtur þá að leiða til ákveðinnar niðurstöðu. Miklu flóknara hlýtur þetta mál að verða, ef raða á mörgum mönnum á framboðslista. Þá yrði í fyrsta lagi spurningin um, hvaða reglum á að fylgja við slíka niðurröðun og kæmu þá e.t.v. til greina 100 reglur, sem allar geta verið jafngóðar í sjálfu sér, en geta leitt til mjög mismunandi niðurstöðu, fyrir utan það, að niðurstaðan getur orðið þannig bæði í þessu efni og í öðrum skyldum, að þrátt fyrir mikla þátttöku telji allir, að heildarniðurstaðan sé óhafandi. Það er spurningin um það, hvort í þessu tilviki er hægt að tala um nokkurn meirihlutavilja, sem ljóslega hlýtur alltaf að koma fram, þegar um aðeins tvo kosti er að ræða. En eins og ég tók fram, þá hef ég ekki haft slíkar kosningar að neinu leyti í huga, þegar ég flutti þessa till., en þetta verður þó viss angi af þessu máli, og þeir aðilar, sem fyrir slíku standa, gætu að mínu áliti haft gagn af niðurstöðum þeirrar athugunar, sem ég legg hér til að framkvæmd verði.

Að síðustu vildi ég aðeins víkja að spurningunni um skipan þessarar nefndar. Þar sem ég álít, að hér sé ekki um pólitískt mál að ræða, þá hafði það vakað fyrir mér, að þessi athugun yrði á sem breiðustum grundvelli, og eins og viðhorfin voru, þegar till. var lögð fram, hefði sú skipan, sem hér er lögð til, tryggt öllum þingflokkum sæti í þessari nefnd. Nú hefur þingflokkum fjölgað um einn eins og kunnugt er, en ég læt hv. þingnefnd um það að athuga það mál. Ef hún að öðru leyti yrði því hlynnt, að þessi athugun færi fram, þá er það ekki neitt aðalatriði, hve margir eru í nefndinni eða hvernig hún er skipuð, en ég vil þó tryggja það, að það sé á sem breiðustum grundvelli. Ég vil einnig taka það fram, að þó að hér sé að vísu lagt til, að Sþ. kjósi þessa nefnd, þá hefur það síður en svo vakað fyrir mér, að ég teldi sjálfsagt, að það væru þm., sem sæti ættu í þessari nefnd. Þvert á móti tel ég eðlilegt, að nefndin yrði að verulegu leyti skipuð öðrum en þm., og ég held, þó að það hafi allt of lítið komið fram í sambandi við þær miklu umræður, sem orðið hafa um skoðanakannanir af ýmsu tagi að undanförnu, að ef vel er leitað, þá eigum við á að skipa ýmsum ungum og efnilegum mönnum, einmitt á sviði hinna ýmsu greina þjóðfélagsvísinda, sem taka m.a. þetta mál til meðferðar, sem færir væru um að upplýsa þessi mál betur fyrir almenningi en nú er yfirleitt gert. En samþykkt þessarar till. mundi greiða fyrir slíku að mínu áliti og jafnvel vera nauðsynleg, ef á mína skoðun í þessu efni yrði að öðru leyti fallizt.

Að lokum, herra forseti, legg ég til, að þessu máli verði vísað til hv. allshn.