12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg, þó að umr. séu orðnar langar, og þá fyrst og fremst verð ég að segja það, að umsóknir til atvinnumálanefndar ríkisins úr Reykjaneskjördæmi hafa fengið vægast sagt lítinn hljómgrunn. En þó er þess að geta, eins og hæstv. forsrh. drap á áðan, að það hafa orðið undirtektir núna við umsókn eins stórs og góðs fyrirtækis í Kópavogi, sem vissulega fellur inn í þann ramma, sem úthlutun atvinnumálanefndar ríkisins átti að fjalla um, en það var til gjaldeyrisskapandi framkvæmda og atvinnuskapandi. Þess er að vænta, að þessi niðursuðuverksmiðja fái nú skjóta og góða afgreiðslu. Að öðru leyti verð ég að segja, að sem heild er hlutur þessa svæðis nokkuð rýr vegna þess, að sú staða er komin upp vegna sveiflna í afla, að vandræðaástand blasir við. Það er ekki hægt að líta fram hjá því. Það er engum sérstökum að kenna. En í annarri þál., sem ég var með hér áður, kom fram í grg., að afli var hér suðvestanlands á síld t.d. fyrir 4 árum 187 þús. tonn, en var í fyrra 16 þús. tonn. Það er ekki einu sinni tíundi hluti þess, sem var, og auk þess var mjög mikil síldarsöltun og önnur starfsemi við sjávarútveginn hér. Þessi þáttur hefur nú fallið niður í algert lágmark. Þá hafa mörg iðnaðarfyrirtæki sótt um fyrirgreiðslu, úr Kópavogi, úr Hafnarfirði og af Suðurnesjum, en fengið litla áheyrn. Þó ber það að þakka, sem hæstv. forsrh, gat um, að þeir munu vera mjög til hjálpar með sínar 50 millj. í skipasmíðastöðvar og þar mun Reykjaneskjördæmi njóta góðs af og er það vissulega stórt spor. Að öðru leyti vil ég taka undir orð hæstv. fjmrh. varðandi Atvinnujöfnunarsjóð. Hann hefur allt öðru hlutverki að gegna og sú var raunin í mörg, mörg ár, að Reykjanes fékk þar ekki krónu undir neinum kringumstæðum og ekki önnur svæði í kjördæminu. Þó hefur það gerzt nú, að stjórnin hefur litið með betri augum á það ástand, sem þar er að skapast og hjálpar jafnvel til við bátakaup. Þá vil ég líka vekja athygli á því, svo að það komist til hæstv. fjmrh., sem er formaður sjóðsins, að það er engin lausn að taka bát úr Reykjavík eða Reykjaneskjördæmi til atvinnujöfnunar út um land með aðstoð sjóðsins og veita til þess mun stærri upphæð en viðkomandi eigandi hefði þurft til að reka hann á þessu svæði, en skilja eftir atvinnuleysi á þessu svæði. Það er engin lausn í sjálfu sér, ekki nokkur, til þess þarf önnur úrræði. Það var megintilgangur minn með því að standa upp að vekja athygli á því, að það er engin heildarlausn að færa atvinnutækin þannig á milli, þó að staðirnir fyrir norðan og austan þurfi sannarlega á atvinnutækjum að halda. Lausnin verður að vera þannig, að það skapist ekki vandræði við tilflutninga og skapist ekki atvinnuleysi á þeim stað, sem atvinnutækin eru flutt frá, og þar á ég sérstaklega við bátakaupin. Norðurlandið er ekki öfundsvert af þeim peningum eða Austfirðingarnir af þeirri hjálp, sem þeir hafa fengið núna, þegar síldin er á bak og burt. Nei, sannarlega þarf að hjálpa fólkinu, sem þar býr, en það má ekki vera á kostnað þess fólks, sem hér býr, að það sé atvinnulaust á eftir. Lausnin er ekki fólgin í slíku.