29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (3526)

39. mál, landgræðsla

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar, og vil svo aðeins segja, að mér finnst að menn ættu að sameinast um, að það geti ekki komið fyrir aftur, að það fólk, sem vill vinna í sjálfboðavinnu að landgræðslu, verði að hörfa frá vegna skorts á fræi og áburði. Það er nú augljóst, að þá þarf að breyta fjárlögum, ef þetta á að vera öruggt, og ég mundi vilja leggja til, að það verði farið alveg eftir till. landgræðslufulltrúans í því efni og sett sérstök fjárveiting í þessu skyni, sem ekki yrði blandað saman við annað, svo að enginn þyrfti að metast um, hvað í þetta ætti að fara. Og þessar 21/2 millj., sem þarf í þetta, eru auðvitað alger hégómi samanborið við það stórkostlega menningarstarf, sem leysist úr læðingi, ef þetta er lagt fram af ríkisins hálfu, og svo allt það beina gagn, sem af þessu verður. Sennilega er það langsamlega bezta fjárfesting, sem ríkið getur lagt í, að leggja þetta fé fram. Satt að segja þykir mér slæmt, að það skyldi koma fyrir s.l. ár, að þetta var ekki lagt fram, ég verð að segja, hvað sem fjárveitingunni leið, þegar um þvílíka fjárhæð var að ræða og slíkt málefni. En sleppum því og sameinumst um að bæta úr þessu og laga fjárlögin í þessu skyni, þegar þar að kemur, og ég vona að hv. fjvn: hafi forustu í því, með góðum stuðningi hæstv. ráðh., sem hér hefur raunar verið lýst.