22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að í fyrra, á síðasta Alþ., var með miklum erfiðismunum sett ný löggjöf um togveiðar í landhelgi, hversu nota skyldi landhelgina til togveiða. Þá var henni skipt niður í hólf í þessu tilliti og fer ég ekki að rekja þá sögu. En þetta starf var unnið af mikilli nauðsyn og knýjandi nauðsyn, því að áður en þessar nýju reglur voru settar, hafði landhelgisgæzlan í raun og veru brotnað niður, eins og kunnugt var. Framkvæmd landhelgislöggjafarinnar hafði brotnað niður og er af því öllu mikil saga, sem ég ætla ekki að rifja upp, því að hún er hv. þm. svo nauðavel kunnug.

Nú er lífsnauðsyn, að ekki fari aftur á sömu lund, og því var lýst hér yfir með sterkum orðum, þegar þessi nýja skipan var á sett, að nú mundi þess verða gætt, að löggjöfin yrði í heiðri höfð, og enn fremur yrði með öruggri gæzlu stuðlað að því, að ekki yrðu á vegi fiskimanna of miklar freistingar í þessu efni. En það er stór liður í þessu máli að veita aðhald, að freistingar séu ekki mjög á vegi veiðimanna í þessu tilliti, sem sé, það þarf skynsamlegt aðhald í gæzlunni og er það áreiðanlega einnig bezt fyrir þá.

Nú óttast menn mjög, eins og hér hefur komið fram, að hætta sé á ferðum, og það kemur í ljós, að varðskip hafa verið látin liggja til þess að spara, vegna peningaskorts og vegna þess, að fjárveiting hefur verið of naumt skorin, að mér skilst, til landhelgisgæzlunnar. Það er áreiðanlega mjög slæmt og mikið tjón, að þannig hefur farið, vegna þess að vafalaust veitir ekki af öllum skipakostinum til þess að reyna að halda vel í horfi eða réttara sagt koma þessum málum í betra lag en verið hefur.

Það er augljóst, að það er miklu meiri vinna að gæta landhelginnar eftir þessa nýju skipun en áður. Og það hygg ég, að menn verði að hafa fast í huga og hafa kannske ekki til fulls áttað sig á, fyrr en þeir nú standa frammi fyrir því verkefni, sem það er, að gæta þessara hólfa, því að það er auðvitað miklu, miklu meiri vinna. Manni virðist því, að alls ekki megi draga úr því landhelgisafli, sem áður hefur verið til afnota. Ég kem því þar máli mínu, og skal ekki hafa um það langa ræðu, að ég vil skora á hæstv. ráðh. að skoða þetta mál, gera úttekt á þessu máli, úttekt á gæzlunni og ástandinu í þessum málum nú með sem mestum hraða næstu vikur, áður en gengið verður frá fjárlögum og fjárveiting til þessara mála verði endurskoðuð í samanburði við þá niðurstöðu, sem fæst af þeirri skoðun, og Alþ. fái mynd af þessu, áður en gengið verður frá fjárlögum fyrir næsta ár. Þá verði gengið í það að veita nægilegt fé, það fé, sem ráðh. þarf að fá, til þess að hann telji sig geta haldið uppi gæzlunni, því að maður skilur það, að fái ráðh. alls ekki það fé, sem þarf til þess að framkvæma gæzluna, þá er ekki von, að hann geti framkvæmt þessi mál á þann hátt, sem hann vill.

Ég vil þess vegna nota tækifærið í þessum umr. til þess að óska eftir því, að ráðh. geri sér nú grein fyrir þessu, endurskoði þessi mál næstu vikurnar, láti fjvn. og Alþ. vita, hvað hann telur sig þurfa að fá, til þess að þessi mál geti verið í góðu lagi. Það er náttúrlega alger hégómi, hvort það er 10 millj. meira eða minna, sem þarf að verja til gæzlunnar samanborið við þau stórkostlegu verðmæti, sem hér eru í húfi, því að hér er hvorki meira né minna í húfi en það, hvort við getum haldið uppi réttarreglu í þessu eða ekki, hvort við getum stjórnað því, hvernig landhelgin er nýtt eða ekki. Ef það kemur í ljós, að við teljum okkur t.d. svo fátæka, að við getum ekki haft umsjón með því, að landhelgin sé notuð eftir settum reglum, þá liggur það fyrir, að við höfum gefizt upp við það að halda uppi réttarreglu í þessu tilliti, og getum ekki horft framan í nokkurn mann og sízt þá, sem við þurfum að horfast í augu við í sambandi við landhelgismálin og fiskveiðarnar innan landhelginnar. Við verðum sem sagt að sýna, að við getum skipað þessum málum skynsamlega og séð um, að réttum reglum sé fylgt, og ég vil lýsa stuðningi mínum við ráðh. í því, að hann fái þá peninga, sem hann telur sig þurfa til þess að hafa góða skipun á landhelgisgæzlunni og fer fram á við hann, að hann gangi í að gera úttekt á þessu og láti fjvn. og Alþ. vita, hvað hann telur sig þurfa.