15.12.1969
Sameinað þing: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

107. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Flm. (Geir (Gunnarsson):

Herra forseti. Örfáum dögum fyrir s.l. jól voru samþ. á Alþ. lög um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenzkrar krónu. Það hafði hæstv. ríkisstj. nýlokið við að fella gengi gjaldmiðilsins í fjórða sinn á 10 árum. Með lögum þessum var m.a. kveðið svo á, að breytt skyldi stórlega þeim hlutaskiptareglum, sem giltu í kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna. Eftir setningu laganna skyldu 10% aflaverðmætis tekin af óskiptu, ef landað væri í innlendri höfn, og lögð í stofnfjársjóð fiskiskipa, en þó 20% verðmætis af síld og humar. Þar til viðbótar skyldu 17% aflaverðmætis falla beint til útgerðarfyrirtækja til greiðslu almenns útgerðarkostnaðar. Við sölu afla í erlendri höfn skyldu á sama hátt 22% aflaverðs tekin af óskiptu til stofnfjársjóðs fiskiskipa.

Þannig var gildandi hlutaskiptareglum breytt með lögþvingun svo stórlega; að 27–37% verðmætis skyldu eftirleiðis tekin af afla, áður en til hlutaskipta kæmi. Með þessari lagasetningu var beinlínis efnt til ófriðar við sjómannastéttina, sem einskis var spurð í þessum efnum og mótmæli hennar að engu höfð. Afleiðingarnar urðu þær, að vélbátaflotinn var bundinn í höfn vegna verkfalls í rúmlega mánuð á síðustu vetrarvertið og að því er varðar yfirmenn á bátaflotanum var deilan að lokum leyst með lagasetningu á Alþ., þar sem miðlunartillaga, sem útgerðarmenn höfðu samþykkt, en sjómenn fellt, var lögfest. Riftun hlutaskiptareglna, sem var orsök til algers verkfalls hjá bátaflotanum um mánaðarskeið, hafði í för með sér geysilegt verðmætatjón í töpuðum afla. En þar með er ekki bægt frá til frambúðar slíkum áhrifum þessara laga. Sjómenn una þessum lögum að sjálfsögðu ekki og sýnt er, að meðan þau eru í gildi í óbreyttri mynd a.m.k., mun ekki linna stöðvun fiskiflotans á hávertíðinni, er sjómenn heyja sína baráttu til þess að jafna með bættum kjarasamningum þá skerðingu á hlutaskiptareglunum, sem lögfest hefur verið. Fulltrúar sjómannafélaganna víðs vegar um landið héldu ráðstefnu um kjaramál í Reykjavík 11. og 12. desember s.l. Að þessari ráðstefnu lokinni barst Alþ. bréf frá Sjómannasambandi Íslands, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 14. október 1969.

Á ráðstefnu sjómannafélaganna, sem haldin var í Reykjavík dagana 11. og 12. þ.m. að tilhlutan Sjómannasambands Íslands, var samþ. einróma það, sem hér fer á eftir:

Ráðstefnan telur, að með hliðsjón af því; sem gert var af hálfu Alþ. á s.l. ári með lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna gengislækkunar íslenzkrar krónu, þegar raunverulega var gengið á hlut sjómanna, og tekin af þeim 27–37% af samningsbundnum hlut, verði ekki hjá því komizt að segja upp gildandi kjarasamningum, og skorar ráðstefnan því á öll þau félög, sem aðilar eru að bátakjarasamningum við samtök útgerðarmanna, að segja þeim samningum upp miðað við, að þeir verði úr gildi við n.k. áramót. Jafnframt skorar ráðstefnan á hið háa Alþ. að endurskoða nú þegar framangreind lög með auknar kjarabætur til sjómanna fyrir augum, þar sem fyrir atbeina laganna og góð aflabrögð á yfirstandandi ári hljóti afkoma útgerðarinnar að hafa batnað svo, að hægt væri að lagfæra lögin sjómönnum í hag. Ráðstefnan telur, að viðbrögð og afstaða sjómannafélaganna til aðgerða um áramót muni mjög mikið mótast af því, hvernig Alþ. tekur áskorun þessari, en telur hins vegar nauðsynlegt, að kölluð verði saman ráðstefna að nýju í desember n.k. til þess þá að taka afstöðu miðað við ástand mála. Þá telur ráðstefnan nauðsynlegt, að gerðir verði samningar við útvegsmenn um kaup og kjör þeirra, er færaveiðar stunda, svo og með nýjum samningum að skera úr um ágreining, sem orðið hefur um kaup og kjör þeirra manna, sem stunda grálúðuveiðar. Stjórn Sjómannasambands Íslands treystir því, að hið háa Alþ. verði við áskorun þeirri, sem í framangreindri samþykkt felst.

Virðingarfyllst,

f.h. Sjómannasambands Íslands,

Jón Sigurðsson.“

Í framhaldi af samþykkt sjómannaráðstefnunnar sögðu sjómannafélögin upp kjarasamningum og ganga þeir úr gildi um n.k. áramót. Hinn 6. desember s.l. kom síðan ráðstefna sjómanna saman að nýju, en þá lá fyrir, að stjórnarvöldin höfðu í engu látið sem þau vissu um óskir sjómanna um endurskoðun þessara laga, hvað þá heldur meir. Í fréttatilkynningu Sjómannasambandsins um síðari ráðstefnuna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var einróma álit allra þeirra, er ráðstefnuna sátu,. að þar sem Alþ. hefði á engan hátt enn sem komið er orðið við þeim tilmælum, er fyrri ráðstefna sambandsins beindi til þess um breytingu á lögum vegna gengisfellingar íslenzkrar krónu sjómönnum í hag, yrði ekki hjá því komizt að fara nú þegar að taka upp samningaviðræður við útvegsmenn um hækkaða skiptaprósentu til áhafna skipanna, svo og um fleiri breytingar á samningum til hagsbóta fyrir bátasjómenn. Algert samkomulag varð um þær kröfur, sem gera skyldi á hendur útvegsmönnum, og munu þær lagðar fram á fyrsta viðræðufundi, er samninganefnd sjómannasamtakanna á við þá. Lögð var áherzla á það á ráðstefnunni að viðræður gætu hafizt sem fyrst.“

Kjarasamningar sjómanna og útgerðarmanna ganga úr gildi um næstu áramót, eins og ég áðan sagði, og við Alþ. og þjóðinni allri blasa nú ný átök milli þessara stétta. Hversu lengi verkfall kynni að standa að þessu sinni eftir að það á annað borð hæfist, veit að sjálfsögðu enginn, en hitt ætti heldur enginn að þurfa að efast um, að orsökin væri ákvæði laganna um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenzkrar krónu, sem afgreidd voru á Alþ. 19. desember s.l. og hafa nú þegar, þ.e. á síðustu vertíð, valdið mánaðar verkfalli á fiskiskipaflotanum. Um næstu áramót ganga kjarasamningar sjómanna og útgerðarmanna úr gildi. Ástæðan til þess, að þeim er sagt upp, eru þessi lög.

Fyrir því er margföld reynsla, að því lengur sem dregið er að taka á slíkum málum, þeim mun erfiðara er að finna á þeim lausn og þeim mun meiri hætta er á, að þau hlaupi í algerlega óleysanlegan hnút. Ekkert hefur komið fram annað en það, að hæstv. ríkisstj. ætli að hunza algerlega óskir sjómanna í þessu alvarlega máli. Hún virðist staðráðin í að svara erindi og áskorun sjómannasamtakanna um endurskoðun laganna með þögninni einni. Það er hins vegar skoðun okkar Alþb.-manna, að skylda Alþ. til athafna í því skyni að forða ófarnaði sé ótvíræð. Við höfum því, þrír þm. Alþb., þeir hv. 4. landsk. þm. og hv. 8. landsk. þm. ásamt mér, flutt um þetta mál á þskj. 130 þáltill., sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta.

Nd. Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 79 31. des. 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Nefndin geri fyrir n.k. áramót tillögur um breytingar á lögunum á þann veg, að ákvæði þeirra verði ekki þrándur í götu samninga sjómanna og útgerðarmanna um kaup og kjör á næsta ári. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar eftirtalinna aðila: Sjómannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiski- mannasambands Íslands og sjávarútvegsmálaráðuneytisins.“

Í till. þessari er gert ráð fyrir, að dýrmætur tími verði ekki látinn líða lengur, þannig að ekkert sé gert til þess að reyna að hindra, að ákvæði þeirra laga, sem ég hef hér rætt um, valdi stöðvun fiskiskipaflotans á næstu vertíð. Eftir áramótin hefst aðalbjargræðistími þjóðarinnar. Á miklu ríður, einkum nú, þegar atvinnuleysi ríkir víða um land, að aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnarvalda hindri ekki eðlileg störf í framleiðslunni á þeirri vertíð, sem fram undan er. Fátt geta valdhafar á Íslandi gert jafnfráleitt og ætla að neita sjómönnum um sjálfsagðan rétt til lífvænlegra kjara. Fátt geta íslenzk stjórnarvöld gert vanhugsaðra en að beita valdi sínu til að reyna að knýja sjómenn til að sætta sig við laun, sem þeir geta ekki við unað, laun, sem eru miklum mun lægri en stéttarbræðra þeirra í nálægum löndum. Störf sjómanna eru grundvöllur alls okkar efnahagskerfis. Á starfi þessara örfáu þúsunda landsmanna byggist afkoma allrar þjóðarinnar. Ef til ætti að vera nokkur sérréttindastétt með þjóðinni, þá væru það þessir menn. En það er öðru nær en að mulið hafi verið undir þá að undanförnu. Það er háskalegur misskilningur og furðuleg skammsýni, ef ráðamenn þjóðarinnar halda, að unnt sé að bæta hag útgerðarinnar með því að skerða eða halda niðri kjörum sjómanna. Það mun jafnan sannast fyrr en varir, að slík stefna er tilræði við útgerðina. Ef hún þarf einhvers með, verður það að koma annars staðar frá en af hlut sjómanna. Útgerðin og þjóðin öll þarf einskis fremur með en þess, að þeir menn, sem búa yfir því þreki, þeim dug og þeirri kunnáttu, sem þarf til þess að sækja sjó hér norður í höfum í svartasta skammdeginu, sækist eftir störfum á íslenzkum fiskiskipum. Til þess þarf góð launakjör og stórum betri en þau eru í dag. Þess vegna þarf löggjafinn að gæta hér hagsmuna allrar þjóðarinnar með því að stuðla að því, að komið verði til móts við óskir sjómanna í þessum efnum. Því miður virðist skilningur núverandi stjórnarflokka á kjaramálum sjómanna og raunverulegum hagsmunum útgerðarinnar í þessu efni harla takmarkaður, að ekki sé meira sagt. Till. okkar flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, er miðuð við þessa staðreynd og gengur því ekki lengra en svo, að von sé um að hún fáist samþ.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.