16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

197. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Samkv. ræðu síðasta ræðumanns um þáltill. um eflingu Landssmiðjunnar kom fram, að ýmist svífur þetta fyrirtæki að hans dómi í lausu lofti eða það skilar góðum hagnaði samkvæmt ársreikningum fyrirtækisins. Hvað því við kemur, að ég sagði, að fyrirtækið hefði á þessu síðasta ári verið rekið með tapi að upphæð u.þ.b. 1.4 millj., nánar tiltekið í októbermánuði, þá er það alveg rétt. Hins vegar hefur verið stillt upp öðrum reikningum, og þeir gefa ekki til kynna neinn hreinan hagnað fyrirtækisins, miðað við það fjármagn, sem í því er bundið. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér, einkum og sér í lagi vegna þess, að ég gerði grein fyrir því hér ekki alls fyrir löngu, að ég hefði gert ráðstafanir til þess, að fjárhagur fyrirtækisins og rekstrarmöguleikar væru kannaðir af Framkvæmdasjóði Íslands, og sú athugun fer nú fram. Hins vegar hef ég fengið frestað uppboði á þessu arðvænlega fyrirtæki fram yfir lok maímánaðar, fram til 1. júní, meðan þessi athugun fer fram og athugaðir eru möguleikar á því að afla fyrirtækinu nægilegs fjármagns til rekstrar. Það er einkennileg lýsing á fyrirtæki, sem á að ganga vel og vera með góðan hagnað samkvæmt reikningum sínum, að stöðugt þurfi að vers að fresta á því uppboðum, af því það stendur ekki í skilum með opinber gjöld. Þannig hefur staðreyndin verið og er í dag. Annars var ræða hv. 6. þm. Reykv. að ákaflega litlu leyti um Landssmiðjuna, heldur upplestur á grg. um þurrkví í Reykjavík, sem áformuð hefur verið af hafnarstjórn Reykjavíkur, hafnarstjóra og öðrum mönnum, sem hann hefur kvatt til nefndarstarfa. Það hefur aldrei verið gert ráð fyrir í þessari skýrslugerð, að málmiðnaðurinn legði neitt sérstaklega af mörkum til að byggja þurrkvína, heldur að komið yrði upp einhverjum sameiginlegum verksmiðjurekstri málmiðnaðarfyrirtækjanna í sambandi við viðgerðir þurrkvíarinnar og í framtíðinni stálskipasmíði, eins og vikið var að.

Það er svo margt í þessari ræðu, sem ég tel, að þurfi að athugast, að það væri óverjandi að vísa þessu máli ekki til n:, og legg ég til, að því verði vísað til fjhn.