17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er áreiðanlega rétt, sem hér hefur komið fram, að það er víðar þörf að samræma gjöld Landssímans heldur en á því svæði, sem þessi þáltill. fjallar um. Það hefur stundum komið til tals að gera landið allt að einu gjaldsvæði, en á því eru vafalaust ýmsir annmarkar, en mér finnst, að það eigi að leggja áherzlu á það að jafna sem allra mest fjárhagslegu aðstöðuna, jafna sem allra mest aðstöðu landsmanna til að notfæra sér símakerfið. Munurinn er ákaflega mikill á milli sjálfvirka kerfisins, þar sem það er komið, og svo þess gamla. Hann hverfur smátt og smátt, eftir því sem sjálfvirka kerfið færist út, en ég held, að munurinn sé líka nokkuð mikill fjárhagslega. Ég er hræddur um, að fjarlægustu landshlutarnir, þeir landshlutar, sem lengst liggja í burtu frá höfuðborgarsvæðinu, t.d. Austurland, búi raunverulega við einna dýrasta þjónustu hvað þetta snertir. Mér þótti vænt um að heyra yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, að þetta mál í heild sé í skoðun hjá Landssímanum, og ég vil þá a.m.k. mega vænta þess, að þetta atriði verði alveg sérstaklega haft í huga við þá skoðun, að leitazt verði við að gera öllum landsmönnum sem allra jafnast undir höfði, einnig hvað snertir kostnaðarhliðina.

Ég skal ekki tefja hv. þd. að öðru leyti. Ég vil aðeins benda hv. þm. Reykn. á eins konar vinnuhagræðingu, sem a.m.k. þm. Austf. hafa komið á hjá sér, með því að ræða jafnan málefni kjördæmisins á sameiginlegum fundum sínum, áður en þeir bera þau fram á hv. Alþingi.