29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur gert hér að umtalsefni það ákvæði samningsins, að lánsfé skuli vera vaxtalaust og það var sannarlega ekki vanþörf á að drepa á þetta atriði. Það er nú svo komið fyrir Íslandi, að það þarf að fara að óska eftir erlendu lánsfé án vaxta. Þetta minnir mig á gamla daga, þegar menn þurftu að leita eftir sveitarstyrk, hann var ekki með neinum vöxtum. Mér sýnist, að við séum komnir niður á það svið, að það sé eitthvað líkt ástatt fyrir okkur í hópi þjóðanna eins og þessu fólki, sem á sínum tíma þurfti að biðja um sveitarstyrk. Mér finnst þetta bókstaflega vera yfirlýsing íslenzkra stjórnvalda um það, að nú sé Ísland orðið fjárhagslega vanþróað land, því að það getur ekki talizt þróað land, sem biður aðrar þjóðir um vaxtalaust fé.

Það var á það drepið, að þessu yrði ekki breytt, af því að samningurinn væri gerður og þess vegna yrði Alþ. annaðhvort að samþykkja samninginn eins og hann er eða ekki. En ósköp eru áhrif Alþ. farin að verða lítil á móts við ríkisstjórnarinnar, þegar það má ekki eða getur ekki breytt einu einasta atriði í samningi, sem gerður hefur verið við aðra þjóð. Ég skal ekki ræða um eða fullyrða um, í hvaða formi sú breyting þyrfti að vera að fá þessu ákvæði samningsins breytt, en ég tek það ekki trúanlegt, að það sé ekki hægt, að Íslendingar geti ekki óskað eftir því, að sú eina breyting verði gerð á samningnum, að þeir borgi vexti, einhverja hóflega vexti af fénu, eins og venjulegt er milli þjóða. Ég vil benda hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, á að aðgæta þetta rækilega, hvort það sé útilokað að fá slíku breytt sem þessu og ekki get ég ímyndað mér, að þjóðirnar Norðurlandaþjóðir, - sem leggja fram þetta fé eða lána þetta fé, geti haft eitthvað á móti því, ef Íslendingar óska eftir því að borga einhverja hóflega vexti af láninu. En eins og það er, þá vil ég taka undir það, að þetta er ekki Íslandi og Íslendingum til neins sóma.