22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ætli ég verði ekki að svara Jónasi Árnasyni, hv. 4. landsk. þm., en ekki Óla á Þórshöfn og snúa mér þá fyrst að fsp., sem þeir hafa borið fram, hann og hv. 6. landsk. þm.:

„Hve margir voru úthaldsdagar íslenzkra varðskipa í mánuði hverjum á s.l. ári og það sem af er þessu?“

Á árinu 1968 eru úthaldsdagar varðskipanna þannig samanlagt: í janúar 79 dagar og 19 stundir, í febrúar 83 dagar og 3 stundir, í marz 75 dagar og 7 stundir, í apríl 66 dagar og 11 stundir, í maí 69 dagar og 23 stundir, í júní 77 dagar, — og ég sleppi nú þessum brotum, sem litlu skipta, — í júlí 66 dagar, í sept. 72 dagar, í okt. 70 dagar, í nóvember 69 dagar, og í desember 67 dagar. Þetta verða samtals á árinu 864 úthaldsdagar varðskipanna. Þá kemur árið í ár, 1969. Þar eru úthaldsdagar sem hér segir:

í janúar 69 dagar, í febrúar 64 dagar 17 stundir, í marz 88 dagar 23 stundir, í apríl 97 dagar, í maí 83 dagar, í júní 96 dagar, í júlí 61 dagur, í ágúst 68 dagar og í sept. 65 dagar. Þetta verða samtals, 3/4 hluta ársins 1969, 694 dagar. Ef við tökum fjórða partinn af hinni tölunni, þá mundu á sama tíma í fyrra hafa verið heldur færri úthaldsdagar, eða eitthvað um 660, sýnist mér, á móti 694 núna, á sama tíma. Ég skal ganga svolítið út fyrir fsp., því að henni er í raun og veru svarað með þessu, en það er dálítið upplýsandi þá fyrir menn að fá samanburð svolítið aftur í tímann, hvað úthaldsdagarnir eru margir í heild. Það eru árið 1965: 879 dagar, þ.e. allt árið, og árið 1966 848 dagar, 1967 909 dagar, 1968 864 dagar og 1969, eins og ég sagði, fram að 1. okt. 694 dagar. Úthaldið á mánuði þessi ár, ef því er deilt jafnt niður á mánuðina, er: 1965 70 dagar, 1967 75 dagar, 1968 72 dagar og 1969 77 dagar, eða flestir úthaldsdagar á árinu í ár. Mér skilst hins vegar, að mönnum finnist, að gæzlunni sé eitthvað ábótavant og að hún hafi dregið eitthvað úr sinni vöku, og er ágætt, að rætt sé um það, ef mönnum finnst svo. Ég lýsti þessu, og þá kom það fram, og mér er ánægja að gefa upplýsingar um þetta, eins og Landhelgisgæzlan hefur látið mér þær í té. Ég sagði það einnig í fyrra, þegar við vorum að ákveða lög um breytingar á fiskveiðiheimildunum innan landhelginnar, að þeirri löggjöf, sem þingið gengi frá þannig, mundi verða framfylgt, og henni hefur verið framfylgt. Það kann að vera, að einhverjir misbrestir séu á einhverjum stöðum, eins og látið er að liggja í þessari Morgunblaðsgrein, sem var lesin, og það er ekki nema sjálfsagt að athuga það nánar og þær óskir, sem þar koma fram, þær er sjálfsagt að taka til greina.

Eftirlitið er töluvert mikið, eins og t.d. sést af því, sem Landhelgisgæzlan hefur látið mér í té, og það er til fróðleiks að ég get um það hér, en ekki til að svara þessari fsp., hvaða tala skipa var við strendur landsins 19. okt. 1969, núna fyrir nokkrum dögum. Það gefur til kynna, að hún hefur nokkurt yfirlit yfir þetta, einmitt með fluggæzlunni, sem síðar kannske kallar á frekari flutning á skipum, eftir því sem upplýsingarnar koma fram frá fluginu. Hv. þm. hefðu kannske gaman af að heyra þetta. Það eru 10 togbátar í hólfi á Breiðafirði, 8 erlendir togarar undan Bjargtöngum og Blakksnesi, 12 togbátar í hólfi undan Straumnesi, 4 erlendir togarar undan Straumnesi, 1 togbátur í hólfi undan Horni, 4 erlendir togarar undan Horni, 2 erlendir togarar undan Skaga, 2 togbátar í hólfi undan Mánáreyjum, 6 erlendir togarar undan Rauðanúp, 5 togbátar og einn íslenzkur togari í hólfi við Langanes, 12 erlendir togarar undan Langanesi, 2 erlendir togarar undan Digranesi, 3 erlendir togarar undan Glettinganesi, 8 erlendir togarar undan Hvalbak, 2 togbátar og einn íslenzkur togari í hólfi við Hvalbak, 10 togbátar í hólfi við Ingólfshöfða, þar af tveir innan línu, 6 erlendir togarar undan Skarðsfjöruvita, 1 togbátur í hólfi undan Skarðsfjöruvita, 5 íslenzk togskip í hólfi undan Vík í Mýrdal, 3 íslenzk togskip í hólfi undan Krýsuvíkurbjargi, 28 íslenzk síldarskip undan Krýsuvíkurbjargi og 8 togbátar í hólfi undan Miðnessjó. Á þessum degi hefur þannig Landhelgisgæzlan með flugþjónustu sinni fengið yfirsýn yfir 142 skip samtals og hvar þau eru staðsett við landið.

Nú er það svo, — og ég veit, að menn hafa tekið eftir því, — að Óðinn hefur legið mikið hér í höfninni og Albert einnig stundum. En það hefur verið gerð áætlun um rekstur Landhelgisgæzlunnar og úthald skipanna og í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir því að reyna að draga dálítið úr úthaldi gömlu skipanna. Það var skoðun Landhelgisgæzlunnar og dómsmrh., að það ætti að vera hægt með þeim flugkosti, sem við höfum, og eftir að hinn nýi Ægir var kominn til sögunnar, án þess að Landhelgisgæzlan eða varðgæzlan þyrfti að líða fyrir það. Þá voru áætlanir uppi um það, að Óðinn lægi hálft árið eða yrði ekki gerður út raunverulega nema hálft árið og Albert væri mikið til í hvíld. Þetta kynni auðvitað að breytast, ef einhverjar breyttar ástæður kæmu fram, skipin yrðu fyrir óhöppum o.s.frv., en þá var hugsunin sú, að sjálfri landhelgisgæzlunni ætti að vera hægt að sinna með því að leggja meiri áherzlu á, að hin stóru skip, Óðinn og Ægir, væru jafnan á sjó austan og vestan lands, eða einhvers staðar á því svæði, í tengslum við fluggæzluna og svo minni vélar þar fyrir utan við gæzlu, bæði þyrlan og minni vélar, sem Landhelgisgæzlan hefur leigt til þess að gæta bátanna, sem er töluvert erfitt verk, því að ekki er hægt að neita því, að nokkur er ágangur þeirra í landhelginni. Þannig var álitið að mundi vera hægt að sinna þessu, en til viðbótar kom svo það, að vitaskipið Árvakur var flutt frá vitamálastjórninni til Landhelgisgæzlunnar og er nú ekki lengur vitaskip, heldur varðskipið Árvakur, en Landhelgisgæzlan í heild tók þá jafnframt að sér það hlutverk að sjá vitamálastjórninni fyrir gæzlu vitanna, ekki endilega með Árvakri nema það væri hentara, heldur líka með öðrum skipum, sem Landhelgisgæzlan hefði í það og það skiptið á hentugum stöðum í sambandi við landhelgisgæzluna. Það má því segja, að þarna hafi skipið Árvakur bætzt við landhelgisgæzluflotann eða varðskipaflotann. Menn verða líka að hafa það í huga, að fiski- og hafrannsóknum sinnti Landhelgisgæzlan töluvert mikið hér áður, og gamli Ægir var í raun og veru, kannske hálft árið, í slíkum rannsóknum, en nú, þegar Hafrannsóknastofnunin er komin til og Árni Friðriksson — og svo náttúrlega enn þá fremur þegar Bjarni Sæmundsson kemur, — hefur Landhelgisgæzlan ekki þurft að sinna þessum verkefnum, sem eru bæði síldarleit og hafrannsóknir, eins og hún gerði áður með því að lána sín skip til þeirra. Hafrannsóknastofnunin hefur séð um það með sínum skipum og þeim skipum, sem hún hefur leigt til þess. Forstjóri Landhelgisgæzlunnar tjáir mér, að almenn aðstoð við bátaflotann hafi raunverulega minnkað, nema í verstu veðrum og á afskekktum stöðum, aðallega vegna hinnar miklu fjölgunar nýrra, stórra og vel búinna fiskiskipa, svo og tveggja aðstoðarskipa í einkaeign, Lóðsins og Goðans, sem alltaf halda sig þar, sem bátafjöldinn er mestur. Á móti hefur komið aukinn sjúkra- og læknaflutningur, svo og almennir fólksflutningar úti um land á vetrum, þegar samgönguerfiðleikar steðja að, að ótalinni hjálp vegna hafíssins, en eins og kunnugt er var töluvert álag á Landhelgisgæzlunni þá. Því er ekki að leyna, að nýja reglugerðin um veiðar íslenzkra skipa innan fiskveiðilandhelginnar hefur aukið mjög kröfurnar til gæzlunnar, ekki sízt fluggæzlunnar, og eins og ég sagði áðan, þá hafa litlar flugvélar reynzt mjög vel til þeirra þarfa yfir sumartímann og hafa því verið leigðar til þess eftir þörfum í mörg ár.

Ég hygg, að í raun og veru sé ástæðulaust fyrir mig að gefa frekari upplýsingar vegna þeirrar fsp., sem hér hefur verið borin fram, og henni sé fullsvarað. Skal ég því ljúka máli mínu og ekki hafa um þetta fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist.