17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. flm. hefur e. t. v. ekki heyrt það, sem ég sagði áðan, að sveitarstjórinn í Mosfellshreppi hefði skrifað póst- og símamálastjórninni í vetur, snemma í vetur, og óskað eftir því, eins og hann orðaði það, að símagjöldin á Brúarlandssvæðinu yrðu lækkuð og samræmd við Reykjavík. Og það var í tilefni af því bréfi, að sú endurskoðun fer fram, sem ég áðan lýsti.

Það er út af fyrir sig alveg meinlaust að mínu áliti, þótt hv. flm. þessarar till. þakki flutningi hennar, að þessi endurskoðun er komin af stað hjá Landssímanum, en ég tel rétt að hafa það sem sannara er og endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er vegna bréfs hreppsnefndarinnar í Mosfellshreppi, að endurskoðunin var sett í gang nú í vetur.