12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í D-deild Alþingistíðinda. (3539)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt að ræða þessa skýrslu atvinnumálanefndar neitt að ráði með því að hafa aðeins 5 mín. til umráða, en ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós óánægju mína með skiptingu á því lánsfé, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur haft yfir að ráða. Ég skal játa það fúslega, að erfitt er að skipta fé sem þessu svo að öllum líki, en það sem ég held, að atvinnumálanefndin hafi um of einblínt á, er tala atvinnulausra í byrjun ársins eins og fram kemur í einni af þessum töflum 29. febr. 1969. Þar kemur réttilega fram, að af atvinnulausum á landinu eru í Vestfjarðakjördæmi aðeins 9.8% atvinnulausir. En þá er því við að bæta og til skýringa, að það var ekkert verkfali eða neinar vinnustöðvanir í verstöðvum í þessu kjördæmi. Þar var róið og allir sjómenn í skiprúmi á sama tíma og flestir aðrir voru í verkfalli eða höfðu ekki hafið róðra, svo að þetta er ekki einhlítur mælikvarði á það, hvernig atvinnuástandið hefði verið, ef framleiðslutækin hefðu alls staðar verið í gangi eins og þau voru á Vestfjörðum. En það; sem mér finnst ósanngjarnast við úthlutunina, er það, að ekki er afgreitt frá hendi atvinnumálanefndar eitt einasta lán til iðnaðar á Vestfjörðum en þar var verulegt atvinnuleysi, sérstaklega á hinum minni stöðum, og það harma ég mest, að atvinnumálanefndin skuli ekki hafa gert. Hitt finnst mér koma úr hörðustu átt, þegar þm. úr Reykjavík og einn þm. úr Reykjaneskjördæmi fara að væla hér um úthlutun á þessu fé — í þessum kjördæmum, þangað sem fólkið hefur flykkzt á undanförnum árum og í þessum kjördæmum þar sem ríkisvaldið hefur haldið uppi stórfelldri fjárfestingarstarfsemi og stórfelldri atvinnu, eins og í Reykjaneskjördæmi með byggingu álverksmiðjunnar. Það er alveg rétt, að þessi hv. þm. barðist ekki gegn því. Hann setti báðar hendurnar í vasana, þegar greidd voru atkv. um álverksmiðjuna á sínum tíma, en kjördæmin nutu góðs af því samt, og mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar þessir menn eru að kvarta út af Atvinnujöfnunarsjóði, sem er auðvitað eina mótvægið, sem landsbyggðin hefur fengið hér við þéttbýliskjarnanum við Faxaflóa. Ég tel, að ekki sé hægt að ganga lengra en gert hefur verið í sambandi við Atvinnujöfnunarsjóð, en fyrst atvinnumálanefnd ríkisins lætur fylgja hér með sérstaka töflu nr. 1 um lánveitingar, bæði sínar eigin, sem auðvitað var um spurt og sjálfsagt var og eðlilegt að kæmi fram, og einnig sundurliðun eftir kjördæmum á lánveitingum Atvinnujöfnunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs, þá vil ég mjög eindregið skora á atvinnumálanefndina að bæta nú við þessa töflu annarri töflu um það, hvernig húsnæðismálalánum hefur verið skipt milli kjördæma á undanförnum árum og hafa Breiðholtið þár með, fá þar líka samanburð. Það má líka gera grein fyrir því, hvað ríkið leggur til atvinnu í hinum einstöku kjördæmum og hvort þar er ekki misskipt. Það væri fróðlegt, ef allt þetta kæmi í dagsins ljós, fyrst verið er að nefna hér tvo sjóði.

Mér finnst auðvitað ekki eðlilegt að vera að spyrjast fyrir um hvert einasta atriði eins og hv. þm. hafa gert. Annar spyr um úthlutun til Reykjavíkur, og svo kemur hinn og lætur prenta fsp. um úthlutun í Reykjaneskjördæmi. Það hefði þá átt að halda áfram. Þetta gat allt verið ein fsp. og það hlýtur að vera áhugamál manna að fá að vita, hvernig þessum lánum var í heild úthlutað í hverju kjördæmi, en ekki fá eitt kjördæmi fyrir sig út úr dæminu. Og þá væri fróðlegt að sjá, hvar mestu fjármagni hefur verið varið til þess að halda uppi atvinnu og uppbyggingu í hinum einstöku kjördæmum.

Mér fannst mjög leiðinlegt til þess að vita, þegar einn ágætur maður, góður vinur minn, fór að kvarta í sinni ræðu hér áðan í sambandi við úthlutun Atvinnujöfnunarsjóðs, þegar hann veit, að fólkið hefur flykkzt einmitt hingað. Af hverju hefur það flykkzt hingað? Vegna þess, að það hefur talið lífsbaráttuna þægilegri og betri á þessu þéttbýlissvæði heldur en víða úti um land. Og það þarf ekki að öfundast við landsbyggðina, það ætla ég að segja bæði þessum hv. þm. og öðrum, sem er líkt ástatt fyrir andlega, það þarf ekki að öfundast við landsbyggðina í sambandi við skiptingu á fjármagni.