12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3538)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh., sem jafnframt er formaður stjórnar atvinnumálanefndar ríkisins, hefur gefið munnlegt svar við fsp. og sömuleiðis látið útbýta fróðlegri skýrslu, þar sem flokkaðar eru lánveitingar atvinnumálanefndarinnar. Það er mjög gott, að þessari skýrslu skuli hafa verið útbýtt, en ég vil leyfa mér að taka undir það, sem kom fram hér frá a.m.k. einum ræðumanni, að æskilegt væri, að skýrslan væri enn ítarlegri, þannig að þar væri a.m.k. gerð grein fyrir því, til hvaða staða lánin hafa farið í kjördæminu. Flokkunin er hér eingöngu miðuð við kjördæmin. Einnig væri fróðlegt að vita um lántakendurna. Þeir eru ekki svo margir, að það hefði ekki verið vinnandi vegur að gefa skýrslu um þá, en aðallega legg ég samt áherzlu á hitt, að slíkri skýrslu hefði átt að fylgja sundurliðun á lánum hvers kjördæmis eftir stöðum. Ég vil einnig taka undir það, sem hér hefur komið fram í umr., og hafði ætlað að vekja athygli á því, ef ekki hefðu aðrir gerzt til þess, að mér sýnist ástæðulaust að blanda saman og gefa skýrslu um lánveitingar samtals frá atvinnumálanefndinni og frá Atvinnujöfnunarsjóði og Fiskveiðasjóði. Þetta eru stofnanir, sem allar starfa samkv. sérstökum lögum. Atvinnumálanefnd starfar eftir lögum um það efni til að útrýma atvinnuleysi, Fiskveiðasjóður starfar að því að veita lán eftir alveg ákveðnum reglum út á fiskiskip og fiskvinnslustöðvar og Atvinnujöfnunarsjóður starfar að því, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, eða þannig skil ég löggjöfina um hann, að veita fjárhagslegan stuðning til þeirra landshluta, sem eiga í vök að verjast vegna fólksflutninga. Það er ekki ástæða til þess að blanda þessu saman. Ég ætla, að Fiskveiðasjóður veiti eðlileg lán hvernig sem á stendur og eftir því sem fé er til, hvort sem atvinnuleysi er eða ekki og eins er um Atvinnujöfnunarsjóð.

Aðalerindi mitt hingað var að spyrjast fyrir um tvo liði, sem eru tilgreindir hér í skýrslunum sérstaklega. Annar liðurinn nefnist atvinna skólafólks og hinn nefnist opinberar framkvæmdir. Til þessa hefur verið varið töluverðu fé. Í atvinnu handa skólafólki hefur verið varið rúmum 16 millj. og til opinberra framkvæmda nálega 97 millj. af því fé, sem atvinnumálanefndin hefur haft til meðferðar. Nú sé ég hér í einni skýrslunni, að um þetta fé, sem tilgreint er í tveim liðum, er, ef ég hef tekið rétt eftir, ekki um neinar umsóknir að ræða frá neinum aðila, hvorki um fjárveitingar til þess að skapa atvinnu handa skólafólki eða til opinberra framkvæmda. Því er ætlun mín að spyrja um það, eftir hvaða reglum þessu fé hafi verið úthlutað. Hæstv. ráðh. gat þess, að fé til opinberra framkvæmda hefði verið úthlutað í samráði við opinberar stofnanir og vil ég þá spyrja, á hvern hátt það hefur mátt verða, að slíkt yrði gert í samráði við allar þær opinberu stofnanir, sem þarna eiga hlut að máli, hvort þær hafi þá haft einhverja samstarfsnefnd, sem hafi gert sameiginlegar till. um þetta. En jafnframt vil ég svo spyrja um hitt: Eftir hvaða reglum hefur verið úthlutað fé vegna atvinnu skólafólks? Ég spyr vegna þess, að mér er kunnugt um, að á sumum stöðum, þar sem verulegt atvinnuleysi var s.l. vetur og ég hygg í sumar einnig, hefur engu slíku fé verið úthlutað vegna atvinnu til skólafólks. Þess vegna er ég að grennslast eftir þessu.