22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

20. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 26. marz í vor bar ég upp við hæstv. heilbrmrh. þá fsp., hvað liði fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. um að stækka fæðingardeild Landsspítalans og tryggja þar húsrými fyrir kvensjúkdómadeild með fullkominni aðstöðu til geislalækninga. Ástæðan til þess að ég bar fram þessa fsp., er alkunn. Bandalag kvenna hafði vakið athygli okkar alþm. á algeru neyðarástandi á þessari deild, þar á meðal á þeirri geigvænlegu staðreynd, að sumar tegundir legkrabba eru tvöfalt mannskæðari hér en í löndum með nútímalega læknisþjónustu á þessu sviði og sjúkrarúm fyrir kvensjúkdóma þyrftu að fimmfaldast, ef hér ætti að vera svipuð aðstaða og í ýmsum grannlöndum okkar. Af svari hæstv. heilbrmrh. kom í ljós, að hann hafði ekki fyrirætlanir um skjótar aðgerðir á þessu sviði. Hann taldi, að ekki yrði unnt að ráðast þegar í stað í framkvæmdir.

Þannig voru svör hæstv. heilbrmrh. 26. marz í vor. En að þessu sinni gerðist meira en það, að fsp. væri flutt og henni svarað, en málavextir gleymdust síðan flestum. Konur fjölmenntu á þingpallana, þegar fsp. var á dagskrá og áhugi þeirra leiddi til þess, að fjölmiðlunartæki gerðu þessu máli mun betri skil en almennt tíðkast. Og konurnar héldu áfram að fjölmenna hingað í alþingishúsið í hvert skipti, sem á dagskrá voru þáltill. fluttar af hv. þm. Einari Ágústssyni og hv. þm. Hannibal Valdimarssyni, þar sem skorað var á hæstv. ríkisstj. að hefja framkvæmdir tafarlaust. Þessi tengsl okkar alþm. við almenning utan veggja þessa húss höfðu greinilega áhrif á gang þessa máls. Undirtektir hæstv. heilbrmrh. urðu þeim mun jákvæðari, sem lengur var um málið fjallað, og þegar Alþ. var sent heim, virtust góðar líkur á því, að framkvæmdahraði af hálfu hæstv. ríkisstj. yrði mun meiri en hæstv. heilbrmrh. hafði gefið vonir um 26. marz.

En konurnar voru samt ekki á því að segja skilið við þetta baráttumál sitt. Samtök kvenna hófust handa um fjársöfnun til þess að aðstoða hæstv. ríkisstj. og ýta undir hana. Hafa margar konur unnið mjög ötullega að því verkefni, og mun söfnunarupphæðin nú vera um 4 millj. kr. Þannig má segja, að baráttan fyrir þessu máli hafi staðið óslitið frá því að málið var tekið upp hér á þingi og allt til þessa dags, og ég tel þá samvinnu, sem þarna hefur tekizt á milli Alþ. og kvennasamtaka, vera til mikillar fyrirmyndar. Á svipaðan hátt mættu fleiri samtök snúa sér til Alþ., fylgjast með störfum okkar og reyna að hafa áhrif á þau. Í rauninni ætti svo til hvert mál, sem fjallað er um hér á þingi, að vekja bergmál meðal almennings.

Vegna þess hver ferill þessa máls hefur verið þótti mér eðlilegt, að hæstv. heilbrmrh. greindi frá því í upphafi þessa þings, hvernig nú er fyrirhugað að haga framkvæmdum við stækkun fæðingardeildarinnar og skipulagningu nútímalegrar kvensjúkdómadeildar. Þm. eiga heimtingu á að fá þá vitneskju, enn fremur kvennasamtökin, sem sneru sér til okkar í vor og það fólk um land allt, sem hefur tekið þátt í hinni myndarlegu söfnun. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. greini frá því, hvað undirbúningi sé langt komið; hvenær hafizt verði handa um framkvæmdir og hvenær vænta megi þess, að þeim ljúki, hver heildarkostnaður muni verða og hvort hann telji, að þær 10 millj., sem gert er ráð fyrir til þessa verkefnis í fjárlagafrv. næsta árs, séu fullnægjandi fjárveiting.