16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

197. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér kemur það mjög á óvart, þegar hæstv. iðnmrh. kemur hér og vefengir reikninga Landssmiðjunnar. Ég er hér með þessa reikninga, og ég greindi frá því áðan, hver væri niðurstaða þeirra. Þar er gerð grein fyrir því, að fyrirtækið hafi bæði lagt í varasjóð vegna fyrningar og haft tekjuafgang. Er hæstv. ráðh. að gefa í skyn, að þessir reikningar séu falsaðir? Hefur hæstv. ráðh. einhverja ástæðu til þess að vefengja það, að ráðamenn fyrirtækisins hafi gert þessa reikninga upp á eðlilegan hátt? Ég tel, að það séu ákaflega alvarlegar getsakir, sem hæstv. ráðh. kemur með; að reikningar þessa fyrirtækis séu ekki réttir. Ef hæstv. ráðh. hefur ástæðu til þess að bera slíkar getsakir á fyrirtækið, þá tel ég, að honum beri skylda til að sanna þær sakir. Og ég skil ekki í öðru en að forustumenn fyrirtækisins, þeir, sem hafa samið þessa reikninga, geri sjálfir þá kröfu, að hæstv. ráðh. standi við þau orð, sem hann mælti hér áðan um þessi vinnubrögð. Hitt er mér fullkunnugt, að þetta fyrirtæki hefur átt í margvíslegum efnahagslegum vanda, en það stafar af því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki sinnt því á sama hátt og hún hefur sinnt ýmsum einkafyrirtækjum á Íslandi. Það hefur t.d. ekki gerzt, að varið væri 28 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði til þess að hjálpa Landssmiðjunni út úr erfiðleikum, til þess að gera henni kleift að endurnýja aðstöðu sína til starfa. Landssmiðjan hefur ekki notið þeirrar velvildar af hálfu hæstv. ríkisstj., sem ýmsir einkaaðilar hafa notið. En þar hefur ekki staðið á fjármagni til að koma í veg fyrir, að þau fyrirtæki yrðu gjaldþrota. Þeim hefur mörgum verið bjargað á mjög annarlegum forsendum. Þar hefur vissulega verið um mikilvæg fyrirtæki að ræða, en það, sem vakað hefur fyrir hæstv. ríkisstj., hefur fyrst og fremst verið að bjarga tilteknum einstaklingum. Þessa sögu væri hægt að rekja í löngu máli, en hana þekkja allir, og mér finnst það ekki sæma hæstv. ráðh., þegar vitað er um þessi afskipti af einkafyrirtækjum, að koma hér upp í ræðustól og tala á hrokafullan hátt um það, að Landssmiðjan liggi undir uppboði, þetta mikilvæga ríkisfyrirtæki, sem hæstv. ráðh. ber skylda til að vernda sérstaklega. Mér þótti það afar fróðlegt, að hæstv. ráðh, vildi ekki fallast á þá hugmynd mína, að hv. alþm. yrði gefinn kostur á að marka stefnuna, að því er framtíðina varðar. Það liggur fyrir, að Alþfl. hefur stöðvað till. hæstv. ráðh. um að leggja Landssmiðjuna niður, og er því ljóst, að Alþfl. vill halda starfsemi Landssmiðjunnar áfram. Ég veit ekki betur en sú till., sem hér liggur fyrir, flutt annars vegar af mér og hins vegar af einum þm. Framsfl., sé í samræmi við skoðanir þessara tveggja flokka. En þá er um að ræða þingmeirihluta fyrir því að halda Landssmiðjunni áfram raunverulega, með því að leggja til það fjármagn, sem þarf til að reka fyrirtækið. Og þegar svo er ástatt, þá er það hreinlega skylda, að Alþ. fái að marka stefnuna, og að hæstv. ráðh. verði svo að framkvæma vilja Alþ. á þessu sviði. Ég held, að það væri algjörlega rangt að farið, ef senda ætti þessa till. til nefndar í því skyni að svæfa hana, eins og vafalaust er tilgangur hjá hæstv. ráðh. Mál ganga ekki það fljótt í nefndum hér, að þess sé nokkur von, að sú till. kæmi frá nefnd, áður en Alþ. er sent heim. En hér þarf snöggar ákvarðanir, vegna þess að till. ráðh. um að leggja Landssmiðjuna niður liggur fyrir hæstv. ríkisstj.

Ég vil skora á hv. alþm. að fallast á það sjónarmið, að Alþ. fái að taka afstöðu til þessa máls á þann einfalda hátt að greiða atkv. um þessa till. Till. fjallar aðeins um það að gerðar skuli áætlanir, sem lagðar verði fyrir næsta þing. Það eru ekki aðrar og alvarlegri ákvarðanir, sem þar er um að ræða, aðeins sú viljayfirlýsing, að menn vilji, að þetta fyrirtæki haldi áfram að starfa. En það er kannske sá vilji, sem ekki má koma fram í dagsljósið að mati hæstv. ráðh.