22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla með nokkrum orðum að segja frá minni skoðun í þessu máli. Raunverulega fagna ég því, að þetta mál allt sem heild skuli koma til umr., þó að fsp. hafi verið hálfþröng. Varðandi sjálfa úthaldsdagana verð ég að lýsa undrun minni yfir því, hvað þeir eru fáir, því að venjulegur fiskibátur hefur um 280–320 úthaldsdaga og virðist manni það ekki vera ofraun svo góðum skipum, sem varðskipin eru talin, að vera með svipaða úthaldsdaga á hvert skip. En mér virðist, að það sé ekki á yfirlitinu, sem var gefið hér áðan.

Það er augljóst mál, eins og hv. síðasti ræðumaður fjallaði um og undirstrikaði mjög vel, að það er grundvallaratriði, að núgildandi reglur um nýtingu landhelginnar séu haldnar og menn fari eftir þeim í hvívetna, vegna þess að samþ. var hér á Alþ. í vor að gera ákveðna tilraun til hagnýtingar á landhelginni með auknum togveiðum. Síðan á Alþ., í árslok 1970, að framlengja þessi lög eða breyta til og verði ekki haldið rétt á málunum þennan tíma, tekur Alþ. ákvörðun, sem byggð er á rangri niðurstöðu. Þess vegna vil ég mjög undirstrika það, að hér sé staðið af fullum krafti í ístaðinu, þannig að ekki verði lát á, og örfáum skipstjórum, sem hafa löngun kannske í dag til að byrja að brjóta, haldist það ekki uppi, því að ég fullyrði, eftir samtöl við marga skipstjóra, að það eru mjög fáir skipstjórar, sem kæra sig um að fara inn fyrir í dag, eða hafa til þess vilja. En hitt er svo annað mál, að haldist þeim uppi að fara inn fyrir, þá fréttist það fyrr eða síðar út og það dregur aðra á eftir sér og þar með er ógæfan skollin yfir. Það má ekki eiga sér stað. Ef fé skortir til þess að halda uppi rétti og lögum á sjónum, verður Alþ. að veita slíkt fé. Hvort það verður í formi kaupa á annarri þyrlu eða nýju skipi, minna skipi, eða öðru fyrirkomulagi, þarf að athugast, og þar um er Landhelgisgæzlan sjálf hæfust að gera tillögur, en það verður þá að koma fram. Við getum ekki látið þessi mál eins og vind um eyru þjóta, vegna þess að þau eru það mikilvæg, sérstaklega þegar haft er í huga, að síldveiðarnar eru að fjara út eða svo lítur út fyrir í dag, þá munu flestir bátar, sem voru áður á síldveiðum, sækja inn á togveiðarnar, og þar með margfaldast ásókn í togveiðarnar hér við land. Fari svo, að gæzlan sé ekki trygg og örugg og skipstjórar sjái sér ekki hag í því að halda settar reglur, þá ríkir hér fyrr eða síðar algert ófremdarástand. En almenningsálitið í dag er svo sterkt, að það er alveg á móti slíkri þróun og það mun veita Alþ. fullan stuðning og góðar undirtektir. Það er mín persónulega skoðun, að leggja beri nægilegt fjármagn fram, svo að gæzlan sé trygg og örugg. Við getum ekki annað, okkur er ekki sæmandi annað en halda þessa reglu vel og taka síðan um það ákvörðun, þegar að því kemur, hvað gera skuli við næsta skref, annars er voðinn vís. Ég fagna því, að þetta skuli koma hér til umr., vegna þess að málið er það mikilvægt, að ekki er hægt að horfa á það þegjandi.