22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (3518)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör, sem hann gaf okkur Óla Þorsteinssyni á Þórshöfn, svör við brennandi spurningum, sem varða hag fólks víðs vegar með ströndum þessa lands. Ég verð að játa, að fsp., þar sem hún talar um úthaldsdaga, knýr ekki beinlínis á um glögg svör, getum við sagt, vegna þess að þegar ég fór að kynna mér málið, þá kom það upp úr dúrnum á skrifstofu Landhelgisgæzlunnar, að úthaldsdagar varðskipanna teljast þeir dagar, sem líða frá því, að skipin fara úr höfn hér í Reykjavík og þangað til þau sigla aftur inn í sömu höfn. Hitt mun hins vegar rétt, að þau liggja yfirleitt ekki lengi í öðrum höfnum, þó að það komi raunar fyrir. En þau hafa; eins og hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, ýmsum öðrum störfum að gegna varðandi vitana og fleira, og úthaldsdagar varðskipanna eru sem sagt ekki það sama og gæzludagar innan landhelginnar, eða við landhelgina.

Það kom líka fram í orðum hæstv. ráðh. hér áðan, að meginástæðan til þess, hversu slælega eru rekin trippin í landhelgismálunum, er sú, að stjórnarvöldin telja sig þurfa að spara svo á þessum vettvangi. Ég get hætt ýmsu við þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan. Eins og hann sagði, hefur eitt hinna stóru skipa Landhelgisgæzlunnar, — en þau eru eins og menn vita Ægir, Óðinn og Þór, — eitt þeirra, það síðast nefnda, Þór, — það er Þór, en ekki Óðinn, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan. Honum hefur að sjálfsögðu orðið mismæli, — legið bundið í höfn hálft árið, og annað tveggja smærri skipanna, — en þau eru Árvakur og Albert, — annað þeirra, Albert, legið í höfn allt árið um kring. Landhelgisgæzlan fær ekki einn einasta eyri til þess að halda því skipi úti.

Ég hygg sem sé, að niðurstaðan af þessu verði óumdeilanlega sú, að landhelgisgæzlan sé allsendis ófullnægjandi. Flugvélar koma að vísu að nokkrum notum, en aðeins meðan bjart er. Þegar haustar að og dimmir, eins og Óli Þorsteinsson sagði í sinni klausu, og landhelgisbrot færast í aukana, þá koma skipin aðeins að notum og þó því aðeins, að því er mér skilst, hvað snertir minni togskipin, togbátana a.m.k., — en veiðarfæri þeirra eru svo létt, að þau verða dregin upp í skyndi, — að skip Landhelgisgæzlunnar geti legið við svo að segja á sömu slóðum og togbátarnir eru að veiðum hverju sinni, þannig að þeir geti alltaf átt yfir sér, að varðskip sigli upp að þeim. Til þess að halda stærri togskipum, þ.e. togurum, sem við nefnum svo, utan löglegra marka, skilst mér, að nóg sé, að þeir viti af varðskipi einhvers staðar í ekki allt of miklum fjarska, því að það tekur lengri tíma þar að koma veiðarfærunum inn. Landhelgisgæzlan hefur orðið að notast allmikið við leiguflugvélar, og slíkt er að sjálfsögðu með öllu óviðunandi. Hún hefur aðeins eina þyrlu til umráða, en þyrlan er hið mesta þarfaþing við landhelgisgæzlu og einnig má hafa af henni not á ýmsum öðrum sviðum, eins og t.d. til björgunarstarfa. Ef sæmilega ætti að skipast um þessi mál, þyrfti Landhelgisgæzlan eflaust að eiga 2–3 þyrlur til viðbótar jafnframt því, sem hún þyrfti auðvitað að fá fjármagn til þess að halda úti öllum sínum skipum allt árið um kring. Smámunalegur sparnaður á þessu sviði getur reynzt býsna dýr og mun eflaust með vaxandi ágangi togskipa á friðuðum svæðum valda slíku tjóni varðandi fiskstofnana, að nema muni í beinu fjárhagslegu tilliti margfaldri þeirri upphæð, sem sparast með því að skera við nögl, eins og nú er gert, fjárframlög til landhelgisgæzlu.