02.03.1970
Sameinað þing: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

112. mál, réttindi sambúðarfólks

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þáltill. á þskj. 136 hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða gildandi lög um lífeyrissjóði með samræmingu við ákvæði 57. gr. almannatryggingalaga um réttindi sambúðarfólks fyrir augum, eftir því sem við getur átt.“

Efni þessarar till. er í stuttu máli það, að í almannatryggingalögum, áðurnefndri grein, segir, að sama rétt til bóta og hjón hafi einnig samkvæmt þeim lögum karl og kona, sem búa saman og eru bæði ógift, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð af völdum hans eða sambúðin hefur varað samfellt í tvö ár, og sama gildir um bótarétt þess, sem eftir lifir, þegar hitt deyr.“ Þessu er hins vegar ekki svona farið um þau réttindi, sem erfast eftir lögum um lífeyrissjóði. Þau eru æðimörg og ég hef talið þau upp í grg. frv., án þess að taka þó ábyrgð á því, að sú upptalning sé algerlega tæmandi. Mér sýnist, að hér sé um ósamræmi í tryggingalöggjöfinni að ræða og það sé ekki sanngjarnt, að t.d. kona, sem missir sambýlismann sinn frá ungum börnum þeirra, standi uppi alveg réttindalaus og eigi enga kröfu til þeirra réttinda, sem maðurinn var búinn að afla með greiðslum úr sameiginlegu búi þeirra til viðkomandi lífeyrissjóðs.

Ég skal engan dóm á það leggja, hvort búskapur karls og konu í svo nefndri óvígðri sambúð mundi minnka eða aukast, þó að þessi lagabreyting yrði gerð. Ég býst við, að önnur atriði ráði þar meira um, en mér sýnist, að hér sé misræmi í tryggingalöggjöfinni. Hefur raunar verið bent á það af ýmsum og þess vegna er nú þessi þáltill. fram borin.

Hér var um tvær leiðir af tefla. Þetta er einföld breyting, ákaflega einföld, á þeim lögum, sem um ræðir. Það hefði þess vegna alveg eins komið til greina að flytja frv. til breyt. á þeim lögum. En það hefðu orðið æðimörg frv. og til þess að spara Alþ. vinnu var horfið að því ráði, að flytja þessa þáltill. til þess að kanna hug þm. til þessa máls, sjálf framkvæmdin er einföld.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist, að hafa um þessa litlu till. fleiri orð hér. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað í dag og till. vísað til hv. allshn.